Þótt spár bendi nú til að vænta megi breytinga á stöðu flokka er ólíklegt að vegferð Þýskalands sé að breytast

Margur, sem í fyrra horfði til þýsku kosninganna í september næstkomandi, taldi óvíst að Merkel kanslari myndi treysta sér í þær. Staða hennar hafði veikst af ýmsum ástæðum. Hin alvarlegasta þeirra snerist um innflytjendamál. Þar þótti kanslarinn bregðast við miklum straumi þeirra til Evrópu, og Þýskalands sérstaklega, af óðagoti og dómgreindarleysi í senn. Slík blanda er afleit. En það sem verra var, voru þetta eiginleikar sem verið höfðu í órafjarlægð frá kanslaranum. Merkel hefur jafnan þótt traust og afar varkár, jafnvel svo að löndum hennar hefur stundum þótt nóg um.

Á þessum tíma minnkaði stuðningur við flokk hennar verulega. Og samstarfsflokkurinn frá Bæjaralandi gaf til kynna að þar á bæ færu efasemdir um forystu kanslarans hratt vaxandi.

Um sama leyti ákvað Jafnaðarmannaflokkurinn að skipta um leiðtoga og þar með kanslaraefni. Flokkurinn er í stjórnarsamstarfi með Kristilegum í landstjórninni en lítur á sig sem helsta keppinaut þeirra um forystuhlutverkið í landinu. Martin Schulz varð formaður flokksins. Hann hafði verið forseti þings ESB í 5 ár og starfað á vettvangi þess í tvo áratugi. Fyrst eftir kjör hans jókst fylgi Jafnaðarmanna verulega og flokkurinn naut þess byrs í fylkiskosningu. En sú bylgja stóð stutt.

Þýskar skoðanakannanir sýna nú að flokkur Merkel er á ný kominn með myndarlega forystu. Samkvæmt þeim nýtur hann nú rúmlega 38% fylgis á landsvísu en Jafnaðarflokkurinn hefur aðeins 24% fylgi. Öllum er rétt að taka tölur sem lesa má úr skoðanakönnunum með meiri fyrirvara en áður, eftir að úrslit kosninga hafa orðið allt önnur en spár gáfu til kynna.

Aðrar vísbendingar þessara kannana en um stóru flokkana eru einnig eftirtektarverðar. Þær sýna að flokki sem lýsir sér sem Nýjum kosti fyrir Þýskaland (AfD) hefur ekki tekist að halda flugi. Þegar mest loft var undir vængjum hans virtist hann hafa um það bil 14% fylgi. Síðustu vikur gefa kannanir til kynna að fylgi AfD sé nokkuð stöðugt í kringum 8%. Gangi það eftir mun flokkurinn komast yfir 5% hindrunina og fá nálægt 60 þingmenn kjörna á þingið í Berlín.

En það má lesa önnur tíðindi út úr könnunum. Þau snúast um Frjálsa demókrata. Sá flokkur virðist vera með svipað fylgi og AfD og jafnvel ívið meira. Fari það svo og annað það sem fyrr er nefnt þá gæti Merkel tekist að halda Jafnaðarmönnum fyrir utan ríkisstjórn.

Frjálsir demókratar hafa verið fyrsti kostur Kristilegra um samstarfsflokk. Fylgi þeirra hefur þó ekki alltaf dugað til meirihlutastjórnar.

Merkel var í forystu fyrir samsteypustjórn með Frjálslyndum frá árinu 2009 - 2013 og Helmut Kohl var með þá í sinni stjórn frá 1982 - 1998. Síðustu tölur í könnunum benda til að alls ekki sé útilokað að þessi stjórnarmöguleiki opnist á ný eftir rúma tvo mánuði.

Eins og staðan virðist nú myndu Jafnaðarmenn, Vinstri flokkurinn og Græningjar verða samferða í stjórnarandstöðunni. Allir flokkar í ríkisþinginu munu líta á þingmenn AfD sem „hina ósnertanlegu“, eins og leitast hefur verið við að umgangast sambærilega flokka í Skandinavíu, með misgóðum árangri þó.

Ekki verður annað sagt en að myndin sem líklegast er að muni blasa við í Þýskalandi eftir 24. september n.k. verði mjög ólík þeirri sem dregin var upp fyrir ári eða svo. En ítrekað skal, að rétt er að hafa vara á könnunum. Allt þar til daginn fyrir bresku kosningarnar var talið að May forsætisráðherra myndi styrkja meirihluta sinn í þinginu mjög mikið. Hún vann vissulega góðan sigur og bætti við sig 6 prósentustigum, sem er verulegt.

En eins og atkvæðin lögðust í einstökum kjördæmum blasti sigurinn við sem tap þegar morgnaði eftir kosninganótt.