Friðrik Valgeir Antonsson fæddist í Hólakoti á Höfðaströnd 31. janúar 1933. Hann lést á Heilbrigðisstofnun Norðurlands vestra 17. júlí 2017.
Hann var sonur hjónanna Björns Antons Jónssonar frá Hrauni í Sléttuhlíð, f. 6.4. 1896, d. 28.10. 1969, og Steinunnar Guðmundsdóttur frá Bræðraá, f. 17.8. 1894, d. 21.5. 1979. Systur Friðriks eru Guðrún, f. 9.2. 1930, d. 23.10. 2016, maður hennar er Svavar Hjörleifsson, og Þóra Valgerður, f. 7.12. 1936, maður hennar er Friðþjófur Sigurðsson. Fyrri maður Þóru var Ólafur Þórarinsson, látinn.
Eftirlifandi kona Friðriks er Guðrún Þórðardóttir frá Hnífsdal, f. 21.5. 1939. Börn Friðriks og Guðrúnar eru: 1) Grétar Þór, f. 16.6. 1959, fyrrverandi sambýliskona Jóhanna Ingvarsdóttir. Börn þeirra eru: a) Andri Þór, f. 1998. b) Sandra Rún, f. 1998. Fóstursonur Grétars er Ingvar Þór Kale, f. 1983, dætur hans eru Hekla Rán, Jóhanna Kristín og Katla María. 2) Þórleif Valgerður, f. 7.6. 1961, maki Hólmgeir Einarsson. Börn þeirra eru: a) Guðrún Drífa, f. 1980, maki Jóhann Möller. Börn þeirra eru Kristján Lúðvík og Tinna María. b) Einar Friðrik, f. 1982, maki Elfa Björk Hreggviðsdóttir. Börn þeirra eru Viktor Bjarki og Kristín. c) Björgvin Þór, f. 1987, maki Guðbjörg Lára Rúnarsdóttir. Sonur þeirra er Alex Rúnar. 3) Guðný Þóra, f. 13.5. 1966, maki Jón Hálfdan Árnason. Börn þeirra eru: a) Árný Rut, f. 1989, maki Skúli Freyr Hinriksson. b) Dagný Brá, f. 1993. c) Friðrik Anton, f. 2002. 4) Anna Steinunn, f. 19.8. 1971, maki Sigurður Árnason. Börn þeirra eru: a) Árni Freyr, f. 1995. b) Bríet Lilja, f. 1998. c) Þórður Ari, f. 2003. 5) Elfa Hrönn, f. 30.1. 1978, maki Árni Birgisson. Synir þeirra eru: a) Birgir Þór, f. 2005. b) Kolbeinn Tumi, f. 2008. c) Hrafnkell Daði, f. 2012. Sonur Árna er Hringur, f. 1994.
Friðrik bjó í Hólakoti til fjögurra ára aldurs. Þá flutti fjölskyldan að Höfða á Höfðaströnd. Þar ólst Friðrik síðan upp ásamt systrum sínum á heimili sem var að jafnaði mannmargt. Friðrik gekk í barna- og unglingaskóla á Hofsósi. Hann stundaði nám við Bændaskólann á Hólum í Hjaltadal 1952-1954. Friðrik tók við búi foreldra sinn á Höfða þar sem hann bjó og starfaði alla tíð.
Útför Friðriks fer fram frá Hofsóskirkju í dag, 29. júlí 2017, klukkan 14.
Í góðu veðri er útsýnið úr Höfðahólunum veisla fyrir skilningarvitin. Við blasir Þórðarhöfðinn, djásnið eins og mamma kallar klettahöfðann, sem þau pabbi hafa haft fyrir augunum allan sinn búskap. Málmey og Drangey rísa tignarlegar upp úr hafinu, vatnið og sjórinn eins og tveir speglar. Lyktin af lynginu, söngur mófuglanna og gargið í kríunum fullkomna myndina.
Á Höfða átti hann pabbi okkar heima í áttatíu ár. Þar þekkti hann hvern stein, hverja þúfu, söguna og örnefnin. Það verður skrítið að koma á bernskuheimilið og enginn pabbi.
Pabbi sem við systkinin höfum alltaf gengið að sem vísum heima á Höfða. Pabbi sem nældi í kaupakonuna á Hofi. Pabbi sem eignaðist einkasoninn fyrst og síðan dæturnar fjórar; „alltaf sama sortin“ sagði hann.
Pabbi sem ætlaðist til að við stæðum okkur vel í því sem við tækjum okkur fyrir hendur.
Pabbi sem sat við gluggann í eldhúsinu og reykti filterslausan camel.
Pabbi sem sat við eldhúsborðið, sagði sögur eða rakti úr okkur garnirnar. Pabbi sem hafði áhuga á fólki, íþróttum, menningu og listum.
Pabbi sem var hafsjór af fróðleik og hafði sterkar skoðanir á samfélagsmálum.
Pabbi sem var mikill framsóknarmaður og vildi að við vissum fyrir hvað B stæði á kjörseðlinum.
Pabbi sem var stoltur af öllum barnabörnunum sínum sem mörg hver hafa komist í landslið í sinni íþrótt.
Pabbi sem drakk tengdasyni sína undir borðið.
Pabbi sem var heimsborgari þótt hann færi aldrei til útlanda.
Pabbi sem var gerður ódauðlegur á hvíta tjaldinu og fór þannig alla leið til Hollywood.
Pabbi sem var heimakær maður en naut þess að taka á móti gestum.
Pabbi sem alla ævi var dekraður af konum.
Pabbi sem var sælkeri og elskaði matinn og kökurnar hennar mömmu.
Pabbi sem mætti á ættarmót vestur á firði með rakdót og viskíflösku í kaupfélagspoka í þeirri vissu að mamma kæmi með aðrar nauðsynjar. Pabbi sem hafði mikla frásagnargáfu og naut þess að heyra og segja góðar sögur.
Pabbi sem sat svo oft í stólnum sínum í stofunni að lesa.
Pabbi sem mundi allt sem hann las. Pabbi sem hermdi stundum eftir í hópi góðra vina og nágranna.
Pabbi sem sá spaugilegu hliðina á daglega lífinu og í hversdagslegum atburðum.
Pabbi sem öfundaði engan, lét sig veraldlega hluti engu skipta og kom eins fram við alla.
Pabbi sem í kjölfar heilsubrests fyrir u.þ.b. áratug settist í helgan stein og naut þess að hafa tíma til að lesa bókmenntir og ljóð.
Pabbi sem stundum var dulur og dró sig í hlé.
Pabbi sem eyddi síðustu ævidögum sínum heima, á staðnum sem hann unni svo heitt, í faðmi fjölskyldunnar.
Elsku mamma, þú ert kletturinn okkar og betri helmingurinn hans pabba. Í sextíu ár urðuð þið samferða í gegnum lífið og skiljið eftir ykkur stóran hóp afkomenda.
Elsku pabbi, við munum minnast þín þegar við sjáum álftaparið á tjörninni, hrafnana sem þú fóðraðir, grjótið í fjörunni og berin á lynginu. Minningin um litríkan persónuleika lifir um ókomin ár.
Takk fyrir samfylgdina pabbi.
Grétar Þór, Þórleif,
Guðný Þóra, Anna Steinunn og Elfa Hrönn.
Það eru tæp 40 ár síðan leiðir okkar Frigga lágu saman en þá hafði ég kynnst elstu heimasætunni á Höfða. Síðan þá hefur verið mikill vinskapur okkar á milli og við átt margar ánægjulegar samverustundir.
Veiðiskapur, heyskapur, smalamennska, umræður um pólitík, eftirhermur, skemmtilegar sögur og hlátur við eldhúsborðið.
Friggi á Höfða er eftirminnilegur persónuleiki og kveð ég hann með miklum söknuði og minnist hans með virðingu.
Elsku Gurra mín, megi guð styrkja þig og fjölskylduna, það verður áfram alltaf jafn yndislegt að koma á heimili þitt.
Hólmgeir Einarsson.
Friðrik var ekki mikið fyrir ferðalög en þeim mun skemmtilegra þótti honum að fá til sín gesti. Hann hafði gaman af sögum og þá ekki síst að rifja upp spaugileg atvik og uppákomur. Friðrik kunni vel að herma eftir fólki sem gaf sögunum lifandi yfirbragð. Góðar sögur gátu átt langt líf án þess að þær væru endursagðar, þannig átti Friðrik það til að slá fram setningu eða tilsvari úr góðri sögu, þar sem áherslan á orðin, svipbrigði og höfuðhnykkir drógu fram söguna ljóslifandi á örskotsstundu.
Við tengdafaðir minn áttum það sameiginlegt að fara á fjöll, þó svo að stundum væru ástæður fyrir ferðum okkar ólíkar, enda fór Friðrik ekki í gönguferðir án þess að hafa erindi. Þó svo að ég færi gjarnan erindislitlar ferðir að hans mati þá sýndi hann þeim áhuga og skilning, meira að segja þegar ég hélt hnarreistur úr Svarfaðardal og ætlaði að ganga yfir á Höfða, en villtist niður í Fljót og tengdapabbi sótti mig þangað.
Friðrik kunni að njóta þess sem náttúran gaf enda jörðin Höfði gjöful jafnt af kjöti, silung og berjum. Fáir kunnu að mínu viti betur að reykja hangikjöt en hann og fæ ég vatn í munninn við tilhugsunina.
Fólk hefur áhrif hvað á annað og hann tengdafaðir minn hafði sannarlega áhrif á mig með lífsgildum sínum svo sem að njóta þess sem maður hefur og að maður er manns gaman. Ég er ríkari eftir að hafa kynnst honum og þakklátur fyrir margar og góðar samverustundir.
Árni Birgisson.
Okkar helstu minningar um afa eru frá barnæsku því við eyddum oft löngum tíma á sumrin í sveitinni hjá afa og ömmu. Þegar aðrir krakkar fóru í sólarlandaferðir þá fórum við í sveitina og eru þessar minningar okkur mjög dýrmætar.
Í sveitinni var alltaf nóg að gera og fannst okkur gaman að fá að taka þátt í öllum sveitastörfum, eins og sækja beljurnar út í haga, gefa heimalningunum og taka þátt í heyskapnum. Toppurinn var þó að fá að sitja á heyvagninum og vitja netanna.
Í minningunni var húsið alltaf fullt af fólki og þar var afi hrókur alls fagnaðar. Sögurnar og hláturinn hans mun lifa með okkur um alla tíð en afi hafði einstakt lag á því að segja sögur og hafði hann mjög smitandi hlátur.
Við kynntumst nokkrum hundum í sveitinni; Kát, Patta og Kollý, síðastur var Bjáni og þótti afa mjög vænt um þá alla. Hann hefur þó sjaldan eða aldrei verið jafn stoltur og þegar Bjáni veiddi mink og ákvað í framhaldinu að stoppa hann upp, ömmu til mikillar „gleði“.
Afi gat líka verið ansi stríðinn en þegar við vorum yngri vorum við fyrstu jólin okkar í sveitinni hjá afa og ömmu. Þegar búið var að borða þá þurfti afi að fara í fjósið og gefa beljunum og tók hann sér dágóðan tíma í það kallinn (virtist náttúrlega heil eilífð á þessum tíma). Svo þegar hann kom inn þá þurfti hann að fá sér eina filterslausa camel-sígarettu, fara í sturtu og klæða sig í fínu fötin og nei hann var sko ekki að drífa sig. Þarna reyndi sko töluvert á þolinmæðina hjá okkur.
Eftir því sem árin liðu fórum við ekki jafn oft í sveitina en afi fylgdist alltaf vel með okkur og hvernig okkur gengi í handboltanum og hafði gaman af því að ræða það við okkur þegar við hittum hann.
Við eigum svo sannarlega eftir að sakna þess að hitta ekki afa þegar við komum næst. Við erum ævinlega þakklát fyrir það að börnin okkar hafa fengið að kynnast honum og sérstaklega þakklát fyrir að hafa náð að hitta hann áður en hann kvaddi okkur eftir stutt veikindi.
Við elskum þig, afi, og vitum að það verður tekið vel á móti þér.
Drífa, Einar og Björgvin.
Þetta er búið að gerast svo hratt þessi veikindi þín en sjálfsagt varst þú orðinn veikur áður en nokkur vissi af því, það var ekki þinn háttur að ræða mikið um sjálfan þig.
Ég á margar góðar minningar frá okkar æsku og samveruárum. Við áttum góða og áhyggjulausa æsku, við vorum þrjú systkinin, Guðrún systir okkar var elst, en hún lést í október á síðasta ári, svo að það er stutt stórra högga á milli í okkar fjölskyldu. Ég var nær þér í aldri og var því samband okkar mikið og ég ýmist græt eða hlæ við allar minningar sem koma upp í hugann. Það er svo gott að eiga fallegar minningar og af þeim á ég nóg.
Við vorum bæði miklir lestrarhestar og deildum óspart áliti okkar á öllum nýju bókunum en þú fékkst sirka 16 eða 17 bækur um jólin og áttum við oft löng símtöl um úttekt á þeim og oftar en ekki vorum við sammála um gæði þeirra.
Ég veit ekki hvort Friggi var á réttri hillu í lífinu að vera bóndi, eflaust hefði hann verið betur falinn til annarra starfa. En þetta varð hans hlutskipti og ég held að hann hafi verið sæmilega sáttur við það.
Friggi átti stóra og góða fjölskyldu, Guðrún kona hans er frábær og börnin þeirra fimm og þeirra fjölskyldur, allt gott og duglegt fólk sem ég veit að hugsar vel um þig, elsku Gurrí mín.
Ég kveð elsku bróður minn með miklum söknuði en jafnframt með þakklæti fyrir öll árin okkar saman. Guð geymi þig.
Þóra Valgerður.
Þegar við Gunnubörn í Lyngholti vorum lítil var alltaf mikið tilhlökkunarefni að fara í Höfða. Eyjarnar á Skagafirðinum sem við horfðum á út um norðurgluggana okkar voru þar rétt hjá, hægt að ganga út í Þórðarhöfðann og berjalautirnar ævintýralegar. En það besta var allt fólkið. Þar voru afi, amma og Bríet, Friggi og Gurra, öll frændsystkinin og oft enn fleiri. Og þó að elsta kynslóðin hyrfi og inntak Höfðaferðanna breyttist eftir því sem við uxum úr grasi komu ný börn. Þau fundu hlýjuna og lítil ömmustelpa hennar Gunnu spurði hvort hægt væri að fara í Höfða að heimsækja Frigga bónda því það væri svo skemmtilegt. Nú eru vistaskiptin um garð gengin hjá þér og vænta má að þú sért búinn að hitta Gunnu systur og aðra vandamenn í handanheimi. Móttökurnar hafa verið bæði veglegar og hjartanlegar eins og ævinlega hjá ykkur. Við sjáum fyrir okkur að hafin sé lífleg umræða, atburðir rifjaðir upp, sögur sagðar og þú bregður þér í líki valinkunnra svo hláturinn glymur um allar gáttir. Það var þétt setið næst þér þegar komið var saman því frásagnir þínar voru þannig að oft hefðu þær kallast uppistand á nútímamáli. Svo var líka talað um bækurnar. Ef ritið bar á góma varst þú vísast búinn að lesa það og tilbúinn að greina verkið og skeggræða. Sjálfgert var að spyrja frétta, fara yfir heimsmálin og njóta samverustundarinnar. Annar tími var fjarri á meðan. Við þökkum þér frændsemina og góðu minningarnar sem við eigum um þig á Höfða en þær eru líka ofnar í heildarmyndina þar sem Gurra stendur fyrir heimilinu með sinn myndarskap og stóra faðm. Í sameiningu sáuð þið þannig um að eftir hverja heimsókn vildi maður helst koma sem fyrst aftur.
Kæra Gurra, frændsystkini og fjölskyldur. Okkar innilegustu samúðarkveðjur til ykkar.
Hjördís, Björn
Friðrik, Einar, Jón,
Guðmundur Anton og
Steinunn Guðbjörg.
Sumrin á Höfða liðu eitt af öðru, að ná til þakskeggsins var ekki lengur vandi og ég orðinn hálfdrættingur á við Frigga í slættinum. Við Friggi sváfum á Kompunni, undir súð. Það var magnaður staður og Friggi átti í kistu safn af lesefni. Hann dáði Davíð Stefánsson, ég þrautlas Basil fursta og ógrynni af reyfurum. Margir lögðu leið sína að Höfða. Þegar fólkið á Hofi leit inn í kaffi kom kaupakonan með. Hún Guðrún Þórðardóttir komin í Hof að vestan, frá Hnífsdal. Henni fylgdi ferskleiki sem sveif á bóndasoninn. Það söng í ljánum hjá honum. Sumarið eftir svaf ég einn á Kompunni. Gurra var komin heim á Höfða og næstu ár fæddust börnin fimm eitt af öðru. Það var sannkallað barnalán.
Síðustu vikur voru erfiðar en smám saman varð ljóst að hverju drægi. Gurra var klettur sem fyrr og með henni stóðu börnin og fjölskyldur þeirra. Við Sigrún vottum Gurru, börnum þeirra Frigga og stórfjölskyldu dýpstu samúð.
Vinur, vertu sæll og ljósinu falinn.
Jón Ólafsson.
Við vorum saman við nám í bændaskólanum á Hólum einn vetur og útskrifuðumst búfræðingar vorið 1954. Friðrik frá Höfða var viðkynningargóður og skemmtilegur og hafði hlotið gott atgervi til líkama og sálar. Hann var afburðagóð eftirherma sem gat náð hljóði úr hvaða barka sem var á Hólastað þennan vetur.
Á útmánuðum höfðu gengið stórhríðar í viku og ekki unnt að koma mjólk frá búinu, ráðsmaður greip þá til þess ráðs að senda vörubíl búsins til Sauðárkróks með mjólkurbrúsana, ásamt Hólasveinum sem áttu að opna veginn og moka fyrir bílinn. Þetta tókst og komum við um kvöldið í Krókinn og urðum að ræsa út menn í samlaginu, en Jón Björnsson í Ytribúðinni afi Óla Björns Kárasonar beið eftir okkur því að skólann vantaði vörur. Þess má geta að einn skólapilturinn ók bílnum. Heim komum við heilu og höldnu upp úr miðnætti.
Nokkrum árum seinna er ég var ráðinn til starfa hjá Búnaðarsambandi Skagafjarðar fékk ég það verkefni að mæla túnstærð jarða í héraðinu. Nú átti ekki að styrkja túnstærð á bæjum ef túnstærð var orðin 20 ha að mig minnir. Hitt man ég mætavel að á þessari yfirreið minni voru það tveir bændur sem buðu mér vín, það voru þeir Ásgrímur á Tjörnum og Anton á Höfða. Það voru höfðingjar. Á manndóms- og búskaparárum okkar Friðriks tókst gott samstarf okkar um Framsóknarflokkinn og samvinnu mál í héraði okkar.
Með Friðriki á Höfða er genginn góður drengur. Blessuð sé hans minning.
Ég votta eftirlifandi konu hans, börnum og þeirra aðstandendum einlæga samúð, og bið góðan guð að styðja þau og styrkja í sorginni.
Gunnar Oddsson.
Margar dýrmætar minningar eigum við frá þessum tíma. Friðrik var góður sögumaður og leikin eftirherma. Börnin muna sérstaklega eftir skemmtilegum stundum þegar þau lágu í kojunni í sumarbústaðnum og hlustuðu með athygli á Friðrik segja sögur, sem oftar en ekki voru skemmtisögur af fólki úr sveitinni og ekki hægt annað en að hlæja með þegar hann skellti upp úr í lok frásagnar.
Friðrik og Gísli stunduðu veiðiskapinn í Höfðavatni af kappi og fengu krakkarnir oft að fljóta með. Veiðiferðirnar skilja eftir sig ómetanlegar minningar hjá okkur og þar lærðum við margt nytsamlegt um lífið og tilveruna.
Við höfðum gaman af að vera með Friðriki í heyskapnum og í minningunni voru auknar líkur á rigningu þegar Friðrik bóndi byrjaði slátt á Höfða. Friðrik var einstaklega ljúfur maður og skemmtilegur heim að sækja. Við höfum átt margar ánægjulegar stundir með þeim hjónum á Höfða gegnum árin.
Nú eru þau Friðrik, Erla og Gísli aftur saman, þeir sitja án efa á stundum í fallegri kænu á lygnu vatni í veiðiferð, spjalla og hlæja.
Við þökkum Friðriki samfylgdina, ljúfar minningar um einstakan mann munu lifa í huga okkar.
Elsku Gurru, börnum og fjölskyldum þeirra vottum við okkar dýpstu samúð.
Ferð þín er hafin.
Fjarlægjast heimatún.
Nú fylgir þú vötnum
sem falla til nýrra staða.
Og sjónhringar nýir
sindra þér fyrir augum.
(Hannes Pétursson.)
Einar, Soffía, börn og
fjölskyldur þeirra.
Friggi var mikill áhugamaður um pólitík og fylgdist vel með alveg fram undir það síðasta. Stjórnmálin voru löngum okkar helsta umræðuefni og þá sérstaklega Framsóknarflokkurinn. Við veltum því upp hvernig hinn og þessi væri að standa sig og hvort einhverjir nýir efnilegir væru á leiðinni. Átök fylgja stjórnmálum og var Friggi oft argur út í þá sem stóðu fyrir innanflokksátökum, taldi þá vera að skemma fyrir. Þrátt fyrir það vissi hann ósköp vel að sjaldan veldur einn þegar tveir deila. Þegar leið að kosningum jókst áhuginn og oftar en ekki hafði hann sterkar skoðanir á frambjóðendum hvort sem það var innan flokks eða utan. Þá var stundum viðkvæðið „er hann ekki alveg vonlaus?“ Þá voru þeir það venjulega hvort sem þeir náðu kjöri eða ekki.
Friggi var sögumaður og gat vel hermt eftir mönnum. Sagan segir að einu sinni sem oftar hafi Tryggvi í Lónkoti komið að Höfða og spurt eftir Frigga. Strákpjakkur sem fór til dyra hljóp inn og kallaði „kallinn sem þú varst að herma eftir í gær er kominn“. Hann náði mörgum listavel, ættingjum, sveitungum og þjóðþekktum persónum. Gaman var t.d. að heyra hann herma eftir Gísla Halldórssyni leikara, sem hann hafði miklar mætur á, Baldri í Vatnsfirði eða nafna sínum á Svaðastöðum. Ekki er útilokað að stundum hafi hann lagt þeim orð í munn ef hann taldi að sagan yrði betri þannig.
Allt hefur sinn tíma og nú er hans tími liðinn en eftir sitja minningar um góðan og skemmtilegan mann. Það var gott að kynnast Frigga á Höfða.
Sigurður Árnason.