Lækningar Miklar framfarir eru núna í krabbameinslækningum.
Lækningar Miklar framfarir eru núna í krabbameinslækningum. — Morgunblaðið/ÞÖK
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Anna Lilja Þórisdóttir annalilja@mbl.is Brýnt er að íslenskt samfélag marki sér stefnu varðandi krabbameinsmeðferðir og hvort bjóða eigi upp á nýjustu meðferðir á þessu sviði, en þær verða sífellt dýrari og sérhæfðari.

Anna Lilja Þórisdóttir

annalilja@mbl.is

Brýnt er að íslenskt samfélag marki sér stefnu varðandi krabbameinsmeðferðir og hvort bjóða eigi upp á nýjustu meðferðir á þessu sviði, en þær verða sífellt dýrari og sérhæfðari. Þetta segir Signý Vala Sveinsdóttir, blóðlæknir og settur yfirlæknir blóðlækningadeildar Landspítalans.

Tilefnið er ný aðferð við krabbameinslækningar, sem felur í sér erfðafræðilega breytingu á hvítum blóðkornum þannig að hvert þeirra geti deytt allt að 100 þúsund krabbameinsfrumur. Greint var frá þessari aðferð í Morgunblaðinu í gær og þar var vísað í umfjöllun sem nýverið birtist í bandaríska dagblaðinu The New York Times þar sem segir m.a. að eftir áralangar rannsóknir á þessu sviði hafi bandarískt lyfjafyrirtæki þróað áðurnefnda lækningaaðferð. Þar kemur einnig fram að Matvæla- og lyfjaeftirlit Bandaríkjanna hafi mælt með því að gefið yrði út markaðsleyfi á henni.

Ferlið tekur nokkur ár

„Hvenær og ef af því verður að þessi meðferð verði í boði hér á landi vitum við ekki,“ segir Signý. „Fyrst þarf leyfið að fást í Bandaríkjunum, eftir það þarf meðferðin að fara undir Evrópsku lyfjastofnunina og síðan leggur lyfjanefnd hér á landi mat á hana. Við erum ekki að tala um daga, vikur eða mánuði – heldur nokkur ár. Þó að niðurstöður rannsókna séu komnar getur liðið langur tími þangað til meðferðin verður veitt almenningi. Þetta er gríðarlega flókin og dýr meðferð,“ segir Signý en í áðurnefndri umfjöllun Morgunblaðsins í gær sagði Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, að líklega myndi meðferð sem þessi kosta rúmlega 30 milljónir fyrir hvern sjúkling. „Stærstu skilaboðin eru að það eru miklar framfarir í krabbameinsmeðferðum, en jafnframt verður kostnaðurinn sífellt hærri. Við, sem samfélag, þurfum að ákveða hvert við viljum stefna í þessum málum og hvernig við ætlum að leysa þennan háa lyfjakostnað.“

Ein af mörgum meðferðum

Signý segir að mikil gróska sé í rannsóknum á krabbameinsmeðferðum um þessar mundir og þetta sé ein af mörgum meðferðum sem hafi verið í þróun. „Þessi meðferð er vissulega mjög lofandi fyrir komandi ár fyrir tilteknar tegundir krabbameins og svo virðist sem þessi aðferðafræði sé lengst komin í baráttunni við ákveðna undirtegund bráðahvítblæðis.“

Aðspurð segir Signý að engar viðlíka rannsóknir séu gerðar hér á landi, en íslenskir læknar taki stundum þátt í stórum alþjóðlegum rannsóknum eftir því sem tækifæri gefast til. „Ég veit þó ekki til þess að íslenskur læknir hafi tekið þátt í þessari rannsókn, enda er eingöngu um bandaríska rannsókn að ræða,“ segir hún.