[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigurður Axelsson fæddist í Reykjavík 29.7. 1932 og var skírður við kistu föðurafa síns og nafna, Sigurðar Gunnarssonar járnsmiðs. Sá Sigurður byggði Ölfusárbrúna en Smiðjustígurinn í Skuggahverfinu í Reykjavík mun vera kenndur við smiðju hans.

Sigurður Axelsson fæddist í Reykjavík 29.7. 1932 og var skírður við kistu föðurafa síns og nafna, Sigurðar Gunnarssonar járnsmiðs. Sá Sigurður byggði Ölfusárbrúna en Smiðjustígurinn í Skuggahverfinu í Reykjavík mun vera kenndur við smiðju hans.

Sigurður Axelsson ólst hins vegar upp við Grettisgötu. Hann var auk þess mörg sumur í sveit hjá móðurafa sínum og -ömmu á Minni-Ólafsvöllum á Skeiðum.

Sigurður var í Austurbæjarskóla, lauk gagnfræðaprófi, kvöldskólanámi, var flugvirkjanemi hjá Loftleiðum 1947-50, stundaði nám við tækniskóla í Liverpool 1965-67 og framhaldsnám við tækniskóla í Birmingham 1969-73. Þá var hann í starfsnámi og þjálfun hjá Weight and Measures Department í Glasgow í Skotlandi, hjá Van Berkel í Hollandi og Avery í Birmingham í Bretlandi.

Sigurður sinnti ýmsum störfum, m.a. hjá Hamilton & Beck á Keflavíkurflugvelli.

Sigurður var ráðinn eftirlitsmaður hjá Löggildingarstofu ríkisins árið 1960, varð síðan starfsmanna- og rekstrarstjóri stofunarinnar 1973 en var skipaður forstöðumaður Löggildingarstofu 1976 og gegndi því embætti til 1997 er hann lét af störfum fyrir aldurs sakir.

„Löggildingarstofa ríkisins var upphaflega stofnuð árið 1919 en þar var ýmislegt komið til ára sinna varðandi rekstur og skipulag þegar ég tók við stofnuninni. Það fór því mikil vinna í uppbyggingu og endurskipulagningu eftir að ég tók þar við. Auk þess kölluðu ný tækni og almenn ný viðhorf á nauðsynlegar breytingar. En allt tókst þetta vel að lokum með góðu starfsfólki.

En nú heitir þessi góða stofnun Neytendastofa.“

Sigurður hefur verið mikill félagsmálamaður alla tíð. Hann hefur starfað í Sjálfstæðisfélagi Garðabæjar um árabil og setið í ótal ráðum og nefndum á vegum Garðabæjar, lengst af í félagsmálaráði. Hann starfar í Kiwanisklúbbnum Setbergi í Garðabæ, hefur gegnt þar öllum trúnaðarstörfum og verið forseti hans í þrjú ár. Í Kiwanishreyfingu Íslands-Færeyja var hann svæðisstjóri Ægissvæðis. Þá hefur hann starfað í kvöldvökufélaginu Ljóðum og sögu um árabil og var formaður þess í sex ár. Hann var formaður Félags aldraðra í Garðabæ í sex ár, hefur starfað í frímúrarareglunni, setið í sóknarnefnd Garðasóknar og í öldrunarnefnd Garðabæjar.

Sigurður gekk ungur í Sundfélagið Ægi, æfði þar sund og keppti í ýmsum greinum á sínum yngri árum. Hann hefur stundað morgunsund í Sundhöll Reykjavíkur með góðum félögum í marga áratugi: „Ég átti heima á Grettisgötunni þegar Sundhöllin var opnuð en hún þótti glæsilegt íþróttamannvirki á sínum tíma. Þess vegna hef ég alltaf haldið tryggð við hana og félaga mína þar.

En nú orðið starfa ég einkum við það að taka lífinu með ró, hvíla mig og spjalla við gamla fólkið á Ísafold í Garðabæ.“

Fjölskylda

Eiginkona Sigurðar er Hrafnhildur Kristinsdóttir, f. 22.3. 1935, áður skrifstofumaður og síðan húsfreyja. Hún er dóttir Kristins Bjarnasonar, f. 19.5. 1892, d. 12.7. 1968, frá Ási í Vatnsdal, hagyrðings og bónda í Borgarholti í Biskupstungum, og k.h., Guðfinnu Ástdísar Árnadóttur, f. 19.11. 1903, d. 5.10. 1990, frá Grund í Vestmannaeyjum, húsfreyju í Borgarholti.

Börn Sigurðar og Hrafnhildar eru 1) Axel Sigurðsson, f. 23.10. 1952, d. 18.8. 2016, sjúkraliði en fyrri kona hans var Katrín Björnsdóttir, sjúkraliði í Bogarnesi, og eignuðust þau þrjú börn, Hrafnhildi Maríu Axelsdóttur Ledger, f. 1973, Sigurð Axel Axelsson, f. 1980, og Björn Torfa Axelsson, f. 1983, en seinni kona Axels er Laufey Margrét Jóhannesdóttir, sjúkraliði í Hafnarfirði og er dóttir þeirra Linda Rún Axelsdóttir, f. 2000. 2) Stefanía Kristín Sigurðardóttir, f. 11.2. 1957, skrifstofumaður í Hafnarfirði en maður hennar er Reynir Þórðarson leiðsögumaður og eru synir þeirra Þórður Reynisson, f. 1980, og Hlynur Reynisson, f. 1983.

Systkini Sigurðar: Stefanía Axelsdóttir Nílsen, f. 7.11. 1917, d. 1991, hjúkrunarfræðingur í Danmörku; Sigríður Axelsdóttir Nash, f. 15.5. 1919, d. 10.7. 2015, móttökustjóri í Los Angeles og síðar í Flórída í Bandaríkjunum; Olgeir Kristinn Axelsson, f. 6.4. 1921, d. 9.6. 2008, kennari við Iðnskólann í Reykjavík, og Sverrir Ingi Axelsson, f. 25.10. 1927, lengst af vélstjóri hjá Hitaveitu Reykjavíkur, búsettur í Reykjavík.

Foreldrar Sigurðar voru Axel Valdimar Sigurðsson, f. á Smiðjustíg 4 í Reykjavík 28.10. 1897, d. 18.2. 1970, iðnverkamaður í Reykjavík, og k.h., Kristín Ketilsdóttir, f. 14.10. 1895, d. 17.11. 1955, húsfreyja.