Skemmtiferðaskip Við höfnina er skipið La Soleal, næst því er hið stóra skip Costa Magica og yst er Star Legend.
Skemmtiferðaskip Við höfnina er skipið La Soleal, næst því er hið stóra skip Costa Magica og yst er Star Legend. — Ljósmyndir/Sverrir Karlsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Axel Helgi Ívarsson axel@mbl.is Svo vildi til að þrjú skemmtiferðaskip voru við Grundarfjarðarhöfn í fyrradag. Að sögn Eyþórs Garðarssonar hjá Grundarfjarðarhöfn kemur það fyrir einu sinni ári að svo mörg skip séu við höfnina á sama tíma.

Axel Helgi Ívarsson

axel@mbl.is

Svo vildi til að þrjú skemmtiferðaskip voru við Grundarfjarðarhöfn í fyrradag. Að sögn Eyþórs Garðarssonar hjá Grundarfjarðarhöfn kemur það fyrir einu sinni ári að svo mörg skip séu við höfnina á sama tíma. Stærsta skipið, Costa Magica, hafði með sér um 2.700 farþega auk rúmlega eitt þúsund áhafnarmeðlima. Er Grundarfjarðarhöfn vel útbúin fyrir móttöku skemmtiferðaskipa, að sögn Eyþórs.

Rúmlega fimmfaldur íbúafjöldi

Fjöldinn sem komu með skipunum þremur í fyrradag auk áhafna var hátt í fimm þúsund manns, segir í frétt á vef Grundarfjarðarbæjar. Til samanburðar voru íbúar Grundarfjarðarbæjar 869 í upphafi þessa árs. Eyþór segir að skemmtiferðaskipum, sem koma til Grundarfjarðar, sé að fjölga auk þess sem að stærri skip séu að koma með hverju ári.

Á vef Grundarfjarðarhafnar segir að um 20-30 skemmtiferðaskip komi árlega til Grundarfjarðar. „Tuttugu og átta skemmtiferðaskip komu í fyrra og tuttugu og sex skip koma í ár. Þá fara bókanir fyrir næsta og þarnæsta ár vel af stað,“ segir Eyþór.

Sölubásar í miðbænum

Talsverð uppbygging er hjá Grundfirðingum vegna vaxandi ferðamannastraums til bæjarins. Meðal annars er útimarkaður með sölubásum, sem settir eru upp í miðbæ Grundarfjarðar. Eru þar ýmsar hannyrðavörur eftir Grundfirðinga til sölu, t.d. lopapeysur og húfur.

Þorsteinn Steinsson, bæjarstjóri Grundarfjarðar, segir í samtali við Morgunblaðið að mikið líf færist í bæinn með þeim fjölda fólks sem kemur til bæjarins með skemmtiferðaskipum. Þá er einnig mikil umferð ferðamanna sem fara um landið á bílum til bæjarins og um Snæfellsnes, segir Þorsteinn.

Aðspurður hvort þolmörkum vegna straums ferðamanna sé náð, segir Þorsteinn að álagið sé misjafnt. „Aðalatriðið er, líkt og með beit í úthaga, að stýra álaginu með sem farsælustum hætti. Landið ætti að þola það betur ef ferðamannastraumnum er betur stýrt en það er auðvitað kúnst að finna réttu leiðina í hvernig það er gert,“ segir Þorsteinn ennfremur.