Í Hollandi Sindri Sverrisson sindris@mbl.is „Það má kannski segja að Frakkar hafi allt. Þess vegna þurfum við helst að koma þeim út úr sínum leik; láta þær spila öðruvísi en þær vilja spila.

Í Hollandi

Sindri Sverrisson

sindris@mbl.is

„Það má kannski segja að Frakkar hafi allt. Þess vegna þurfum við helst að koma þeim út úr sínum leik; láta þær spila öðruvísi en þær vilja spila. Við erum búin að setja upp ákveðnar leiðir til þess og munum ná því. Þeim mun líða illa og þá mun okkur ganga vel í þessum leik,“ segir Glódís Perla Viggósdóttir, landsliðskona í knattspyrnu, fyrir leikinn við Frakkland á EM í kvöld.

Þrátt fyrir að vera aðeins 22 ára gömul er Glódís fyrir löngu orðin lykilmaður í varnarleik Íslands. Hún fékk mikla eldskírn og stóð sig frábærlega á Evrópumótinu í Svíþjóð fyrir fjórum árum, gerðist síðan atvinnumaður og skrifaði í nýliðinni viku undir samning við sænska stórliðið Rosengård.

Ljóst er að mikið mun mæða á Glódísi og öðrum í varnarleik Íslands í kvöld, enda Frakkar af mörgum taldir líklegastir til að verða Evrópumeistarar, en Glódís var kokhraust þegar hún ræddi við Morgunblaðið í aðdraganda leiksins:

„Við höfum farið vel yfir þeirra styrkleika og veikleika og komist að því að það sem við höfum fyrst og fremst fram yfir þær er baráttan, íslenska geðveikin, hugarfarið. Það er þannig sem við erum að fara að vinna þennan leik. Við munum spila frábæra vörn og gefa allt í þetta. Ef við verðum 100% getum við unnið þær,“ sagði Glódís.

Vörnin og hápressan

„Að mínu mati unnum við undankeppnina á varnarleik. Við spiluðum geggjaða vörn alla undankeppnina og hápressan var til algjörrar fyrirmyndar. Þetta er það sem við þurfum að taka með okkur inn í þetta mót, því það er varnarleikurinn sem mun koma okkur langt hérna líka,“ sagði Glódís, en einu mörkin sem Ísland fékk á sig í undankeppninni komu í síðasta leiknum, þegar EM-sætið var þegar í höfn.

Ísland komst í 8-liða úrslit á EM fyrir fjórum árum og ætlar sér að minnsta kosti sama árangur í ár:

„Við settum okkur þetta markmið og ég er ótrúlega vongóð um að við náum því. Við höfum talað um að við þurfum fimm stig til að ná þessu markmiði og við stefnum á þrjú stig strax í fyrsta leik. Það er það eina sem við horfum á núna,“ sagði Glódís.