Laugardagsgátan er sem endranær eftir Guðmund Arnfinnsson: Hreinlætinu þjónar það. Þetta menn um hálsinn bera. Blóðrás heftir strax í stað. Strangi korns má líka vera.

Laugardagsgátan er sem endranær eftir Guðmund Arnfinnsson:

Hreinlætinu þjónar það.

Þetta menn um hálsinn bera.

Blóðrás heftir strax í stað.

Strangi korns má líka vera.

„Tíminn hljóp frá mér síðast en hér er lausnin,“ svarar Harpa á Hjarðarfelli:

Nú leikur allt í lyndi

á lofti sólin skín.

hér beðið er um bindi

bæði mín og þín.

Guðrún Bjarnadóttir á þessa lausn:

Dömubindabendan floppar.

Bindið hnýtir spenntur karlinn.

Sárabindi blóðrennsl stoppar.

Bindum korns er hent á pallinn.

Þannig leysir Árni Blöndal gátuna:

Á barneignaaldri brúkar hún sín

bera þau karlar með þótta

frá sýkingu verja þau sárin mín

og svo er það heldur ekkert grín

því blæðingar ollu mér ótta.

„Hér kemur lausnin,“ segir Helgi R. Einarsson:

Við dömu bæði og herra hér

held ég bindi tengi.

Korn og sára sýnist mér

að sömu meðferð fengi.

Sjálfur skýrir Guðmundur gátuna þannig:

Drósir nota dömubindi.

Doppótt bindi um háls ég sá.

Bindi stoppar blóð í skyndi.

Bindi korns hér nefna má.

Þá limra:

Það er margt, sem á fjörur flýtur

við Faxaskjól, hvert sem þú lítur,

saur úr mönnum

sést þar í hrönnum,

skítur og aftur skítur.

Og í framhaldi:

Bleiur og dömubindi

og blautþurrkur finna myndi

sá, sem þar gengi

og gengi ekki lengi,

uns gersemar fleiri hann fyndi.

Og að lokum ný gáta:

Væta er mikil á völlum.

Vatn hygg ég orð merki þetta.

Margfróðan mann þennan köllum.

Mikið er brimrót við kletta.

Halldór Blöndal

(halldorblondal@simnet.is)