„Skuldadagar“ hjá hinum gömlu evrópsku nýlenduveldum?

Þegar horft er til framtíðar og fram eftir þessari öld er ljóst að loftslagsmálin eru stærsta vandamál mannkynsins alls en líklegt má telja að vaxandi flóttamannastraumur frá Mið-Austurlöndum, Norður-Afríku og að hluta til frá Mið-Asíu verði stærsti vandinn sem við verður að etja í okkar heimshluta, þ.e. í Evrópu.

Og þótt sá vandi muni vega þyngst á meginlandi Evrópu fer tæpast á milli mála að hann mun teygja sig til Íslands, í mun ríkara mæli en þegar hefur orðið.

Við búum hér, tiltölulega fátt fólk, í stóru landi.

Fyrir nokkrum dögum sat ég á tali við ungan mann sem hefur komið svolítið að því að vinna í tengslum við fólk sem leitar hér hælis.

Ég sagði sem svo: Nú er svo komið að um 10% þeirra sem búa á Íslandi í dag eru komin frá öðrum löndum og sumir þeirra frá öðrum menningarsvæðum. Hvað getum við, sem höfum búið hér á þessari eyju í bráðum 1200 ár, mann fram af manni, tekið á móti mörgum til viðbótar án þess að stofna sögu okkar og menningu í hættu? Getum við fallizt á 20%, 25%, jafnvel 30%?

Þessi ungi maður, sem getur rakið ættir sínar til þriggja landa á meginlandinu, auk Íslands og Palestínu, horfði á mig og sagði:

Þetta er hættuleg spurning.

Og minnti mig á að í spurningunni fælust rök Ísralesmanna fyrir því að þeir gætu ekki hugsað sér að búa í einu ríki í sambúð með þeim Palestínumönnum sem ættu rætur að rekja til landsvæða sem nú tilheyra Ísraelsríki en langafi hans og langamma misstu eignir sínar á einni nóttu og hrökkluðust í burtu af landi sínu þegar Ísraelsríki var stofnað.

Það er rétt hjá þessum unga manni að þetta er hættuleg spurning en engu að síður spurning sem við Íslendingar verðum að ræða, fyrr eða síðar. Við getum slegið því á frest en að því kemur að við verðum að svara spurningunni.

Fyrir nokkrum mánuðum sagði Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrverandi utanríkisráðherra, við mig að eftir áratug yrðum við komin í sama vanda vegna flóttamanna og sum Evrópuríki eru nú.

Og þá komumst við ekki undan því að svara.

Það eru takmörk fyrir því hvað við getum tekið við mörgum – ef við á annað borð viljum viðhalda því samfélagi sem við höfum byggt upp á tæpum 1200 árum. Ella gætum við lent í þeirri stöðu að verða minnihluti í eigin landi.

Fólk leitar hingað af tveimur ástæðum. Annars vegar eru þeir sem eru að flýja heimili sín vegna styrjaldarátaka. Það á við um fólk frá Sýrlandi, Írak og Afganistan.

Yfirgnæfandi meirihluti Íslendinga er áreiðanlega þeirrar skoðunar að okkur beri skylda til að hjálpa því fólki.

Hins vegar eru þeir sem búa í fátækum samfélögum. Þeir teljast búa við öryggi í sínu heimalandi og eru gjarnan sendir til baka. En sennilega áttum við okkur ekki á hvers konar innri átök verða til í fátækum samfélögum, sem leiða svo til þess að fólk reynir að komast á brott. Þar er líklega komin skýring á þeim fjölda sem leitar hingað frá Albaníu, Makedóníu og Georgíu. Og í sumum tilvikum er það fólk sent hingað eftir að hafa stofnað til skulda við þá sem skipuleggja brottförina og þær skuldir ber þeim að greiða af tekjum sem aflað er hér á Íslandi, og ekki ólíklegt að þeir meðlimir sömu fjölskyldna sem heima sitja verði eins konar „trygging“ fyrir greiðslu þeirra skulda.

Fólk sem hingað leitar, t.d. frá Írak, er sumt þeirrar skoðunar að Vesturlandabúar „skuldi“ því vegna þess að það hafi verið Vesturlönd sem hleyptu stríðsátökum af stað í Írak og hafi jafnvel grætt á þeim átökum.

Sú saga er hins vegar lengri en nokkur ár eða áratugur. Maður að nafni Lubomir Zaorálek, sem er utanríkisráðherra Tékklands, rifjaði hana upp í ræðu á ráðstefnu í Prag fyrir rúmum mánuði, sem fjallaði um framtíð Evrópu. Hann fullyrti að í ríkjum múslima væri að verða vitundarvakning meðal nýrra og betur menntaðra kynslóða um grimmdarverk sem framin hefðu verið í þeim löndum á nýlendutíma sumra Evrópuríkja á 19. öld.

Ríki á borð við Sýrland, Írak og Líbanon urðu ekki til meðal fólksins sem býr á þeim svæðum. Þau urðu til á teikniborðum ráðuneyta í London og París. Í merkri bók Henry Kissinger, fyrrverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna, um Kína, sem út kom fyrir nokkrum árum, er framferði Breta í Indlandi og Kína lýst umbúðalaust. Þeir ræktuðu ópíum í Indlandi og græddu stórfé á því að brjóta sér leið inn á markað í Kína með hótunum og hervaldi. Sagt er að aldrei hafi mannskepnan náð lengra í grimmd sinni en í gasklefum nazista en þá er alla vega ljóst að framferði Belga í Kongó er þar í öðru sæti.

Sigurvegarar í styrjöldum láta þá sem tapa borga skaðabætur. Spurningin er sú, hvort ekki sé komið að skuldadögum fyrir nýlenduríkin í Evrópu. Að þau borgi skaðabætur til þjóða sem urðu illa úti í samskiptum við þau á 19. öld og fram í byrjun 20. aldar.

Þær „skaðabætur“ gætu verið í formi risavaxinnar Marshallaðstoðar við þessi ríki, sem er eina leiðin til að stöðva flóttamannastrauminn til Evrópu. Það hefur hægt á honum um skeið vegna þess að ESB-ríkin borga Tyrkjum mikla fjármuni til að hafa hemil á honum. Nú er að harðna á dalnum á milli Tyrkja og ESB og ekki óhugsandi að Tyrkir hætti þeirri greiðasemi við Evrópuríkin.

Kannski er kominn tími á að litla Ísland minni hin gömlu evrópsku nýlenduveldi á þessar staðreyndir lífsins.

Ella kunnum við að verða knúin til að svara spurningunni hættulegu, sem nefnd var hér að framan.

Styrmir Gunnarsson styrmir@styrmir.is

Höf.: Styrmir Gunnarsson styrmir@styrmir.is