Aron Þórður Albertsson aronthordur@mbl.is Konig Willem II Stadion í Tilburg er leikvöllur íslenska landsliðsins þegar það leikur á móti Frökkum í dag. Leikvangurinn er afar glæsilegur en hann tekur tæplega 15 þúsund manns í sæti.

Aron Þórður Albertsson

aronthordur@mbl.is

Konig Willem II Stadion í Tilburg er leikvöllur íslenska landsliðsins þegar það leikur á móti Frökkum í dag. Leikvangurinn er afar glæsilegur en hann tekur tæplega 15 þúsund manns í sæti. Örfáir miðar eru eftir á leikinn en gera má ráð fyrir að Íslendingar muni eiga um það bil fimmtung stúkunnar á leiknum í dag. Leikvangurinn er fjölnota mannvirki en hefur undanfarin ár verið heimavöllur Willem II sem leikur í Eredevise, efstu deild hollensku knattspyrnunnar.

Þrátt fyrir að Willem II sé ekki stærsta knattspyrnuliðið í Evrópuboltanum hafa stjórstjörnur á borð við Jaap Stam, Marc Overmars og Sami Hyypia leikið með liðinu í gegnum árin. Völlurinn var reistur árið 1995 á sama stað og fyrri heimavöllur Willem II, Gemeenteljik Sportpark Tilburg sem var völlur liðsins frá árinu 1919 til ársins 1992.

Þegar völlurinn var vígður fyrir rúmum 20 árum bar hann nafnið Willem II Stadion en það var ekki fyrr en 2009 sem Koning bættist aftan við nafn vallarins.

Það var gert til þess að auka vægi konungsins Willems II í nafni vallarins en Willem II réð ríkjum í Hollandi um miðja 19. öldina.

Getur myndast góð stemning

Þrátt fyrir að Konig Willem II Stadion í Tilburg sé ekki stærsti völlur Hollands er hægt að mynda mjög góða stemningu á honum. Engin hlaupabraut er í kringum völlinn sem gerir fólki kleift að vera nær látunum auk þess sem yfirbyggð stúka vallarins nær allan hringinn.

Yfirbyggingin skapar ekki einungis skjól heldur magnast öll stemning sem myndast á vellinum. Þetta er því tilvalið tækifæri fyrir stuðningsmenn Íslands að láta vel í sér heyra og mynda góða stemningu á vellinum í dag.