Ásta Hermannsdóttir fæddist í Hafnarfirði 28. nóvember 1921. Hún lést á Vífilsstaðaspítala 10. júlí 2017.

Ásta var yngsta barn hjónanna Ara Hermanns Ólafssonar, f. 21. ágúst 1873 í Kirkjuskarði, Laxárdal, A-Hún., d. 3. júlí 1962 í Hafnarfirði, og Júlíönu Jónsdóttur, f. 6. mars 1879 í Bárðarbúð á Hellnum á Snæfellsnesi, d. 1. apríl 1961 í Reykjavík.

Systkini Ástu voru: 1)Vilberg Sigurjón, f. 6. apríl 1904, d. 2. maí 1985. 2) Guðmundur Hafsteinn, f. 23. febrúar 1906, d. 17. desember 1988. 3) Sigmundur Jóhann, f. 18. maí 1907, d. 15. ágúst 1917. 4) Lárus Stefán, f. 24. ágúst 1908, d. 10. júlí 1932. 5) Sveinbjörg, f. 12. maí 1911, d. 7. febrúar 2013. 6) Ólafía Steinunn, f. 14. janúar 1913, d. 23. júlí 2003. 7) Unnur, f. 18. janúar 1915, d. 25. mars 1934. 8) Ingiberg Sigmar Ágúst, f. 28. ágúst 1916, d. 3. maí 1982. 9) Laufey, f. 1. nóvember 1918, d. 23. mars 1985.

Hálfbróðir samfeðra, Haraldur Hermannsson, f. 11. desember 1899, d. 3. júlí 1944.

Ásta starfaði í fiskvinnu m.a. hjá Bæjarútgerð Hafnarfjarðar, er hún átti heima í fæðingarbæ sínum. Er til Reykjavíkur kom var hún m.a. vinnukona, áður en hún hóf störf hjá Málmbræðslu Ámunda Sigurðssonar í Skipholti. Þar voru m.a. steyptir rammar sem Ásta vann við að pússa og fleira. Síðar hóf hún vinnu við ræstingar í Tónabíói og vann þar í 25 ár eða til 65 ára aldurs.

Útför Ástu fer fram frá Fríkirkjunni í Hafnarfirði í dag, 18. júlí 2017, klukkan 13.

Ég man eftir fíngerðri konu, rauðhærðri og grannri, sem gekk létt við fót, örlítið álút, glaðvær, hafði hvellan hljóm í röddinni og sérstakt blik í augum er hún hló. Hún var kona sem hafði sig ekki mikið í frammi, var hlédræg og talaði fátt um sjálfa sig og sitt, en var kát og hló eftirminnilega, innilegum hlátri í góðum vinahópi oft með skemmtileg og hnyttin tilsvör.

Hún var jafnaldri föður míns, skólasystir hans í Barnaskóla Hafnarfjarðar, og nágranni, einnig góð vinkona elstu systur hans. Er þessi föðursystir mín flutti úr foreldrahúsum búferlum um langan veg, fór Ásta að venja komur sínar oftar á heimili foreldra minna og þá hefst löng og traust vinátta sem hélst alla tíð meðan foreldrar mínir lifðu.
Hún fæddist í Hafnarfirði 1921, í húsi er stóð neðarlega við Öldugötu þá nýreistu. Hús þetta var rifið 1970. Foreldrar hennar þá fluttir til Hafnarfjarðar nokkrum árum áður frá Reykjavík. Hún var yngsta barn foreldra sinna og var gefið nöfnin Árný Ásta. Fyrra nafnið festist ekki við hana og notaði hún það aldrei, er það nafn konu sem passaði hana mjög unga um stundarsakir er móðir hennar var veik, bjó sú kona í vesturbæ Hafnarfjarðar í húsi er nefnist Kóngsgerði. Ástu nafnið var hins vegar í höfuðið á vinkonu móður hennar er fluttist til vesturheims.
Í Hafnarfirði ólst hún upp í faðmi foreldra og eldri systkina, en systkinin voru alls tíu. Foreldrar hennar ákveða að flytjast til Hafnarfjarðar 1918 frá Reykjavík. Foreldrarnir Ari Hermann Ólafsson, Húnvetningur og Júlíana Jónsdóttir Snæfellingur að uppruna. Hermann vann á símstöðinni í Hafnarfirði um langan tíma og bar út símskeyti, þar til hann lét af störfum. Ásta átti heima á nokkrum stöðum í Hafnarfirði ásamt foreldrum sínum, m.a. á Hverfisgötu 38b en það hús byggði elsti bróðir Ástu, Vilberg. Hann var faðir Unnar sem reyndist frænku sinni og uppeldissystur alla tíð yndislega vel. Unnur lést 2012 og var fráfall hennar Ástu mikill harmur sem og öðrum ástvinum, blessuð sé minning hennar. Síðast áttu þau heima á Hverfisgötu 35b, en það hús átti Guðmundur bróðir Ástu. Foreldrar Ástu flytja til Reykjavíkur á nýjan leik árið 1949 og flytur hún með þeim úr fæðingarbæ sínum.
Ásta átti heima í Bogahlíð 18, í Reykjavík í um 40 ár við þröngan húsakost, eða allt þar til hún flytur í Norðurbrún 1, árið 2002 eftir erfið veikindi sem  hún náði sér aldrei af að fullu.
Ásta ferðaðist til útlanda og hafði ánægju af því, fór m.a. til London, Kaupmannahafnar og Rotterdam í Hollandi árið 1968, fór hún þangað með vinafólki sínu. Einnig ferðaðist hún innanlands m.a. norður í land og að Mývatni sem henni þótti ákaflega fallegur staður. Síðustu ár Ástu voru henni þungbær, enda hafði hún nær misst alla sjón og heyrn var líka takmörkuð. Hún kvartaði þó ekki yfir sínum örlögum, var æðrulaus allt þar til yfir lauk.  Á Norðurbrún 1, átti hún frábærar velgjörðarkonur sem reyndust henni yndislega vel og sinntu henni af alúð og natni alla tíð, Berglind G., Ingibjörg, Rósa og öllum hinum stúlkunum eru þökkuð störfin sem hjálpuðu henni að takast á við daginn.
Ásta heimsótti foreldra mína ætíð eftir að hún flytur til Reykjavíkur og hélt hún einstakri tryggð við þau og fylgdist af áhuga með afkomendum þeirra alla tíð. Hún var með okkur um langan tíma, var með okkur jafnt á gleði- sem sorgarstundum fjölskyldunnar. Hún kom fyrir hver jól, er hún lagði leið sína í kirkjugarðinn í Hafnarfirði og heiðraði minningu foreldra sinna er þar hvíla. Og á eftir var gott að koma úr garðinum og fá sér nýbakað jólabakkelsi og kaffi hjá gömlum vinum. Ásta var ákaflega trygg okkur öllum og við systkinin hugsum með virðingu og þakklæti til þessarar góðu konu. Börnum mínum var hún góð, og fylgdist hún með þeim og börnum þeirra af áhuga alla tíð. Sjálfur á ég Ástu mikið að þakka, þótt ekki sé við hæfi að rekja hér.

Guð blessi minningu elsku Ástu.

Ástþór Harðarson.