Þrjú skemmtiferðaskip liggja nú við höfnina á Ísafirði, en um næstu helgi er búist við fjórum skipum þangað með alls 4.300 farþega um borð.

Þrjú skemmtiferðaskip liggja nú við höfnina á Ísafirði, en um næstu helgi er búist við fjórum skipum þangað með alls 4.300 farþega um borð.

„Það hefur verið 15-20 prósenta aukning á hverju ári,“ segir Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri á Ísafirði, í samtali við Morgunblaðið. „Í fyrra komu 80 þúsund farþegar til bæjarins með skemmtiferðaskipum og í ár er áætlað að fjöldinn verði um 100 þúsund,“ bætir hann við.

Gísli segir ferðamenn setja skemmtilegan svip á bæinn og ferðaþjónustuaðilar á svæðinu hafi unnið þrekvirki við að sinna öllum þessum fjölda. „Þessum fjölda fylgir einnig álag á innviði bæjarins, en hér búa um 2.800 manns. Íbúafjöldinn margfaldast svo um verslunarmannahelgina þegar hingað kemur fjöldi fólks í Mýrarboltann auk 4.300 farþega á skemmtiferðaskipum.“

Álagið er viðráðanlegt, þótt mikið sé, en það er einna mest á sjúkrahús bæjarins. „Þessi skip eru vel mönnuð læknum og fagfólki sem sinna minni áverkum en við þurfum að sinna stórum útköllum ef einhver verða.“ vilhjalmur@mbl.is