Jæja, þá er það komið á hreint. Ég er víst búin að eitra fyrir börnunum mínum frá blautu barnsbeini og nánast ótrúlegt að þau séu hreinlega enn á lífi! Það ætti bara að loka mig inni.

Jæja, þá er það komið á hreint. Ég er víst búin að eitra fyrir börnunum mínum frá blautu barnsbeini og nánast ótrúlegt að þau séu hreinlega enn á lífi! Það ætti bara að loka mig inni. Synirnir þamba nefnilega kúamjólk í lítravís og borða bæði kjöt, ost, fisk og egg. Þetta er samkvæmt nýjustu vegan-heimildamyndinni, What the health , allt alveg baneitrað!

Ég verð að segja að ég dauðsé eftir að hafa horft á þessa mynd. Ekki bara eyðilagði hún daginn fyrir mér, heldur kollvarpaði hún öllum mínum hugmyndum um heilbrigði þegar kemur að mat. Og ég sat eftir með óbragð í munninum og samviskubit yfir öllum dauðu dýrunum sem farið hafa í gegnum minn líkama. Öll dýrin sem létu lífið svo ég gæti borðað steik eða beikon. En það er líka spurning hvort ég þurfi að trúa öllu sem þar kom fram. Ungi maðurinn sem framleiðir myndina viðurkennir í upphafi að hann sé með sjúkdómafóbíu. Í myndinni leitar hann uppi lækna sem hann fær til þess að lýsa því hvernig mjólkurvörur og dýraafurðir séu rót alls hins illa. Hjartasjúkdómar, sykursýki og krabbamein; allt er þetta kjöti, fiski og mjólkurvörum að kenna núna. Ég bara spyr: af hverju er ekki mannkynið löngu útdautt?

Það er oft tönnlast á að maðurinn sé eina skepnan sem drekki mjólk úr öðru dýri. Við höfum gert það í tólf þúsund ár svona um það bil þannig að það er löng hefð fyrir því. Hvað verður um allar beljur heims ef við hættum því núna? Hefur einhver hugsað út í það? Það er þá spurning að leyfa þeim að leika lausum hala um miðborgina. Eða svínum og kjúklingum, sleppum þessu bara öllu lausu. Eða eigum við bara að útrýma öllum þessum dýrum? Nei, það er líka ljótt.

Yfirleitt hefur verið sagt að hvítt kjúklingakjöt sé svo magurt og hollt. En kjúlli er víst alveg svakalega óhollur. Það er fljótlegra að skjóta sig bara beint í hjartastað. Og nautakjötið, það ræðst beint á æðarnar og heldur svaka partí. Við bara vitum það ekki, en það verður allt í sjokki á þeirri mínútu sem kjötið rennur ofan í maga. Innrásarher í æðum og stríð innvortis. Þeir sem eru á paleo-fæði eru algjörlega að drepa sig, samkvæmt myndinni. Þótt þeir séu grannir og flottir, stæltir og stinnir, þá eru æðar þeirra stútfullar af ógeði, fitu og klumpum og ég veit ekki hvað. Tifandi tímasprengja.

Undanfarin ár hef ég minnkað kjötneyslu og aukið fiskneyslu. Hélt að það væri málið. En fiskurinn er víst líka baneitraður af mengun úr sjónum.

Já, það er vandlifað. Fyrst er búið að dissa hveiti og sykur. Nú er líka búið að dissa mjólkurafurðir, kjöt og fisk. Það má semsagt bara borða grænmeti og ávexti. Og baunir. Þá verðum við öll 125 ára. Heimurinn verður yfirfullur af eldgömlu fólki, frjálsum beljum, svínum og kjúklingum. Æ, stundum er bara „ignorance bliss“. Ég held ég fari að spæla mér egg. asdis@mbl.is

Ásdís Ásgeirsdóttir

Höf.: Ásdís Ásgeirsdóttir