[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Baldur Arnarson baldura@mbl.is Ólafur Torfason, stjórnarformaður Íslandshótela, segir hvern gest dvelja að meðaltali í 20% skemmri tíma á Grand hóteli í Sigtúni í Reykjavík, öðru stærsta hóteli landsins, en á sama tíma í fyrra.

Baksvið

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Ólafur Torfason, stjórnarformaður Íslandshótela, segir hvern gest dvelja að meðaltali í 20% skemmri tíma á Grand hóteli í Sigtúni í Reykjavík, öðru stærsta hóteli landsins, en á sama tíma í fyrra.

Gestirnir hafi dvalið að meðaltali 2,4-2,6 nætur á hótelinu í júlí, borið saman við 2,1 nótt í júlí í ár. Þetta sé búin að vera þróunin síðan í janúar. Ólafur áætlar að framlegðin af rekstrinum minnki um 300 milljónir í ár. Skýringin sé sambland af nokkrum þáttum. Styrking krónunnar vegi þungt. Um helmingur teknanna sé enda í evrum.

Ólafur segir ferðalög til Íslands orðin dýr fyrir marga markhópa.

„Við erum orðin of dýr. Þá hefur það þessi áhrif,“ segir Ólafur.

Hann segir aðspurður ekki sjálfgefið að ferðamönnum fjölgi stöðugt ár frá ári. „Maður hefur verið hikandi og sagt sem svo að þetta væri of gott til að vera satt. Við áttum nóg af lausum herbergjum 2009 og 2010 og gátum tekið við aukningunni 2011, 2012 og 2013,“ segir Ólafur og lýsir yfir efasemdum um talningu erlendra ferðamanna. Til dæmis séu erlendir launamenn á Íslandi taldir sem ferðamenn þegar þeir heimsæki ættingja í heimalandinu.

Tali greinina ekki niður

Ólafur segir neikvæða umræðu um ferðaþjónustuna og umgengni ferðamanna vera varhugaverða. „Við megum ekki vera að tala þetta niður með gagnrýni á þetta allt saman,“ segir Ólafur sem hefur rekið hótel í um aldarfjórðung.

Eigandi nokkurra hótelíbúða í miðborginni sem ræddi við Morgunblaðið í trausti nafnleyndar sagði tekjur í krónum hafa dregist saman um tugi prósenta milli ára.

Hætti hótelgestum að fjölga, eða að skemmri dvöl vegi á móti fjölgun gesta, mun það að óbreyttu hafa áhrif á fjárfestingu í hótelgeiranum.

Samkvæmt spá Arion banka í fyrrahaust mun hótelherbergjum í Reykjavík fjölga úr 4.560 í árslok 2016 í um 7.000 árið 2020.

Þá kom fram í kynningu Dags B. Eggertssonar borgarstjóra 19. maí sl. að um 4.300 hótelherbergi voru þá samþykkt, eða í undirbúningi. Á þann lista vantaði til dæmis þrjá áformaða gististaði við Kjörgarð á Laugavegi. Þá eru minnst fjögur hótel áformuð í Kópavogi og það fimmta í byggingu. Eitt hótel er í undirbúningi á Strandgötu í Hafnarfirði, svo fáein dæmi séu tekin.