EM-Torgið Á Ingólfstorgi má fylgjast með landsliðinu. Leikurinn verður sýndur á risaskjá við suðurenda torgsins, en búist er við margmenni í kvöld.
EM-Torgið Á Ingólfstorgi má fylgjast með landsliðinu. Leikurinn verður sýndur á risaskjá við suðurenda torgsins, en búist er við margmenni í kvöld. — Morgunblaðið/Golli
Jón Birgir Eiríksson jbe@mbl.is Fyrsti leikur íslenska kvennalandsliðsins á Evrópumótinu í knattspyrnu í Hollandi fer fram í kvöld þegar leikið verður gegn geysisterku liði Frakka.

Jón Birgir Eiríksson

jbe@mbl.is

Fyrsti leikur íslenska kvennalandsliðsins á Evrópumótinu í knattspyrnu í Hollandi fer fram í kvöld þegar leikið verður gegn geysisterku liði Frakka.

Eftirvæntingin hjá íslenska liðinu er áþreifanleg, en ekki síður áhorfendum sem margir fylgdu stelpunum okkar til Hollands. Á hvern leik íslenska liðsins hafa selst um tvö þúsund miðar í miðasölu KSÍ, en ekki er vitað hve marga miða UEFA hefur selt Íslendingum.

Skrúðganga á leikvanginn

Leikið verður á König Willem II-leikvanginum í hollensku borginni Tilburg, en þar hefur einnig verið útbúið stuðningsmannasvæði (e. Fan Zone) þar sem íslenskir stuðningsmenn munu geta hist fyrir leikinn og hitað upp raddböndin.

Svæðið er á Pieter Vreede-torginu og munu íslensku tónlistarmennirnir Emmsjé Gauti, Glowie og Amabadama flytja tónlist. Þar eru einnig hoppkastalar fyrir börn, stórir skjáir og veitingasala. Þá munu „freestyle“-fótboltamenn leika listir sínar með fótbolta á lofti.

Að loknum tónleikunum verður gengið í fylgd lúðrasveitar frá stuðningsmannasvæðinu á leikvanginn, um 2,5 km vegalengd. Að loknum leik flytja strætisvagnar stuðningsmennina aftur til baka.

Margir valkostir á Íslandi

Heima á Íslandi mun heldur ekki væsa um áhorfendur, en í Reykjavík hefur t.a.m. verið útbúið svonefnt EM-torg á Ingólfstorgi þar sem fyrsti leikurinn verður sýndur á risaskjá, á borð við það sem borgarbúar fengu að kynnast í fyrra þegar karlalandsliðið lék í Frakklandi. Einnig má fylgjast með honum í Bæjarbíói í Hafnarfirði.

Ýmsir íþróttabarir munu einnig sýna leikinn, t.a.m. Lebowski-bar í miðbæ Reykjavíkur, Shake and Pizza í Grafarvogi, Stúdentakjallarinn í Háskóla Íslands auk þess sem hann verður sýndur á Snooker og Pool-stofunni í Lágmúla.

Landsleikurinn hefst klukkan 18.45 og verður sýndur á RÚV. Umræðuþáttur um leikinn hefst klukkan 18.15. Útsending frá leik Sviss og Austurríkis, sem leika með Íslandi í riðli, hefst klukkan 15.30 á RÚV.