Helga Sigfúsdóttir fæddist 30. desember 1935. Hún lést 4. júlí 2017.

Útför Helgu fór fram 28. júlí 2017.

Ég minnist Helgu Sigfúsdóttur með mikilli hlýju og þakklæti.

Á lífsleiðinni kynnist maður samferðafólki af mörgum toga. Sumir standa upp úr eins og fjallstindar. Og eiga hjartnæmt pláss í minningunni.

Haustið 1974 kem ég frá heimahaganum vestur í Bolungarvík og hef nám í Menntaskólanum á Akureyri. Það kom aldrei til greina annað en að fara í MA. Ýmislegt spilaði þar inn í, s.s. að þaðan hafði faðir minn Guðmundur Sigmundsson, mágur Helgu, útskrifast á sínum tíma. Ennfremur, og ekki síður, fallegar og góðar minningar frá Akureyri eftir margar heimsóknir frá barnsaldri á sumrin til Rúnars og Helgu og fjölskyldu og föðurafa og ömmu.

Þegar ég mætti 16 ára til leiks í MA haustið 1974 var maður ekki alltaf stór í sér. Mætti segja á stundum frekar smár. Mér var það þá ómetanlegt að eiga svo vísan stað í Espilundi 14 hjá Helgu, Rúnari og börnum. Hvort sem það var kvöldmatur með fjölskyldunni á sunnudagskvöldi eða spjall á virkum degi.

Það var alltaf létt yfir. Ég man varla eftir Helgu öðruvísi en með bros á vör. Helga hafði þannig áhrif að hafi maður komið eitthvað boginn, þá sneri maður heim á leið uppréttur og fullur af gleði og bjartsýni. Hún tók á móti mér hlý, létt í bragði, ákveðin og skemmtileg.

Ég þakka fyrir mig. Ég átti eftir að gera það svo miklu, miklu betur. Innilegar samúðarkveðjur til Rúnars og fjölskyldunnar allrar. Guð blessi minningu Helgu Sigfúsdóttur.

Kristján Guðmundsson.

Ég hef þekkt Helgu síðan hún fæddist, og um tíma bjuggum við í sama húsi, Norðurgötu 10. Þar var gaman að vera, fullt af krökkum sem léku sér saman. Hún hélt samt áfram að koma í heimsókn og þá lék hún sér við okkur stelpurnar.

En svo kom að þeim tíma sem árið á milli okkar Helgu varð gríðarlega stórt. Það var fermingarveturinn minn og ég komin í Gagnfræðaskóla og færi bráðum að ganga í silkisokkum og fá mér permanent. Þá leit ég smáum augum á krakkagríslinga í barnaskóla. Svona hroki hefnir sín ávallt enda mönnunum hollt. Ég tafðist í skóla og þegar ég hóf aftur nám var það í bekk með þessum sömu barnaskólagríslingum. Mér var það ekki ljúft í fyrstu, en fljótlega undi ég hag mínum vel og hefði ekki viljað missa af því fyrir nokkurn mun að eiga þessi skólasystkini. Seinasta veturinn í skólanum tók besta vinkona mín upp á því að fara að trúlofa sig og um stund var ég hálfeinmana. En þá tóku þær Helga og Katý mig upp á arma sína og tóku mig með á bíó og böll. Það er vinargreiði sem ég gleymi aldrei. Það hefur aldrei verið vinsælt að bæta þriðja hjóli undir.

Ég hef aldrei skilið af hverju Helga faldi Rúnar svo vandlega fyrir mér þegar þau voru að taka saman. Við höfðum aldrei sama smekk á strákum. Ef ég var skotin í strák fannst Helgu hann alltaf hroðalega ljótur og leiðinlegur. Mér fannst strákarnir hennar Helgu of háfleygir fyrir mig, alltaf einhverjir menntamenn.

Fyrstu kynni mín af Rúnari voru þegar þau bjuggu inni í bæ. Ég kom í heimsókn rétt eftir kvöldmat. Átti eitthvert erindi, en Helga bauð mér inn. Mér leið illa, það var eftir að þvo upp eftir kvöldmatinn og koma börnunum í rúmið. Mér fannst ég vera fyrir. En steinþegjandi tók Rúnar börnin sín og háttaði þau, svo að Helga gat spjallað við mig. Þetta var í fyrsta en ekki síðasta sinn sem ég dáðist að Rúnari og sá þvílíkur mannkostamaður hann var. Kynnin áttu eftir að aukast.

Sem betur fer var hún sátt við val mitt á eiginmanni. Þau Andri urðu bestu vinir þó að þau væru sjaldan sammála. Við áttum saman svo margar ánægjustundir og kunningsskapurinn varð að vináttu, en vinátta er eitt af því dýrmætasta sem við eigum. Þegar við höfðum komið börnunum af höndum fórum við að njóta lífsins saman. Sjóstöngin veitti okkur margar ánægjustundir. Við fórum saman á mót og gjarnan ferðalag í leiðinni. Oft með tjaldvagninn þeirra og seinna fellihýsið og loks ferðuðumst við saman á húsbílunum okkar. Og ekki má gleyma unaðslegu vikunum í Hrísey. Já, það má segja að við höfum dansað saman gegnum lífið og það er svo ótal margt að þakka. Ég mun sakna Helgu. Sakna þess að geta ekki hringt í hana á morgnana til að spjalla og heimsóknanna hennar á miðvikudögum. En ég ætla ekki að syrgja hana heldur þakklát hugsa um allar skemmtilegu stundirnar sem við höfum átt saman.

Elsku Rúnar, Gunnar, Sigrún, Sigmundur, Guðrún og fjölskyldur við Andri sendum ykkur samúðarkveðjur og þökkum liðnar samverustundir.

Andri og Guðrún.

Ég var nýbúin að frétta að Helga hefði greinst með krabbamein þegar ég fékk þær fréttir að hún væri látin. Það var mikið áfall að fá þær fréttir því þetta gerðist allt svo snögglega þannig að maður hafði ekki tíma til að átta sig á hversu alvarlegt þetta var.

Ég hitti Helgu síðast núna í vor við fermingu sonar míns og þá var hún eldhress að vanda. Ekki hefði maður getað ímyndað sér þá að þetta væri í vændum.

Ég dvaldi oft hjá Helgu og Rúnari á Akureyri þegar ég var barn og átti þar margar yndislegar stundir sem ég er óendanlega þakklát fyrir. Þegar ég varð eldri var ég yfirleitt hjá þeim í einhvern tíma áður en ég fór í sveitina á Mýri í Bárðardal. Þau tóku mig að sér á sumrin og létu mér líða eins og ég væri ein af fjölskyldunni. Ég man eftir því hvað það var gaman að leika sér í stóra garðinum þeirra í Espilundinum með kanínunum hans Simma frænda. Þar fyrir aftan var stórt svæði með mjög háu grasi og það var algjör paradís fyrir barn. Þarna hljóp ég um í grasinu sem náði mér yfir höfuð og lenti í alls kyns ævintýrum. Ég kynntist líka nokkrum krökkum í götunni og lék mér stundum með þeim langt fram á kvöld.

Það var alltaf gott að koma norður til Helgu og Rúnars og það var svo sannarlega líf og fjör á heimilinu. Helga var einstaklega hlý og góð manneskja og hafa þau hjónin svo sannarlega reynst mér vel í gegnum tíðina. Þess vegna kveð ég Helgu núna með miklum söknuði og ást í hjarta.

Ég man það sem barn að ég

margsinnis láog mændi út í þegjandi geiminn,

og enn get ég verið að spyrja og spá,

hvar sporin mín liggi yfir heiminn.

En hvar sem þau verða mun hugurinn minn,við hlið þína margsinnis standa,

og vel getur verið í síðasta sinn

ég sofni við faðm þinn í anda.

(Þorsteinn Erlingsson)

Elsku Rúnar, Gunnar, Sigrún, Simmi, Guðrún og fjölskyldur. Ég sendi ykkur mínar innilegustu samúðarkveðjur og megi guð gefa ykkur styrk í sorginni.

Ástarkveðja

Sigrún Jóhannsdóttir og fjölskylda.

Kveðja frá skólasystkinum

Enn er höggvið skarð í skólasystkinahópinn, Helga Sigfúsdóttir hefur kvatt. Við áttum saman unaðsleg ár í Gagnfræðaskóla Akureyrar. Við lokuðum skólabókunum fyrir 64 árum og yfirgáfum skólann, glöð og hress, því nú tók alvara lífsins við. En skóladyrnar vildu ekki lokast til fulls, því skólaárin voru hluti af okkur sjálfum. Á fimm ára fresti höfum við komið saman. Kunningsskapur úr skóla breyttist í hlýja vináttu og kærleika. Nú síðustu árin hittumst við mánaðarlega, borðum súpu og njótum þess að fá að eldast saman.

Í verknámsdeildinni varð til saumaklúbbur sem starfar enn. Nú eru komin tvö skörð í hópinn en ég er viss um að þær halda áfram að mæta hjá okkur og hlæja að skvaldrinu í okkur.

Við kveðjum kæra skólasystur og þökkum fyrir öll ljúfu árin og sendum um leið Rúnari og fjölskyldu hugheilar samúðarkveðjur.

Fyrir hönd '53-Gaggahópsins,

Guðrún Sigurðardóttir.

Á níunda áratug síðustu aldar unnum við saman á skrifstofu Vélsmiðjunnar Odda á Akureyri; Helga, Maja, Eygló og Álfhildur. Reyndar vorum við víst bara eitt sumar allar saman en það dugði; síðan þá höfum við haldið sambandinu með hádegisverðarfundum og kvöldverðarfundum og seinna, eftir að við vorum farnar hver í sína áttina, með bréfaskriftum, símhringingum og heimsóknum.

Eygló flutti til Svíþjóðar og þangað var haldið í heimsókn. Flug til Stokkhólms og svo lest til Umeå, þar sem ferjumiðar með Finnlandsferjunni biðu. Ekki vildi betur til en svo, að lestin var einhverra hluta vegna stopp einhvers staðar úti í buskanum í marga klukkutíma og ekkert gekk að fá upplýsingar um neitt hvorki um borð eða á áfangastað. Eygló orðin illa stressuð í Umeå, enda brottfarartími ferjunnar að nálgast en loksins brunar lestin inn á stöðina á fleygiferð. Þá hafði Helgu tekist að koma starfsmanni í skilning um að við værum að missa af utanlandsferð, hvort þeir væru til í að taka afleiðingunum af því, og allt var sett í botn! Hún hefur löngum haft sitt fram hún Helga! Við hlupum út í leigubíl og rétt náðum um borð í ferjuna og fengum alveg ljómandi góða Finnlandsferð eftir allt stressið.

Nokkrum árum seinna hittumst við svo allar í Kaupmannahöfn. Þar leigðum við okkur bíl og flæktumst um Danmörku í viku. Maja var skikkuð til að vera bílstjóri þar sem við hinar höfðum „gleymt“ ökuskírteinunum heima. Þetta var frábær vika, mikið spjallað og mikið hlegið. Okkur tókst m.a. að fá sekt fyrir að leggja vitlaust á Dag Hammarskölds Vej og fannst Helgu ekki leiðinlegt að minna bílstjórann á það svona af og til.

Næsta ferð átti svo að vera til Álands að ósk Helgu. Það var sennilega um 2003-2004 sem við fórum að ræða þá ferð, en hún komst aldrei í verk vegna anna frúarinnar sjálfrar. Alltaf fullt að gera þar!

Og nú er hún farin í síðustu ferðina. Ekkert að tvínóna við hlutina frekar en venjulega.

Elsku Helga okkar, takk fyrir vináttuna og allt skemmtilegt! Góða ferð. Við sjáumst!

María (Maja), Eygló og Álfhildur.