Altarið Rakaskemmdir eru í altaristöflunni í Hallgrímskirkju.
Altarið Rakaskemmdir eru í altaristöflunni í Hallgrímskirkju. — Morgunblaðið/RAX
Magnús Heimir Jónasson mhj@mbl.is Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, segir að lækkun á tekjum kirknanna eftir hrun eigi þátt í því að ekki hefur verið hægt að sinna viðhaldi sem skyldi.

Magnús Heimir Jónasson

mhj@mbl.is

Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, segir að lækkun á tekjum kirknanna eftir hrun eigi þátt í því að ekki hefur verið hægt að sinna viðhaldi sem skyldi. Fjölmargar kirkjur víðsvegar um landið þurfa nauðsynlega á viðhaldi að halda.

„Ég veit af þessu vandamáli víða um land, eftir að hrunið varð lækkuðu tekjur sóknanna og þar af leiðandi minnkaði fjármagnið sem kirkjan hefur til viðhalds. Eins lækkuðu tekjurnar til að reka kirkjurnar og halda utan um safnaðarstarfið. Þannig að það eru margar kirkjur sem sárlega þurfa betra viðhald en nú er,“ segir Agnes.

Sóknargjald mikið skert

Morgunblaðið fjallaði í gær um nauðsynlegar viðgerðir sem þurfa að fara fram á Hallgrímskirkju í Saurbæ en sóknargjöld kirkjunnar hafa verið mikið skert. Ef sóknargjald Hallgrímskirkju er reiknað eftir skerðingu af hálfu ríkisins þá hefur kirkjan fengið um 2,3 milljónir krónur á árunum 2008 til 2016 í sóknargjöld.. Það gerir að meðaltali 266 þúsund krónur á ári. „Kirkjurnar eru flestar á forræði safnaðar og það eru sóknirnar sem bera ábyrgð á því meðal annars að halda þeim við. Kirkjuráð hefur aðkomu að slíku gegnum sjóðina sérstaklega jöfnunarsjóð sókna sem styrkir sóknir sem einhverra hluta vegna geta ekki staðið undir því sem þær eiga að standa undir þar á meðal viðhaldi,“ segir Oddur Einarsson, framkvæmdastjóri Kirkjuráðs.

Sókn Hallgrímskirkju í Saurbæ er afar lítil og hefur hún fengið styrk úr jöfnunarsjóði sókna en Agnes segir að nauðsynlegt sé fyrir ríkið að aðstoða einnig þegar um friðaðar kirkjur er að ræða. „Jöfnunarsjóður sókna kemur náttúrlega að svona málum vegna þess að sóknirnar sækja í þann sjóð og það er reynt að skipta því fjármagni sem fyrir hendi er á skynsamlegan og rökréttan hátt miðað við aðstæður. En þegar kirkjur eru friðaðar eru yfirvöld landsins búin að segja að það megi ekki gera við nema á vissan hátt og þar af leiðandi hlýtur ríkið að koma að málunum,“ segir Agnes.

Íhuga breytt verklag

Aðspurður segir Oddur að nauðsynlegt sé að íhuga breytt verklag varðandi skoðun á kirkjum landsins. „Við munum beita öllu okkar verklagi í tilefni af þessum mörgum dæmum sem nú eru að koma upp. Það hefur verið þannig að við prestaskipti hefur alltaf verið farið fram úttekt á prestsbústöðum og þá gert við það sem gera þarf við. Það líður oft mjög langur tími á milli prestaskipta þannig að við erum að íhuga breytt verklag hvað þetta varðar,“ segir Oddur.