Hver sem er getur opnað stofu til að gera fegrunaraðgerðir

Á Íslandi er víða boðið upp á alls kyns aðgerðir á fólki án þess að sú starfsemi lúti neinum reglum. Hér er um að ræða svokallaðar fegrunaraðgerðir á borð við fitufrystingu og sprautun fylliefna undir húð.

Í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins fyrir viku birtist umfjöllun um þessa starfsemi og var þar greint frá einu tilfelli þar sem aðgerð fór hrapallega úrskeiðis. Í henni fékk kona þriðja stigs kalsár og fullþykktardrep í húð á tveimur blettum á líkamanum eftir fitufrystingu.

Í greininni var viðtal við Höllu Fróðadóttur, formann Félags íslenskra lýtalækna, sem hefur haft konuna til meðferðar. Hún segir að þetta sé „fyrsta tilvikið í heiminum sem hefur verið lýst með svona mjög miklu drepi“. Konan muni alltaf bera ör og mögulega vera með einhverja verki. Halla gagnrýnir fyrirkomulag þessara mála harðlega og segir að hver sem er geti opnað stofu til að gera svona aðgerðir.

Greinin vakti mikla athygli og hefur málið verið tekið upp í flestum fjölmiðlum. Samskipti fyrirtækisins við konuna eru kapituli út af fyrir sig. Það sætir hins vegar furðu að í samfélagi þar sem reglugerðir ná til minnstu smáatriða sé hægt að reka starsfemi þar sem krukkað er í fólk án þess að skýr ákvæði séu um tryggingar og ábyrgð eða framvísa þurfi nokkrum gögnum um þekkingu eða kunnáttu. Slíkt viðgengist ekki á rakarastofu.

Fitufrysting fellur ekki undir heilbrigðisþjónustu. Haraldur Briem, settur landlæknir, sagði í viðtali við mbl.is í vikunni að landlæknisembættið hefði eftirlitsskyldu gagnvart heilbrigðisþjónustunni og heilbrigðisstarfsfólki, en það hefði ekki yfirsýn yfir aðra þjónustu sem ekki félli þar undir. Það geti aðeins varað fólk við áhættum og aukaverkunum.

Á sumum sviðum samfélagsins er reglugerðafarganið þannig að heilu greinarnar eru að sligast, síðan eru önnur, þar sem afskiptaleysið er slíkt að jafnvel hörðustu stjórnleysingjar staldra við.