Mengun Fólk hefur margsinnis orðið vart við mengun í Varmá að undanförnu og drápust fiskar þar nýverið.
Mengun Fólk hefur margsinnis orðið vart við mengun í Varmá að undanförnu og drápust fiskar þar nýverið. — Morgunblaðið/Golli
Vilhjálmur A. Kjartansson vilhjalmur@mbl.

Vilhjálmur A. Kjartansson

vilhjalmur@mbl.is

„Nei, við erum ekki komin með skýringu á því hvað veldur þessu en það er ljóst að eitthvert efni hefur komist í ána,“ segir Árni Davíðsson, staðgengill framkvæmdastjóra Heilbrigðiseftirlits Kjósarsvæðisins, spurður út í þá mengun sem komið hefur upp í Varmá í Mosfellsbæ.

„Ég tók gerlasýni [í gær] og búast má við niðurstöðu úr því eftir tvo til þrjá daga. Það sýnir okkur hins vegar aðeins ef það er einhver baktería sem hefur valdið dauða fiska í ánni, sem við teljum að sé ekki líklegt. Við höldum að einhver sé að hella niður einhverju efni eða verið sé að þvo og þrífa með einhverju sem lekur í ána,“ segir hann.

Þau efni sem líkleg eru til að valda dauða fiska í ánni eru að sögn Árna hvers konar skordýraeitur, klór og önnur sterk efni.

„Það þarf ekki mikið magn til að valda töluverðu tjóni. Samantekið eru um 100 dauðir fiskar í ánni,“ segir Árni, en um er að ræða lítinn urriða.

Margar tilkynningar í sumar

Mengunin sem talin er valda fiskdauðanum í ánni kemst í hana, að sögn Árna, þann 14. júlí sl. en það er þó ekki fyrsta mengunartilvikið sem komið hefur upp í ánni í sumar.

„Þetta eru nokkrir mengunarviðburðir á síðustu vikum sem hafa verið tilkynntir. Í sjálfu sér er það ekki óeðlilegt að eitthvað komist í ána, en ólíkt fyrri tilkynningum þá drepast fiskar ekki í ánni fyrr en 14. júlí,“ segir Árni.

Mengunaratvik miðast við tilkynningar frá fólki til heilbrigðiseftirlitsins, en Árni segir að þann 24. júní, 9. júlí og 16. júlí hafi borist ábendingar sem að hans mati benda allar til að einhvers konar sápa hafi komist í ána.

„Í engu þeirra tilvika varð vart við dauða fiska í ánni. Það er því eitthvert annað efni sem komist hefur í Varmá þann 14. júlí.“

Ekki er grunur um olíumengun en skýring á málinu fæst vonandi, að sögn Árna, á næstu dögum þegar meðal annars niðurstöður mælinga hans liggja ljósar fyrir.