Meistari Axel Bóasson fór út í grjótið en landaði sigri.
Meistari Axel Bóasson fór út í grjótið en landaði sigri. — Morgunblaðið/Ófeigur
Um síðustu helgi var mikill erill hjá starfsmönnum Sky og RÚV. Önnur stöðin sýndi þá frá Opna breska meistaramótinu í golfi og hin frá Íslandsmótinu í sömu íþrótt.

Um síðustu helgi var mikill erill hjá starfsmönnum Sky og RÚV. Önnur stöðin sýndi þá frá Opna breska meistaramótinu í golfi og hin frá Íslandsmótinu í sömu íþrótt. Lokadaginn sat ég límdur yfir þeirri stöð sem var með fleiri myndatökumenn á vettvangi og horfði á æsispennandi keppni á milli Bandaríkjamannanna Jordans Spieth og Matts Kutchar.

Á Íslandsmótinu voru úrslitin ráðin hjá konunum og virtust ráðin hjá körlunum þar sem Axel Bóasson hafði góða forystu. Eftir magnþrungna keppni hafði hinn ungi Spieth betur gegn Kuchar og öðrum í þessu elsta golfmóti í heimi. Á þeim tímapunkti ákvað ég að hringja í karl föður minn, sem er mikill áhugamaður um þessa gömlu íþrótt, og fara yfir úrslitin með honum. Símtalið var á þessa leið:

„Sæll, pabbi. Fannst þér Jordan Spieth ekki flottur?“ Pabbi: „Ég hef engan tíma til að tala við þig. Axel er kominn í grjótið...“ og við tók sónninn: dudududu.

Ég var búinn að gleyma útsendingu ríkisstöðvarinnar á Íslandsmótinu á Hvaleyrinni.

Komst svo síðar að því að sá gamli var að horfa á bæði mótin í einu. Það kalla ég atvinnumennsku.

Björn Arnar Ólafsson

Höf.: Björn Arnar Ólafsson