Vinnustofan Björn Heimir Önundarson glaðbeittur við teikniborðið.
Vinnustofan Björn Heimir Önundarson glaðbeittur við teikniborðið. — Morgunblaðið/Hanna
Þorgrímur Kári Snævarr thorgrimur@mbl.is Staðið er í tilraunum til að glæða „jaðarsvið“ íslensku myndasögusenunnar lífi.

Þorgrímur Kári Snævarr

thorgrimur@mbl.is

Staðið er í tilraunum til að glæða „jaðarsvið“ íslensku myndasögusenunnar lífi. Teiknarinn Björn Heimir Önundarson, ásamt meðhöfundi sínum, Ægi Magnússyni, gaf nýlega út lítið upplag af myndasögublaðinu Mergæxli . Þegar blaðið er skoðað kemur fljótt í ljós að efnið er í meira lagi klúrt og mjög í anda „neðanjarðarsviðs“ bandarískra myndasagna sem teiknarar eins og Robert Crumb og Gilbert Shelton gerðu vinsælt á áttunda áratug síðustu aldar. Slíkar myndasögur voru yfirleitt gefnar út sjálfstætt og því óheftar af félagsgildum og ritskoðun síns tíma. Þær tóku fyrir umræðuefni sem voru tilteknum samfélagshópum hugleikin en bönnuð í flestum virðulegri miðlum; t.d. fíkniefnanotkun, rokktónlist, kynlífsfrelsi og félags- og stjórnmálaádeilu.

Blað, blýantur og hugmynd

„Við erum ekki mikið að ritskoða sjálfa okkur,“ segir Björn Heimir um myndasögublaðið. „Við erum bara tveir að fíflast í þessu og mikið af þessu er einkahúmor sem myndast í einrúmi. Við prentuðum þetta sjálfir í fimmtíu eintökum og hentum nokkrum í Nexus og Lucky Records. Við erum aðallega að reyna að ýta undir fáránleika. Ef fólk tekur efni blaðsins of nærri sér skortir það smá nef fyrir fáránleikanum.“

Björn segir þá Ægi ekki aðhyllast myndasöguformið neitt sérstaklega en þeim finnist það hentugt listform til að miðla hugmyndum sínum. „Þetta er einfalt form, miklu einfaldara en kvikmyndir eða leikrit. Það þarf bara blað, blýant og hugmynd. Það er einfalt og snöggt ferli að koma hugmyndum, sérstaklega þeim sem byggjast á frásögn, fram. Ægir er yfirleitt með einhverjar grunnpælingar og einhvern léttan söguþráð. Hann er mjög flinkur í að skapa frásögn og er mjög góður penni. Síðan hittumst við í bjór og ræðum þetta og ég hendi inn nokkrum bröndurum hér og þar. Það kemur eitthvert tvist á þetta og kannski breytist sagan eitthvað. Ég skapa karakterana og það breytist ef til vill líka. Við grýtum steininum á milli okkar þangað til það er komið létt handrit. Þá sest ég yfir þetta og laga þar til sagan er komin.“

Björn segir þægilegt að vinna að sögunum í samstarfi við annan höfund. „Mér finnst þetta mjög þægilegt því þá festist maður ekki í skelinni sinni. Maður þarf að hugsa um hvernig meðhöfundurinn sér þetta og hvort þetta sé líka hans pæling. Svo þarf maður að endurhugsa hugmyndirnar svolítið og velur ekki alltaf þá fyrstu. Við erum svo góðir vinir og við erum á frekar svipuðu hugmyndaplani svo við þurfum ekki mikið að rembast við að tengja varðandi svona hugmyndir og þannig.“

Fáránleikinn snúinn upp á sjálfan sig

Vissulega er mikið um hugmyndir í fyrsta tölublaðinu og eru þær jafnskrýtnar og þær eru klúrar. „Fyrsta sagan er um eðlu sem býr á Íslandi eftir heimsendi og lendir óvart í því að vera eins konar kosmískur ferðamaður að bjarga áttundu víddinni. Ég get eiginlega ekki sagt mikið meira en þetta er framhaldssaga og næsti hluti kemur í næsta blaði. Ég fékk síðan annan listamann undir listamannsnafninu Kraumdýr Sáðmann til að teikna næstu sögu. Okkur langar til að bjóða mörgum teiknurum til að taka þátt í hverju blaði sem við gefum út.“

„Síðan er ein saga um strák sem lendir í veseni af því að hann er búinn að lofa tveimur stelpum að fara með þeim á ball. Ted Bundy er besti vinur hans svo hann neyðist til að drepa aðra. Þetta er Calvin og Hobbes pæling, en ef Hobbes væri Ted Bundy. Ég mála gamla hugmynd á aðeins myrkari hátt. Þriðja sagan er eins konar vitundarflæði um það hvernig við teljum mögulegt að heimurinn muni enda sökum tækninnar. Þetta er allt fáránleiki snúinn upp á sjálfan sig. Að lokum er sería sem heitir Naflakusk sem ég geri sjálfur. Það eru ekki sögur en þetta er í myndasöguforminu, eins og abstraktteikningar sem skapa ákveðna stemningu.“

Björn og Ægir stefna að því að gefa út fleiri tölublöð af Mergæxli á næstunni. „Fyrst ég er búinn að skrifa eitt tölublað er ákveðin pressa á að gefa út annað. Það er hálfaumingjalegt að gefa bara út eitt. Við erum með fullt af handritum og pælingum. Einn fjórði ef ekki minna kemst niður á blað. Eins og Ægir, hann er eins og vél. Það kemur endalaust úr honum. Ég veiði bara eina og eina hugmynd upp úr honum. Við erum að reyna að skrifa þetta niður og meira að segja það sem við erum með núna kemst sennilega ekki fyrir í næsta tölublaði.“

Fyrsta tölublað Mergæxlis er fáanlegt í Nexus og Lucky Records. Að sögn Bjarnar verður annað upplag af tölublaðinu brátt prentað og sent þangað.