Norðurlandamót drengjalandsliða í knattspyrnu, U17 ára, hefst á morgun en mótið fer fram hér á landi og riðlakeppnin er öll leikin á Suðurnesjum og á Suðurlandi.
Íslenska liðið, undir stjórn Þorláks Árnasonar, er í A-riðli mótsins ásamt Norður-Írlandi, Noregi og Póllandi og mætir Norður-Írum í fyrsta leik sínum á morgun, sunnudag, í Sandgerði. Liðið leikur við Norðmenn í Vogum á þriðjudaginn og við Pólverja í Garði á fimmtudaginn.
Í B-riðlinum eru Danmörk, Finnland, Færeyjar og Svíþjóð og er fyrsta umferðin leikin á Selfossi á morgun, önnur umferð í Þorlákshöfn á þriðjudaginn og sú þriðja á Selfossi á fimmtudaginn.
Úrslitaleikir um sæti fara síðan fram á höfuðborgarsvæðinu á laugardaginn kemur en úrslitaleikurinn sjálfur verður á Floridana-velli Fylkis í Árbænum.
Íslenska liðið skipa eftirtaldir piltar: Egill Darri Þorvaldsson (Breiðabliki), Karl Friðleifur Gunnarsson (Breiðabliki), Stefán Ingi Sigurðarson (Breiðabliki), Andri Lucas Guðjohnsen (Espanyol), Einar Örn Harðarson (FH), Teitur Magnússon (FH), Jóhann Árni Gunnarsson (Fjölni), Kristall Máni Ingason (Fjölni), Sigurjón Daði Harðarson (Fjölni), Valgeir Lunddal Friðriksson (Fjölni), Mikael Egill Ellertsson (Fram), Davíð Snær Jóhannsson (Keflavík), Finnur Tómas Pálmason (KR), Ómar Castaldo Einarsson (KR), Ísak Snær Þorvaldsson (Norwich), Guðmundur Axel Hilmarsson (Selfossi), Arnór Ingi Kristinsson (Stjörnunni), Sölvi Snær Fodilsson (Stjörnunni), Þórður Gunnar Hafþórsson (Vestra) og Atli Barkarson (Völsungi). vs@mbl.is