Ytri-Rangá fór í efsta sætið þegar Landssamband veiðifélaga birti nýjar tölur á vef sínum. Samantektin er frá veiði í lok síðasta miðvikudags, 26. júlí.
Eftir veiði síðustu viku bættust við þrjár ár sem hafa farið yfir 1.000 laxa markið en fyrir var Þverá/Kjarrá, sem var í efsta sætinu í síðustu viku. Ytri-Rangá er núna efst á listanum og veiðin komin í 1.570 laxa. Óhætt er að segja að veiðin hafi gengið vel síðastliðna viku en vikuveiðin var 668 laxar, segir á vef landssambandsins. Í öðru sæti er Miðfjarðará með 1.458 laxa. Þar gengur veiðin einnig vel þrátt fyrir hlýindin undanfarna daga fyrir norðan en vikuveiðin var 256 laxar. Í þriðja sæti er Þverá/Kjarrá með 1.312 laxa og vikuveiðin var 74 laxar. Í fjórða sæti er Norðurá með 1.095 laxa og vikuveiðin var 129 laxar.
Eystri-Rangá var í 16. sætinu með 338 laxa. Hún á líklega mikið inni á lokasprettinum með sínar 18 stangir. Lokatölur í fyrra voru 3.254 laxar. sisi@mbl.is