Le Boreal
Le Boreal
Á morgun klukkan átta er áætlað að franska skemmtiferðaskipið Le Boreal leggist að aðalhafnargarðinum á Akranesi. Þetta eru mikil tíðindi fyrir bæjarfélagið og Faxaflóahafnir því Le Boreal er fyrsta skemmtiferðaskipið sem kemur til Akraness.

Á morgun klukkan átta er áætlað að franska skemmtiferðaskipið Le Boreal leggist að aðalhafnargarðinum á Akranesi.

Þetta eru mikil tíðindi fyrir bæjarfélagið og Faxaflóahafnir því Le Boreal er fyrsta skemmtiferðaskipið sem kemur til Akraness. Í tilefni af þessum tímamótum mun fulltrúi Faxaflóahafna afhenda skipstjóranum skjöld til minningar um atburðinn. Forystumenn á Akranesi munu einnig heimsækja skipið.

Le Boreal var smíðað árið 2010 og er 10.944 brúttótonn. Skipið er 142 metrar að lengd, breidd er 18 metrar og djúpristan 4,8 metrar. Skipið getur tekið 264 farþega og áhöfnin er 140 manns. Þess má geta að skipið er systurskip L'Austral og Le Soléal.

Til stóð að annað og mun minna skip, To Callisto, kæmi 14 sinnum til Akraness í sumar. Vegna bilunar afboðaði útgerð skipsins komu þess hingað í sumar. sisi@mbl.is