Skipaflutningar Cosco verður þriðja stærsta skipafélag heims.
Skipaflutningar Cosco verður þriðja stærsta skipafélag heims. — AFP
Kínverska skipafélagið Cosco hefur lagt fram og fengið samþykkt kauptilboð í skipafélagið Orient Overseas Container Line, OOCL, en kaupverðið mun vera um 6,3 milljarðar bandaríkjadala.

Kínverska skipafélagið Cosco hefur lagt fram og fengið samþykkt kauptilboð í skipafélagið Orient Overseas Container Line, OOCL, en kaupverðið mun vera um 6,3 milljarðar bandaríkjadala. Þegar kaupin hafa verið fullfrágengin verður Cosco að þriðja stærsta skipafélagi heims, á eftir danska félaginu Mærsk og Mediterranean Shipping Company, MSC, sem upprunnið er á Ítalíu.

Cosco, sem siglir undir flaggi Hong Kong, hefur verið að þenja seglin að undanförnu, á sama tíma og hinn alþjóðlegi skipaflutningamarkaður hefur verið í niðursveiflu. Sérfræðingar í skipaheiminum telja að yfirtakan sé að undirlagi kínverskra stjórnvalda. Það rennir stoðum undir þá tilgátu að ríkisbankinn Bank of China fjármagnar kaupin að hluta.

Keyptu hafnir fyrir um 20 ma.

Uppgangur Cosco kemur á svipuðum tíma og greint var frá því að Kínverjar og kínversk fyrirtæki hefðu keypt hluti í erlendum höfnum fyrir samtals um 20 milljarða bandaríkjadala á fyrstu sex mánuðum þessa árs. Mun það vera tvöfalt hærri upphæð en þeir eyddu í slík kaup á fyrstu sex mánuðum ársins 2016.

Í greiningu breska blaðsins Financial Times segir að bæði sameiningu Cosco og OOCL sem og uppkaup Kínverja á höfnum erlendis megi skilja sem tilraun kínverskra stjórnvalda til þess að tryggja stöðu sína, þar sem ríkið hafi hingað til þurft að treysta á erlend skipafélög til þess að flytja út þann urmul af vörum sem framleiddar eru í Kína.

Þá sé þetta einnig liður í áformum Xi Jinpings, forseta Kínverja, um að treysta viðskiptasambönd landsins í bæði Asíu og Evrópu.

Þá geti hinn mikli eignarhlutur þeirra í evrópskum höfnum einnig veitt Kínverjum vogarafl þegar deilur koma upp á alþjóðavettvangi. sgs@mbl.is