[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Golf Kristján Jónsson kris@mbl.is Ólafía Þórunn Kristinsdóttir úr Golfklúbbi Reykjavíkur sýndi úr hverju hún er gerð á öðrum degi Opna skoska mótsins í Aberdeen í gær.

Golf

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir úr Golfklúbbi Reykjavíkur sýndi úr hverju hún er gerð á öðrum degi Opna skoska mótsins í Aberdeen í gær. Skilaði Ólafía inn fjórða besta skorinu og flaug upp um rúm þrjátíu sæti á milli keppnisdaga. Er hún í 6. sæti þegar 36 holum er lokið af 72 en svo nærri toppnum hefur hún ekki verið áður á móti á LPGA-mótaröðinni sem er sú sterkasta í heimi hjá konunum.

Ólafía lék á 70 höggum sem er tvö högg undir pari Dundonald-vallarins. Skor Ólafíu var sérlega gott þegar horft er til þess að aðstæður voru mjög erfiðar í gær. Vindurinn blés nokkuð hressilega og setti mark sitt á spilamennskuna. Margar af snjöllustu kylfingum heims lentu fyrir vikið í miklum vandræðum. Hin norska Suzann Pettersen lék til að mynda á 76 höggum og hin bandaríska Stacey Lewis á 79. Tvær efstu í mótinu, Cristie Kerr og Karrie Webb, voru á 73 og 75 höggum eftir að hafa leikið á 66 og 65 höggum á fyrsta degi. Kerr er ein í efsta sæti á fimm undir pari samtals.

Ólafía er samtals á höggi undir pari í mótinu en fyrsta hringinn lék hún á 73. Er hún ein þeirra sex kylfinga sem eru undir parinu samtals sem gefur ágæta mynd af því hversu krefjandi aðstæður eru í mótinu.

Mikið í húfi

Spilamennska Ólafíu í gær vakti athygli og var í gærkvöld birt við hana viðtal á heimasíðu LPGA. Þar nefndi Ólafía að aðstæður sem þessar kæmu iðulega upp í golfmótum á Íslandi og hún byggi að þeirri reynslu. „Mér tókst alltaf að halda boltanum í leik og gekk vel að ráða við vindinn. Vissulega var mjög erfitt að spila við þessar aðstæður. Við gerðum okkar besta og skorið var virkilega gott. Maður verður að sætta sig við þá stöðu sem kemur upp og ég hef heilmikla reynslu af því að spila í slæmu veðri á Íslandi. Það hjálpar.“

Hún sagðist hafa fengið góð ráð frá þjálfara sínum Derrick Moore. Er hann af skosku bergi brotinn og hefur þjálfað Ólafíu undanfarin ár. „Þjálfari minn er skoskur og hann gaf mér nokkur ráð áður en ég kom hingað. Ég hef slegið högg sem hann lagði til. Þau snúast um að halda boltanum niðri en þar er eiginlega um hálfa sveiflu að ræða. Fyrir vikið hefur vindurinn ekki eins mikil áhrif og enginn bakspuni verður þegar boltinn lendir. Hefur þessi leikáætlun gengið mjög vel,“ sagði Ólafía Þórunn sem gæti með góðum hring í dag blandað sér í baráttuna um sigur í mótinu. Mótinu lýkur á morgun en góður árangur gæti tryggt Ólafíu keppnisrétt á Opna breska meistaramótinu, einu risamótanna í íþróttinni.