Þórir Stephensen
Þórir Stephensen
Eftir Þóri Stephensen: "Hér á ekki að ríkja íbúalýðræði, heldur ráðstjórn forræðishyggjunnar. Við höfum ekkert vit á málunum. Það er allt innan hausaskelja höfðingjanna við Tjörnina."

Kærumálum vegna framkvæmda á Útvarpsreitnum er lokið með sigri borgarstjórnar. Jafnframt er komið í ljós, að glæsileg loforð í stefnuskrá meirihlutans hafa ekkert gildi, þegar lögum og reglugerðum er beitt. Þess vegna er óhætt að lofa hverju sem er eins og því sem hér fer á eftir og er beint úr samstarfssáttmála meirihlutans:

... Virðing fyrir öllu fólki ... verður sett í öndvegi. ... að það sé ekki bara okkar vilji sem gildi. Við viljum efla lýðræðið svo að kraftur allra borgarbúa nýtist við stefnumörkun og ákvarðanatöku hins opinbera. Við hlustum á alls konar raddir og sköpum þeim vettvang. Með opnari stjórnsýslu verður samræðan upplýstari, ákvarðanatakan skilvirkari og sáttin meiri. Gagnsæi og aukið íbúalýðræði er eitt af meginverkefnum kjörtímabilsins. Markmiðið er að auka traust, bæta upplýsingamiðlun og hvetja til lýðræðislegrar þátttöku.

Við skulum muna það, kjósendur, næsta vor, að yfir þessi fögru loforð hefur meirihlutinn vaðið á skítugum skónum.

Ein setning í málflutningi borgaryfirvalda fyrir úrskurðarnefndinni í þessu máli varð til þess, að ég hrökk við. Þar segir: „Til að draga úr umferð einkabíla af völdum fyrirhugaðrar byggðar og auka líkur á notkun annars ferðamáta sé skynsamlegt og rétt að takmarka framboð á bílastæðum.“

Þar höfum við það. Hér á ekki að ríkja íbúalýðræði, heldur ráðstjórn forræðishyggjunnar. Við höfum ekkert vit á málunum. Það er allt innan hausaskelja höfðingjanna við Tjörnina.

Ég get borið virðingu fyrir fólki, sem rekur áróður gegn einkabílnum og fækkar bílastæðum þegar það tekst. En hitt heitir ofbeldi að fækka bílastæðum til þess að neyða fólk til að hætta að nota bílinn.

Ætli það sé ekki vel þriðjungur þjóðarinnar, sem getur alls ekki notað reiðhjól. Almenningssamgöngur í Reykjavík eru líka svo óáreiðanlegar fyrir þá, sem þurfa að vera stundvísir. Oft eru þær illa tímasettar með tilliti til vaktavinnu. Margir sem vildu reyna að nota þær hafa því gefist upp.

Fæstir þeirra, sem nú hjóla, hafa selt bílinn, svo að hann þarf sitt stæði. Í stórinnkaup fara fáir á reiðhjóli. Barnafjölskyldur þurfa bílinn þegar farið er í heimsóknir o.s.frv.

Við erum æðimörg, sem metum mikils það frelsi, sem bíllinn gefur okkur og viljum ekki láta það af hendi. En við höfum ekki frjálsan vilja. Einstaklingurinn í Reykjavíkurborg fær nú að reyna á eigin skinni tilraun borgaryfirvalda til að neyða hann til breyttra samgönguhátta. Hann á ekki lengur að vera sjálfs sín ráðandi. Við Tjörnina er nú hrópað eins og Ómar Ragnarsson söng forðum:

„Hjólaðu! Hjólaðu! Hjólaðu!“

Höfundur er fv. dómkirkjuprestur og staðarhaldari í Viðey.

Höf.: Þóri Stephensen