Krakkarnir Hópurinn fékk ferð til Reykjavíkur í verðlaun fyrir sigur á skólamóti. Alls tóku 12 lið þátt í mótinu.
Krakkarnir Hópurinn fékk ferð til Reykjavíkur í verðlaun fyrir sigur á skólamóti. Alls tóku 12 lið þátt í mótinu. — Morgunblaðið/Hanna
Aron Þórður Albertsson aronthordur@mbl.

Aron Þórður Albertsson

aronthordur@mbl.is

„Okkur finnst frábært að geta boðið krökkunum okkar upp á að heimsækja nýtt land og fá um leið að kynnast annarri menningu,“ segir Rodrigo Delgado, borgarstjóri Estación Cential í Síle, sem staddur er hér á landi ásamt tuttugu strákum sem taka þátt í Rey Cup um helgina. Þetta er í fyrsta skipti sem lið frá Síle tekur þátt í mótinu, en ferðin til Reykjavíkur var verðlaun fyrir sigur á skólamóti sem haldið var í Síle síðastliðinn vetur.

Delgado segir keppnina hafa verið haldna í samstarfi við spænska stórliðið Real Madrid, en á mótinu kepptu tólf skólar um verðlaunin.

„Við höfum verið í samstarfi við Real Madrid undanfarin fimm ár, en ár hvert bjóða þeir nokkrum krökkum úr borginni okkar til Madrídar til æfinga. Í ár vildu þeir líka hafa keppni milli ríkisrekinna skóla í borginni og skólanum sem ynni þá keppni yrði boðið að koma til Íslands og spila á Rey Cup. Alls tóku 12 skólar þátt í keppninni en einu skilyrðin voru þau að strákarnir væru yngri en 14 ára,“ segir Delgado, en krakkarnir lögðu á sig um 30 klukkustunda ferðalag. „Við lögðum af stað síðastliðinn sunnudag og komum til landsins aðfaranótt þriðjudags. Við flugum fyrst til Lundúna, sem tók um 14 klukkustundir, og þar þurftum við að bíða í níu tíma eftir að geta flogið til Íslands. Þrátt fyrir langt ferðalag hefur ferðin þó verið vel þess virði,“ segir hann.

Kyrrð og fallegt landslag

Delgado segir talsverðan menningarmun á Síle og Íslandi. Krakkar í Síle fái fá tækifæri til þess að ferðast til Evrópu. „Í Evrópu geta krakkar ferðast oft og auðveldlega á milli landa. Hjá okkur er ekki möguleiki á því og sérstaklega ekki þeir krakkar sem stunda nám við ríkisrekna skóla. Við vildum hins vegar sýna þeim að þeir sem eru duglegir og leggja á sig geta fengið tækifæri til þess að ferðast og skoða önnur lönd,“ segir hann.

Spurður hvað hann kunni best að meta við Ísland segir Delgado kyrrðina og fallegt landslag standa upp úr. „Þetta er allt annað en við þekkjum; landið er rólegt og svo er landslagið alveg frábært. Auk þess er gaman að fá að upplifa þessar löngu sumarnætur, ég hef aldrei séð neitt þvílíkt,“ segir Rodrigo.