Tilburg Guðbjörg Gunnarsdóttir og Sara Björk Gunnarsdóttir voru alvörugefnar á fréttamannafundinum á leikvanginum í Tilburg í gær.
Tilburg Guðbjörg Gunnarsdóttir og Sara Björk Gunnarsdóttir voru alvörugefnar á fréttamannafundinum á leikvanginum í Tilburg í gær. — Ljósmynd/KSÍ
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í Hollandi Sindri Sverrisson sindris@mbl.is Tilfinningin hjá manni eftir gærdaginn er sú að Frakkar hafi sáralitlar áhyggjur af leik sínum við Ísland hér í Tilburg í kvöld, þegar stelpurnar okkar hefja keppni á Evrópumótinu í knattspyrnu.

Í Hollandi

Sindri Sverrisson

sindris@mbl.is

Tilfinningin hjá manni eftir gærdaginn er sú að Frakkar hafi sáralitlar áhyggjur af leik sínum við Ísland hér í Tilburg í kvöld, þegar stelpurnar okkar hefja keppni á Evrópumótinu í knattspyrnu. Þjálfarar beggja liða, ásamt fyrirliðum, sátu fyrir svörum á fréttamannafundum í gær og án þess að geta fullyrt það, þá finnst manni eins og íslenska liðið hafi lagt mun meiri vinnu í greiningu á franska liðinu en öfugt.

Kannski vildi þjálfari Frakka, Olivier Echouafni, bara svona ólmur forðast að greina frá því hvað hann veit um íslenska liðið, en hann virtist ekki geta nefnt íslenskan leikmann á nafn án þess að líta á glósumiða og það eina sem hann hafði að segja um Ísland var að leikmennirnir væru duglegir og baráttuglaðir.

Vonandi kemur í ljós í kvöld að Frakkar hafi vanmetið Ísland duglega, eins og Guðbjörg Gunnarsdóttir landsliðsmarkvörður tók undir að gæti gerst, en Guðbjörg bætti líka við að Frakkar hefðu efni á hroka. Vonandi er keisarinn án fata, í þeim skilningi að hann telji muninn á Frakklandi og Íslandi mun meiri en hann raunverulega er, en kannski þarf keisarinn bara engin föt. Við erum að tala um besta leikmannahópinn af þeim öllum hér í Hollandi, leyfi ég mér að fullyrða, þó svo að Echouafni hafi reynt sitt besta til að láta eins og ríkjandi meistarar Þýskalands væru eina liðið sem telja mætti sigurstranglegt á mótinu.

Það var mun meiri alvara yfir Frey Alexanderssyni, Guðbjörgu og Söru Björk Gunnarsdóttur, á fundinum í gær en á fundi íslenska liðsins í fyrradag. Freyr sagði undirbúninginn ekki hafa getað verið betri og nú færi síðasti sólarhringurinn í að einblína á andlega þáttinn. Spennustigið, sem svo oft er talað um, þarf að vera rétt stillt. Félagi Freys, Davíð Snorri Jónasson, sem hefur farið níu utanlandsferðir síðustu misseri til að sjá Frakka spila, hefur fengið mikið hrós hjá leikmönnum fyrir ítarlega greiningu sína á leik þeirra, og vonandi hefur Ísland forskot hvað þennan undirbúning varðar.

Freyr tilkynnti leikmönnum byrjunarliðið í gær en það verður ekki gert opinbert fyrr en skömmu fyrir leik á morgun. Til gamans ætla ég að giska á að svona verði stillt upp, en þessi spá er án ábyrgðar. Guðbjörg – Glódís Perla, Sif, Anna Björk – Gunnhildur Yrsa, Sigríður Lára, Sara Björk, Hallbera – Agla María, Dagný, Fanndís.

Leikur Íslands og Frakklands hefst kl. 18.45 að íslenskum tíma.