Friðrik Jón Jónsson fæddist á Grænhóli í Borgarsveit, Skagafirði 7. ágúst 1925. Hann lést á Heilbrigðisstofnuninni á Sauðárkróki 19. júlí 2017.

Foreldrar hans voru hjónin Ólafía Elísabet Rósantsdóttir, f. 20. október 1897, d. 8. apríl 1931, og Jón Eðvald Guðmundsson, f. 23. október 1894, d. 10. júní 1974. Systkini Friðriks eru: Marteinn R., f. 23. júlí 1923, d. 14. september 1997, Svanhildur Elsa, f. 26. mars 1942, og Ólöf Effa, f. 28. maí 1943.

Hinn 31. desember 1960 kvæntist Friðrik Þóru Friðjónsdóttur, f. 31. október 1922, d. 28. janúar 2005. Börn Friðriks og Þóru eru: 1) Rósa Friðbjörg Eiríksdóttir, f. 15. júní 1946, hennar maður er Ingi Friðbjörnsson, f. 28. október 1945. Þeirra dætur eru: Þórhildur og Ingibjörg. 2) Jón Eðvald Friðriksson, f. 23. október 1954, hans kona er Linda Nína Haraldardóttir, f. 7. júní 1954. Börn þeirra eru: Heba, Marteinn, Harpa Sif og Þóra Rut. 3) Ólafur Elliði Friðriksson, f. 3. september 1957. Hans kona er Sigurjóna Skarphéðinsdóttir, f. 19. maí 1957. Þeirra börn eru: Friðrik Þór, Ari Freyr, Einar Ingvi og Ólöf Elísabet. Barnabarnabörnin eru orðin 18 talsins. Friðrik var húsasmiður og starfaði við iðn sína á meðan heilsan leyfði. Friðrik starfaði talsvert að félagsmálum, sat meðal annars í stjórn Iðnaðarmannafélags Sauðárkróks í fjölda ára. Friðrik og Þóra áttu lengst af heimili á Bárustíg 11, Sauðárkróki, en fluttu í júlí 2004 í íbúðarblokk fyrir eldri borgara á Sauðárkróki. Friðrik bjó á dvalarheimili aldraðra á Sauðárkróki frá árinu 2005 en síðustu árin á sjúkradeild Heilbrigðisstofnunarinnar.

Útför hans fer fram frá Sauðárkrókskirkju í dag, 29. júlí 2017, klukkan 14.

En komin eru leiðarlok

og lífsins kerti brunnið

og þín er liðin æviönn

á enda skeiðið runnið.

Í hugann kemur minning mörg,

og myndir horfinna daga,

frá liðnum stundum læðist fram

mörg ljúf og falleg saga.

Þín vinartryggð var traust og föst

og tengd því sanna og góða,

og djúpa hjartahlýju og ást

þú hafðir fram að bjóða.

Og hjá þér oft var heillastund,

við hryggð varst aldrei kenndur.

Þú komst með gleðigull í mund

og gafst á báðar hendur.

Svo, vinur kæri, vertu sæll,

nú vegir skilja að sinni.

Þín gæta máttug verndarvöld

á vegferð nýrri þinni.

Með heitu, bljúgu þeli þér

ég þakka kynninguna,

um göfugan og góðan dreng

ég geymi minninguna.

(Höf. ók.)

Kæri Fíi, hafðu þökk fyrir allt.

Linda.

Afi Fíi er farinn í Sumarlandið. Hann og amma eru saman á ný. Þannig viljum við muna eftir afa, með ömmu, því þau voru samrýmd og yndisleg hjón sem gaman og gott var að vera návistum við. Það var alltaf gott að koma til þeirra á Bárustíginn þar sem þau áttu hlýlegt og fallegt heimili.

Ótal minningar koma upp í hugann þegar við hugsum um afa og ömmu – ferðalögin í Mývatnssveitina, jólaboðin, laufabrauðsgerðin og svo bara þessi hversdagslegu samskipti sem nú eru dýrmætar minningar.

Afi var stoltur byggingameistari og starfaði sem slíkur þar til hann ákvað að hætta að vinna í kringum sjötugt, en hann var langt frá því hættur að smíða, hann hjálpaði tveimur barnabörnum að byggja íbúðarhús, breytti baðherbergjum, eldhúsum og hvað eina allt eftir að hann „hætti“ að vinna. Ómetanleg hjálp fyrir okkur öll sem nutum góðs af. Þetta kannski lýsir honum hvað best, endalaus dugnaður, hjálpsemi og umhyggjusemi fyrir sínum nánustu.

Hvíl í friði, elsku afi, og hafðu þökk fyrir allt og allt.

Ég sendi þér kæra kveðju

nú komin er lífsins nótt,

þig umvefji blessun og bænir

ég bið að þú sofir rótt.

Þó svíði sorg mitt hjarta

þá sælt er að vita af því,

þú laus ert úr veikinda viðjum

þín veröld er björt á ný.

Ég þakka þau ár sem ég átti

þá auðnu að hafa þig hér,

og það er svo margs að minnast

svo margt sem um hug minn fer,

þó þú sért horfinn úr heimi

ég hitti þig ekki um hríð,

þín minning er ljós sem lifir

og lýsir um ókomna tíð.

(Þórunn Sigurðardóttir.)

Þórhildur og Ingibjörg Ingadætur.

Okkur langar með fáum orðum að minnast Fía afa okkar.

Elsku afi.

Nú er víst kominn tími til að kveðja. Við viljum þakka þér kærlega fyrir allt saman. Allar stundirnar með þér og ömmu á Bárustígnum. Þið voruð alltaf til staðar fyrir okkur í gegnum tíðina. Við erum einnig þakklát fyrir allar stundirnar á dvalarheimilinu. Það var alltaf gaman að sitja með þér og hlusta á þig rifja upp gamla tíma og heyra hversu stoltur þú varst af þínu fólki. Þú hafðir alltaf mikinn áhuga á að vita hvað við vorum að gera hverju sinni, bæði í lífi og starfi. Einnig varst þú svo gjafmildur, hafðir mikla ánægju af því að styðja okkur og þér þótti vænt um að geta það. Eins erfitt og það er að kveðja, þá vitum við að þér líður betur núna og að endurfundir við elsku ömmu eru þér mjög kærkomnir.

Ég þakka þau ár sem ég átti

þá auðnu að hafa þig hér,

og það er svo margs að minnast

svo margt sem um hug minn fer,

þó þú sért horfinn úr heimi

ég hitti þig ekki um hríð,

þín minning er ljós sem lifir

og lýsir um ókomna tíð.

(Þórunn Sigurðardóttir.)

Elsku afi, takk fyrir allt. Við kveðjum þig með söknuði.

Þín barnabörn,

Heba, Marteinn,

Harpa Sif og Þóra Rut.