[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Nú liggur fyrir að Magnús Carlsen verður meðal keppenda á heimsbikarmótinu sem hefst í Tiblisi í Úkraínu 2. september nk. en Jóhann Hjartarson vann sér sæti á mótinu með frammistöðu sinni á Norðurlandamótinu sem fram fór í Svíþjóð á dögunum.

Nú liggur fyrir að Magnús Carlsen verður meðal keppenda á heimsbikarmótinu sem hefst í Tiblisi í Úkraínu 2. september nk. en Jóhann Hjartarson vann sér sæti á mótinu með frammistöðu sinni á Norðurlandamótinu sem fram fór í Svíþjóð á dögunum. Skipuleggjendur heimsbikarmótsins áttu ekki von á þátttöku heimsmeistarans en þegar hún lá fyrir voru rifjuð upp þau ummæli hans að fyrirkomulag heimsmeistarakeppninnar væri úr takt við tímann og ætti að byggjast á því að allir geti verið með jafnvel þótt leiðin að titlinum sé löng og ströng. FIDE starfaði áður með svæðamótum, millisvæðamótum og áskorendakeppnum en síðustu áratugi hefur elo-stigakerfið verið allsráðandi. Magnús lýsti einnig aðdáun sinni á mótum með útsláttarfyrirkomulagi og eins og til að fylgja ummælum sínum eftir skráir hann sig nú til leiks. Í Tiblisi verða keppendur 128 talsins og viðureignir fyrstu umferðanna samanstanda af tveim kappskákum, verði jafnt er gripið til skáka með styttri umhugsunartíma.

Jóhann Hjartarson hefur undanfarna daga setið við taflið á Xtracon- mótinu í Helsingör sem áður hét Politiken cup. Ekki er hægt að draga miklar ályktanir af taflmennsku hans hingað til; andstæðingar hans hafa verið á stigabilinu 1892-2330 elo, þar af nokkrir kornungir skákmenn. En öryggið sem einkenndi framgöngu hans í Svíþjóð er til staðar þó að hann hafi tapað fremur slysalega í 7. umferð og hann er með 5 vinninga. Baadur Jobava og Nigel Short eru efstir með 6 ½ vinning af sjö mögulegum en þar á eftir koma ellefu skákmenn með 6 vinninga. Tefldar verða tíu umferðir og lýkur mótinu um helgina.

Aðrir íslenskir þátttakendur eru Hilmir Freyr Heimisson og Magnús Magnússon sem báðir eru með 3 ½ vinning og Hörður Garðarsson er með 2 vinninga. Gunnar Björnsson, forseti SÍ, leit inn á skákstað og á skak.is gerði hann samanburð á Reykjavíkurmótinu og Xtracon-mótinu. Gunnar benti á að keppendur í Helsingör væru talsvert fleiri, 433 á móti 260, en sterkustu keppendurnir væru áhugaverðari í Reykjavík og aðstæður á keppnisstað í Hörpu væru mun betri.

Í Helsingör tefla Norðmenn fram stórmeisturunum Simen Agdestein og Frode Urkedal sem skaust á toppinn með því að vinna fimm fyrstu skákir sínar og á þeirri leið lagði hann Ivan Sokolov að velli í aðeins 19 leikjum. Byrjunina gerþekkir Ivan og hefur sjálfur teflt ótal sinnum með hvítu. Hann valdi fremur sjaldséða leið en lenti snemma í ógöngum:

Frode Urkedal – Ivan Sokolov

Nimzoindversk vörn

1. d4 Rf6 2. c4 e6 3. Rc3 Bb4 4. Dc2 Rc6 5. Rf3 O-O 6. Bd2 d6 7. a3 Bxc3 8. Bxc3 He8 9. Hd1 De7 10. e3 e5 11. d5 e4?!

Vafasamur leikur. Eftir 12. ... Rb8 er svarta staðan vel teflanleg.

12. dxc6 exf3 13. gxf3 bxc6 14. Hg1 Rh5 15. De4!

Snjall leikur sem byggist á hugmyndinni 15. ... Dxe4 16. fxe4 Hxe4 17. Be2. Samt ætti svartur að velja þessa leið því eftir 17. ... Hh4 er engan rakinn vinning að finna í stöðunni þó að g7-peðið falli.

15. ... Hb8 16. Be2 Be6 17. f4 Rf6?

Eini leikurinn var 17. ... f5. Nú vinnur hvítur með einfaldri fléttu.

18. Hxg7+ Kxg7 19. Dg2+

- og Ivan gafst upp. Hann sá fram á að eftir 19. ... Kf8 20. Dg5 er hann algerlega varnarlaus. Lét þetta tap þó ekki slá sig út af laginu og vann tvær næstu skákir.

Helgi Ólafsson helol@simnet.is

Höf.: Helgi Ólafsson helol@simnet.is