Kylfingurinn Guðrún Brá Björgvinsdóttir úr Keili átti sinn slakasta hring til þessa á EM einstaklinga í Sviss í gær. Hún lék á 75 höggum eða þremur höggum yfir pari vallarins og féll úr öðru sæti niður í það níunda.

Kylfingurinn Guðrún Brá Björgvinsdóttir úr Keili átti sinn slakasta hring til þessa á EM einstaklinga í Sviss í gær. Hún lék á 75 höggum eða þremur höggum yfir pari vallarins og féll úr öðru sæti niður í það níunda. Hún hefur leikið hringina þrjá á 214 höggum eða tveimur höggum undir pari.

Guðrún fór illa af stað í gær og fékk þrjá skolla á fyrstu þremur holunum. Hún fékk svo annan skolla á níundu holu og var því fjórum höggum yfir pari vallarins að loknum fyrri níu holunum. Hún rétti úr kútnum á seinni níu holunum og fékk þrjá fugla á fyrstu fjórum holum þeirra.

Tveir skollar á síðustu tveimur holunum reyndust hins vegar dýrkeyptir. Guðrún leikur fjórða og síðasta hring mótsins í dag og gæti með góðum hring hafnað ofarlega á EM. johanningi@mbl.is