Agla María Hún er yngsti leikmaðurinn í íslenska landsliðinu.
Agla María Hún er yngsti leikmaðurinn í íslenska landsliðinu. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Alexander Gunnar Kristjánsson alexander@mbl.is „Eigum við ekki að fara upp úr riðlinum og sjá svo til eftir það?

Alexander Gunnar Kristjánsson

alexander@mbl.is

„Eigum við ekki að fara upp úr riðlinum og sjá svo til eftir það?“ segir Agla María Albertsdóttir, yngsti leikmaður kvennalandsliðsins, aðspurð hversu langt íslenska liðið eigi eftir að komast á mótinu.

Agla María er aðeins 17 ára gömul en hún er fyrir löngu orðin fastamaður í liði Stjörnunnar í toppbaráttu Pepsi-deildarinnar og er nú að stíga sín fyrstu skref með landsliðinu. Hún segir það frábæra tilfinningu að fá að æfa og spila með bestu leikmönnum landsins.

Agla María spilaði sinn fyrsta landsleik í mars en það var vináttuleikur gegn Slóvenum. Hún hefur aðeins leikið fjóra leiki með liðinu og því ljóst að skrefið er stórt inn á eitt stærsta knattspyrnumót í heimi. Hún er þó hvergi bangin.

„Ég er spenntust fyrir því að spila á móti Frökkum, sem eru með marga af bestu leikmönnum heims. Það verður geggjað að sýna þeim hvað við getum,“ segir hún áræðin.

En kom það á óvart að vera valin í hópinn? „Bæði og. Þetta gat dottið hvorum megin sem var. Í janúar gerði ég mér ekki neinar vonir um að vera valin en eftir því sem nær dró móti jukust líkurnar.“

Fjölskyldan góður stuðningur

Agla María stundar nám við Verslunarskólann samhliða boltanum. Hún viðurkennir að það gefist oft ekki mikill tími til að sinna frístundum utan boltans, sérstaklega ekki á sumrin. „Þetta getur verið dálítið tímafrekt en ég reyni að eyða tíma með fjölskyldunni inn á milli. Við ferðumst töluvert á veturna,“ segir hún.

Fjölskyldan lætur sig að sjálfsögðu ekki vanta á Evrópumótið. „Mamma og pabbi verða allan tímann og svo kemur bróðir minn á leik númer tvö á móti Sviss.“

Agla María segir fjölskylduna eiga stóran þátt í að hún hafi náð svona langt. „Þau fylgja mér við hvert fótmál og það er ómetanlegt að hafa svona stuðning.“