Áslaug Sigurgrímsdóttir fæddist 30. júlí 1927. Hún lést 29. september 2015.

Útför Áslaugar fór fram 8. október 2015.

Vertu dyggð trúr

dögum öllum,

þá muntu ævi una,

og líf þitt líða,

sem lækur renni

dals í grænu grasi.

(Sveinbjörn Egilsson.)

Hinn 30. júli 2017, hefði Áslaug orðið 90 ára gömul.

Það var veturinn 1969, sem leiðir okkar lágu saman í Húsmæðraskóla Reykjavíkur. Hún var kennari, ég nemandi. Hún er besti kennari sem ég hef nokkurn tíman haft. Glöð, einstaklega elskuleg, alltaf brosandi og síðast en ekki síst, í tímum hjá henni þreifst alls ekkert einelti. Hún er einn af þeim einstöku mannlegu gullmolum sem ég hef hitt á lífsleiðinni. Hún og hennar kennslustundir hafa fylgt mér í gegnum lífið allar götur síðan og hún er ein af þeim sem ég hef reynt að taka mér til fyrirmyndar í lífinu. Mikill og sterkur karakter, sem og afkomandi hennar.

Blessuð sé minning Áslaugar og megi ykkur fólkinu hennar farnast vel í lífinu.

Rúna Knútsdóttir.