— Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Orkustofnun hefur veitt málmleitarfyrirtækinu Iceland Resources (IR) leyfi til fimm ára til leitar og rannsókna á málmum í Öxnadal, Hörgárdal og víðar á Tröllaskaga.

Orkustofnun hefur veitt málmleitarfyrirtækinu Iceland Resources (IR) leyfi til fimm ára til leitar og rannsókna á málmum í Öxnadal, Hörgárdal og víðar á Tröllaskaga. Leyfið tekur til leitar og rannsókna á málmum með sérstaka áherslu á gull og kopar á um 1.013 ferkílómetra svæði. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Orkustofnun.

Iceland Resources er að fullu í eigu félagsins JV Capital Ltd í London sem er í jafnri eigu Vilhjálms Þórs Vilhjálmssonar, framkvæmdastjóra IR, og Vilhjálms Kristins Eyjólfssonar, stjórnarformanns félagsins. JV Capital Ltd. leggur áherslu á að fjármagna rannsóknir og námuverkefni á norðurslóðum en félagið á meðal annars félög sem eiga rannsóknarleyfi á Grænlandi, í Þormóðsdal og víðar á Íslandi. Rannsóknirnar hafa verið fjármagnaðar með samstarfssamningi við kanadíska félagið Arak Resources Ltd sem verða mun eigandi 75% hlutafjár að frumrannsóknum loknum. Arak er almenningshlutafélag sem skráð er í kauphöll í Kanada.

Stærsti hluthafi Arak er félagið Exchange & Minerals Ltd en það félag er hluthafi í fjöldamörgum verkefnum og félögum í flestum heimsálfum, að því er kemur fram í leyfisumsókn Iceland Resources.

Í samtali við Morgunblaðið fyrr á árinu sagðist Vilhjálmur Þór vera nokkuð bjartsýnn á að finna gull á Íslandi, en þetta er annað leyfið sem Orkustofnun veitir IR. Þá er félagið með sex aðrar leyfisumsóknir í gangi á nokkrum stöðum á landinu, meðal annars á Reykjanesi, í Hveragerði, Reyðarfirði, Sælingsdal og Arnarfirði.