Kristín Sunna Sigurðardóttir og Stefanía Hinriksdóttir skipa ferðanefnd fornbílaklúbbsins. Kristín Sunna gekk í klúbbinn að áeggjan afa síns. „Þú verður að prófa þetta til þess að átta þig á því hvað það gefur að keyra fornbíl. Það er viss tilfinning að setjast í gamlan bíl, detta inn í fortíðina og hafa fyrir því að keyra hann,“ segir Kristín sem ekur um á Volkswagen-bjöllu, árgerð 1973. Hún segir fornbíladellu vera sjúklegt áhugamál sem engin lækning sé til við.
Stefanía segir dagskrá fornbílaklúbbsins fjölbreytta. „Við förum árlega í Árbæjarsafnið á bílum og þá er fólk hvatt til að klæða sig í takt við árgang bílanna.“ Kristín Sunna grípur inn í samtalið hlæjandi. „Ég þarf að mæta í útvíðum buxum eins voru í tísku 1970.“ Stefanía ekur um á Bens 1986. Hún segir að góður félagsskapur og samrýndur hópur þar sem allir þekkja alla sé aðalsmerki Fornbílaklúbbs Íslands.