Nýr Herjólfur Smíði skipsins hófst í vor úti í Póllandi. Stefnt er að því að afhenda skipið í júní á næsta ári. Þrír verkfræðingar munu annast eftirlit.
Nýr Herjólfur Smíði skipsins hófst í vor úti í Póllandi. Stefnt er að því að afhenda skipið í júní á næsta ári. Þrír verkfræðingar munu annast eftirlit. — Mynd/Crist SA Gdansk
Sigtryggur Sigtryggsson sisi@mbl.is Fyrirtæki í Hong Kong mun annast eftirlit með smíði nýs Herjólfs í Póllandi. Það fyrirtæki átti langlægsta tilboðið. Tilboðin voru opnuð hjá Ríkiskaupum hinn 25. maí sl.

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Fyrirtæki í Hong Kong mun annast eftirlit með smíði nýs Herjólfs í Póllandi. Það fyrirtæki átti langlægsta tilboðið.

Tilboðin voru opnuð hjá Ríkiskaupum hinn 25. maí sl. Eftirfarandi þrjú tilboð bárust: Schulte Marine Concept Ltd. Hong Kong kr. 27.350.000,- (án vsk), Polarkonsult AS Svíþjóð kr. 81.840.800,- (án vsk) og Navis Íslandi kr. 78.654.900,- (án vsk). Hér eru tilboðsfjárhæðir reiknaðar yfir á íslenskar krónur miðað við gengi EUR (miðgengi SÍ) þann dag.

Þar sem svo gríðarlega miklu munaði á lægsta og næstlægsta tilboðinu, eða rúmum 50 milljónum, voru tilboðin skoðuð ofan í kjölinn. Eftir tveggja mánaða skoðun var svo tilboð lægstbjóðanda, Schulte Marine Concept, samþykkt hinn 21. júlí sl. samkvæmt upplýsingum Ragnars Davíðssonar, þjónustustjóra hjá Ríkiskaupum. „Farið var gaumgæfilega yfir tilboð lægstbjóðanda og gengið úr skugga um að tilboð þeirra væri í samræmi við áskilnað útboðsgagna,“ segir Ragnar.

Að hans sögn lagði verkkaupi, sem er Vegagerðin, ekki fram kostnaðaráætlun. Þegar slíkar upplýsingar liggi fyrir af hendi verkkaupa séu þær lesnar upp á opnunarfundi tilboða.

Samkvæmt útboðsgögnum skulu þrír eftirlitsmenn, allt verkfræðingar með mikla reynslu (5 ár eða meira), vera á smíðastaðnum í samtals 34 mannmánuði.

Samkvæmt þessu fær Schulte Marine Concept greiddar tæplega 800 þúsund krónur fyrir hvern mannmánuð en virðisaukaskattur er hér ekki meðreiknaður.

Smíðin hófst í vor

Starfsmenn skipasmíðastöðvarinnar Crist í Gdynia í Póllandi byrjuðu í vor að smíða nýjan Herjólf. Ráðgera Pólverjar að afhenda skipið í júní á næsta ári. Stefnt er að því að nýr Herjólfur hefji siglingar milli Vestmannaeyja og Landeyjahafnar fyrir Þjóðhátíðina það ár.

Nýi Herjólfur verður um 70 metra langur, um 15 metrar á breidd og djúpristan verður 2,8 metrar. Gert er ráð fyrir 10 manns í áhöfn. Skipið á að geta tekið 390 farþega en 150 til viðbótar yfir sumartímann.