Reykjavíkurmaraþon Flestir hafa skráð sig í 10 km hlaupið.
Reykjavíkurmaraþon Flestir hafa skráð sig í 10 km hlaupið. — Morgunblaðið/Eggert
Urður Egilsdóttir urdur@mbl.is Yfir 9.200 manns hafa skráð sig í Reykjavíkurmaraþonið sem fer fram 19. ágúst næstkomandi. Það er um 10% aukning frá því á sama tíma í fyrra. Flestir hafa skráð sig í 10 km hlaupið, eða um 4.

Urður Egilsdóttir

urdur@mbl.is

Yfir 9.200 manns hafa skráð sig í Reykjavíkurmaraþonið sem fer fram 19. ágúst næstkomandi. Það er um 10% aukning frá því á sama tíma í fyrra. Flestir hafa skráð sig í 10 km hlaupið, eða um 4.300 manns, en fimm vegalengdir eru í boði. Þetta segir Anna Lilja Sigurðardóttir, upplýsinga- og samskiptastjóri Íþróttabandalags Reykjavíkur, en ÍBR hefur umsjón með hlaupinu.

Stefnir í skemmtilegt hlaup

Frá árinu 2007 hafa þátttakendur í maraþoninu getað hlaupið til styrktar góðu málefni en í fyrra söfnuðust um 97 milljónir króna. Að sögn Önnu Lilju væri mjög gaman ef söfnunin næði í ár yfir 100 milljónir. „Það er ekki yfirlýst markmið en það er bara að öllum gangi vel.“ Er þessi frétt var skrifuð hafði safnast 24.486.421 króna, 42% meira en á sama tíma í fyrra. „Það er því ekkert ólíklegt að við náum 100, maður verður allavega að vona það,“ segir hún. „Að svo stöddu er verið að safna fyrir 157 málefni og það gæti enn bæst í þann hóp en við erum með opið fyrir skráningu félaga til 4. ágúst.“

Anna Lilja segir að vikuna fyrir hlaupið sé mikið um vinnu og lítið um svefn hjá hópnum sem sér um það. Hún nefnir einnig að þá komi mestir peningar inn fyrir áheitasöfnunina, sérstaklega á hlaupadag. Rafræn skráning í hlaupið er opin til kl. 13 fimmtudaginn 17. ágúst en einnig er hægt að skrá sig á skráningarhátíð hlaupsins í Laugardalshöll sem er tveimur dögum fyrir hlaup. „Það stefnir í mjög skemmtilegt hlaup eins og alltaf og því hvetjum við fólk eindregið til þess að vera með.“