[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fótbolti Kristján Jónsson kris@mbl.is Indriði Sigurðsson, fyrirliði KR og fyrrverandi landsliðsmaður í knattspyrnu, hefur ákveðið að láta staðar numið í boltanum. Yfirlýsing þess efnis var send fjölmiðlum í gær úr herbúðum KR.

Fótbolti

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Indriði Sigurðsson, fyrirliði KR og fyrrverandi landsliðsmaður í knattspyrnu, hefur ákveðið að láta staðar numið í boltanum. Yfirlýsing þess efnis var send fjölmiðlum í gær úr herbúðum KR.

Indriði hefur ekki leikið með KR-liðinu síðustu vikurnar en fram hefur komið að hann er með brjósklos í baki sem gerir honum erfitt um vik. Á heimasíðu félagsins kemur fram að ákvörðunin sé tekin í samráði við lækni og sjúkraþjálfara.

Indriði lék sex deildarleiki með KR í sumar í upphafi Pepsí-deildarinnar en hans síðasti leikur var í Vestmannaeyjum 15. júní þegar ÍBV vann KR 3:1. Hefur Pálmi Rafn Pálmason verið fyrirliði KR í fjarveru Indriða.

Yfir 400 mótsleikir

Löngum og farsælum ferli er þá lokið en Indriði lék lengst af sem atvinnumaður í íþróttinni. Hann lék sína fyrstu meistaraflokksleiki í Íslandsmótinu með KR undir stjórn Atla Eðvaldssonar sumarið 1998. Var þá aðeins 17 ára. Að loknu tímabilinu 1999, þar sem KR varð Íslands- og bikarmeistari, hélt Indriði utan.

Samkvæmt tölum úr bókinni Íslensk knattspyrna lék hann 294 leiki í efstu deild í Noregi með Lilleström, Lyn og Viking frá Stafangri þar sem hann lauk atvinnumannsferlinum haustið 2015. Indriði lék einnig með Genk í Belgíu og lék þar 77 leiki í efstu deild. Leikirnir með KR í efstu deild hérlendis eru 51 talsins. Alls á Indriði þá að baki 422 leiki í efstu deild í þessum þremur löndum á nítján árum. Þá eru ótaldir 65 A-landsleikir fyrir Íslands hönd og skoraði Indriði í þeim tvö mörk.