Hörður Pálsson fæddist 4. nóvember 1928. Hann lést 1. júlí 2017.

Útför Harðar fór fram 6. júlí 2017.

Elsku afi, takk fyrir allar minningarnar og allt sem þú kenndir okkur. Ég var svo montinn af lambinu, henni Doppu, sem þú gafst mér þótt ég skildi ekkert í því þegar ég var yngri hvert lömbin hennar færu eiginlega. Það var alltaf gaman að koma í sveitina og upplifa ævintýri þar, eins og að fá að vera með í dráttarvélinni, sveifla sér í kaðlinum inni í hlöðu eða fá að skjóta úr byssunni, sem mamma sagði að ég mætti alls ekki segja hinni ömmu og hinum afa frá. Ég hlakkaði líka alltaf til að fá að fara í sveitina og prófa fjórhjólið hans afa og þær urðu nú ófáar ferðirnar um túnin. Mest af öllu var þó skemmtilegast að spjalla við afa um allt milli himins og jarðar, en kannski aðallega veðrið – og auðvitað fótboltann. Ég er viss um að ef ég er nógu heppinn einn daginn til þess að eignast börn og barnabörn munu þau fá að heyra nóg af sögum af afa mínum í sveitinni. Þú verður alltaf í hjarta okkar. Þannig er okkur bræðrum báðum hugsað til þín nú þegar við kveðjum þig hinstu kveðju.

Drottinn er minn hirðir,

mig mun ekkert bresta.

Á grænum grundum

lætur hann mig hvílast,

leiðir mig að vötnum,

þar sem ég má næðis njóta.

Hann hressir sál mína,

leiðir mig um rétta vegu

fyrir sakir nafns síns.

Jafnvel þótt ég fari um dimman dal,

óttast ég ekkert illt,

því að þú ert hjá mér,

sproti þinn og stafur hugga mig.

(Úr 23. Davíðssálmi)

Þínir afastrákar,

Grétar og Hrannar.