Guðrún Nielsen, íþróttakennari og fimleikaþjálfari, fæddist í Reykjavík 29.7. 1923. Foreldrar hennar voru Jörgen C.C. Nielsen, bakarameistari í Reykjavík, og kona hans, Guðrún Ó. Ólafsdóttir Nielsen húsfreyja.

Guðrún Nielsen, íþróttakennari og fimleikaþjálfari, fæddist í Reykjavík 29.7. 1923. Foreldrar hennar voru Jörgen C.C. Nielsen, bakarameistari í Reykjavík, og kona hans, Guðrún Ó. Ólafsdóttir Nielsen húsfreyja.

Guðrún var gift Gunnari Guðröðarsyni kennara sem lést 2013 og eignuðust þau tvö börn, Karl, f. 1952, jarðeðlisfræðing, og Bergrúnu Helgu, f. 1959, hjúkrunarfræðing.

Guðrún lauk íþróttakennaraprófi frá Íþróttakennaraskóla Íslands á Laugarvatni 1945 og sótti síðan fjölda námskeiða í Danmörku, Finnlandi og Svíþjóð.

Guðrún var íþróttakennari við Laugarnesskóla frá 1945, kenndi við Laugalækjarskóla frá 1961 og síðar við Fjölbrautaskólann í Ármúla. Hún kenndi auk þess við Íþróttaskóla Jóns Þorsteinssonar við Lindargötu um skeið og við Samvinnuskólann. Þá kenndi hún öllum aldursstigum íþróttir, sund, dans og fimleika.

Guðrún var fimleikaþjálfari hjá Glímufélaginu Ármanni þar sem hún þjálfaði fyrst og fremst stúlknaflokka. Hún kom þar upp sýningarflokkum sem vöktu óskipta athygli og hrifningu, jafnt innanlands sem utan. Í hópfimleikum var áherslan á gólfæfingar, einkum æfingar sem styrkja og liðka líkamann á allan hátt, en hún notaði m.a. borða, keilur og gjarðir við gólfæfingarnar. Flokkar Guðrúnar sýndu m.a. í anddyrisskála Laugarnesskóla, oft í Hálogalandi, á Melavellinum, í Þjóðleikhúsinu og oft á palli á 17. júní-skemmtunum fyrir neðan Arnarhólinn.

Undirleikari á æfingum og á sýningum var Carl Billich og lék hann jafnt klassíska tónlist og tónlist sem hann hafði sjálfur samið við æfingarprógrömmin.

Guðrún fór með fimleikaflokka á mót og sýningar um landið og í sýningarferðir til Noregs, Hollands, Finnlands og Danmerkur.

Guðrún lést 10.3. 2016.