June Foray
June Foray
Bandaríska raddleikkonan June Foray lést 26. júlí, 99 ára að aldri. Frá þessu greinir Variety . Foray átti um 70 ára feril að baki sem raddleikari í bandaríska teiknimyndabransanum.

Bandaríska raddleikkonan June Foray lést 26. júlí, 99 ára að aldri. Frá þessu greinir Variety . Foray átti um 70 ára feril að baki sem raddleikari í bandaríska teiknimyndabransanum. Hún tók þátt í svonefndri „gullöld“ bandarískra teiknimynda á árunum 1930-60 en á þeim tíma léði hún fjölmörgum persónum í teiknimyndum Warner-bræðra og Walt Disney rödd sína. Meðal þeirra má nefna köttinn Lucifer í Öskubusku, Cindy Lou Who í Þegar Trölli stal jólunum og Hexíu de Trix.

Foray starfaði sem raddleikari til dauðadags og fékk árið 2012 Emmy-verðlaun fyrir hlutverk sitt í sjónvarpsþáttum um köttinn Gretti. Þá var Foray 94 ára að aldri, elsti skemmtikraftur sem hefur verið tilnefndur til verðlaunanna. Mark Evanier, framleiðandi þáttanna, komst svo að orði á bloggsíðu sinni: „Ef einhver var að velta fyrir sér hvað maður þarf að gera til að vera tilnefndur til Emmy-verðlauna er það einfalt: Vertu bara langbestur í því sem þú gerir í um sjötíu ár.“