Einar Magnús Erlendsson fæddist í Vestmannaeyjum 11. janúar 1932. Hann lést á Heilbrigðisstofnun Suðurlands Vestmannaeyjum 19. júlí 2017.

Foreldrar hans voru Sigríður S. Einarsdóttir frá Miðey í Landeyjum, fædd 26. apríl 1886, dáin 29. desember 1987, og Erlendur Kristjánsson frá Auraseli í Fljótshlíð, fæddur 7. desember 1887, dáinn 11. október 1931. Hálfbræður Einars voru: Svavar Erlendsson og Ólafur Erlendsson. Einar Magnús kvæntist 13. ágúst 1955 Ásu Ingibergsdóttur, fædd 13. ágúst 1934. Foreldrar hennar voru Ágústa Jónsdóttir fædd 9. ágúst 1907, látin 27. október 1997. Ingibergur Friðriksson, fæddur 27. janúar 1909, látinn 1. janúar 1964. Börn Einars og Ásu eru: Ingibergur, fæddur 9. febrúar 1955, eiginkona Kristín, fædd 16. desember 1955. Dætur þeirra eru: Ása, fædd 24. ágúst 1977, eiginmaður Sigmundur R. Rafnsson, þau eiga þrjú börn. Kiddý, fædd 18. apríl 1984, eiginmaður Kári K. Kristjánsson, þau eiga tvö börn. Bjartey, fædd 26. ágúst 1991, sambýlismaður Valur Í. Aðalsteinsson. Sigríður, fædd 29. desember 1957, sambýlismaður Baldvin Örn. Börn hennar: Aldís, fædd 29. maí 1977, eiginmaður Baldvin Johnsen, þau eiga tvö börn. Einar Páll, fæddur 24. júní 1986, eiginkona Sara Björg Pétursdóttir, þau eiga tvær dætur. Daði Þór, fæddur 27. október 1992. Fyrir á Baldvin Örn dótturina Hrafnhildi. Ágúst, fæddur 9. desember 1960, eiginkona Iðunn Dísa, fædd 9. október 1961. Börn þeirra eru Minna Björk, fædd 20. desember 1977, eiginmaður Arnar Pétursson þau eiga tvö börn. Birkir, fæddur 15. september 1987, sambýliskona hans er Ása Guðrún Guðmundsdóttir, þau eiga einn son. Helgi, fæddur 9. des.ember 1963, sambýliskona Agnes Bára, fædd 29. október 1970, þeirra börn eru: Aron Hugi, fæddur 17. september 1992, sambýliskona hans er Guðrún Fanney. Arney Lind, fædd 27. ágúst 1994, sambýlismaður hennar er Þorsteinn Ingi, Arney Lind á einn son. Fyrir átti Helgi tvær dætur: Björg Ólöf, fædd 2. nóvember 1984, eiginmaður Adam Morksed, þau eiga einn son. Heiðdís Dögg, fædd 10. apríl 1985, eiginmaður Viðar Garðarsson, þau eiga þrjú börn. Hrefna, fædd 3. september 1966, eiginmaður Pétur Jónsson, fæddur 30. júlí 1963. Þeirra synir eru Hafþór Örn, fæddur 6. maí 1991, sambýliskona hans er Arna. Agnar, fæddur 30. apríl 1997, kærasta hans er Agnes Dís. Fyrir átti Pétur dótturna Söru Björgu, fædda 10. ágúst 1988, eiginmaður Einar Páll Pálsson, þau eiga tvær dætur. Einar var alinn upp í Vestmannaeyjum og bjó þar alla ævi, en fór til frændfólks síns í Landeyjum hvert sumar og var honum mjög hlýtt til sveitarinnar. Einar lærði húsgagnasmíði hjá Ólafi Gränz. Eftir það nám stofnaði hann ásamt fimm félögum sínum Nýjakompaníið. Þegar fyrirtækið hætti fóru þeir Þorvaldur Vigfússon að reka saman verkstæði sem nefnt var Þorvaldur & Einar. Seinustu starfsár sín starfaði hann í Húsey. Einar Magnús var mikill félagsmaður og ungur gekk hann í skátafélagið Faxa, keppti fyrir íþróttafélagið Tý, spilaði með Lúðrasveit Ve, var félagsmaður í GV og var einn af stofnendum Kiwanis í Vestmannaeyjum. Gegndi hann víða trúnaðarstörfum fyrir félög sín.

Útför hans verður gerð í dag, 29. júlí 2017, frá Landakirkju í Vestmannaeyjum, klukkan 13.

Elsku hjartans pabbi minn.

Ég sendi þér kæra kveðju

nú komin er lífsins nótt,

þig umvefji blessun og bænir

ég bið að þú sofir rótt.

Þó svíði sorg mitt hjarta

þá sælt er að vita af því,

þú laus ert úr veikinda viðjum

þín veröld er björt á ný.

Ég þakka þau ár sem ég átti

þá auðnu að hafa þig hér,

og það er svo margs að minnast

svo margt sem um hug minn fer,

þó þú sért horfinn úr heimi

ég hitti þig ekki um hríð,

þín minning er ljós sem lifir

og lýsir um ókomna tíð.

(Þórunn Sigurðardóttir)

Guð geymi þig, elsku pabbi minn, ég geymi allar minningarnar okkar.

Þinn

Ingibergur.

Elsku pabbi, nú komið er að kveðjustund.

Takk fyrir að vera til staðar fyrir okkur, takk fyrir alla hjálpina og alla þá þolinmæði og hlýhug sem þú sýndir okkur.

Við verðum kannski aldrei listamenn eða fagmenn þegar kemur að handverki eins og smíðum, en ef við náum að vera brot af þeirri manneskju sem þú varst megum við vel við una.

En komin eru leiðarlok

og lífsins kerti brunnið

og þín er liðin æviönn

á enda skeiðið runnið.

Í hugann kemur minning mörg,

og myndir horfinna daga,

frá liðnum stundum læðist fram

mörg ljúf og falleg saga.

Þín vinartryggð var traust og föst

og tengd því sanna og góða,

og djúpa hjartahlýju og ást

þú hafðir fram að bjóða.

Og hjá þér oft var heillastund,

við hryggð varst aldrei kenndur.

Þú komst með gleðigull í mund

og gafst á báðar hendur.

Svo, vinur kæri, vertu sæll,

nú vegir skilja að sinni.

Þín gæta máttug verndarvöld

á vegferð nýrri þinni.

Með heitu, bljúgu þeli þér

ég þakka kynninguna,

um göfugan og góðan dreng

ég geymi minninguna.

(Höf. ók.)

Blessuð sé minning þín.

Sigríður (Sirrý), Ágúst,

Helgi og Hrefna.

Einar tengdapabbi okkar er fallinn frá, eftir stutta og erfiða baráttu við krabbamein. Yndislegur maður sem öllum þótti svo vænt um og var áberandi hversu börn hændust að honum. Hans verður sárt saknað af samferðafólki. Með þessum fallega sálmi hér að neðan langar okkur að kveðja góðan vin. Elsku Ása okkar, missir þinn er mikill eftir 67 ára samveru.

Drottinn er minn hirðir,

mig mun ekkert bresta.

Á grænum grundum

lætur hann mig hvílast,

leiðir mig að vötnum,

þar sem ég má næðis njóta.

Hann hressir sál mína,

leiðir mig um rétta vegu

fyrir sakir nafns síns.

Jafnvel þótt ég fari um dimman dal,

óttast ég ekkert illt,

því að þú ert hjá mér,

sproti þinn og stafur hugga mig.

Þú býr mér borð

frammi fyrir fjendum mínum,

þú smyr höfuð mitt með olíu,

bikar minn er barmafullur.

Já, gæfa og náð fylgja mér

alla ævidaga mína,

og í húsi Drottins bý ég langa ævi.

(23. Davíðssálmur)

Iðunn og Pétur.

Söknuður brýst um í brjósti mér,

hver dagur sem líður er kvöl.

Ég vil ætíð vera hjá þér,

á betri stað ert þú nú kominn með

þessari dvöl.

Hjartað mitt var skilið eftir í stút,

guð þurfti nýjan engil í sitt síki.

Í maganum hef ég kvíðahnút,

heimili guðs köllum við himnaríki.

Veginn minn munt þú upplýsa,

tárin niður vanga mína renna.

Vængir þínir munu okkur hýsa,

orðin ég elska þig á vörum mínum brenna.

Söknuðurinn er mér um of,

bið ég til þín guð, faðir vor.

Hvenær mun þessi sársauki enda,

af hverju þurftum við í þessu að lenda?

Ég elska þig, að eilífu ég lofa þér því,

þar til nýr dagur rís.

Nú ert þú kominn í ævilangt frí,

við hittumst aftur í paradís.

(Arney Lind Helgadóttir)

Það er erfitt að hugsa til þess að þú sért ekki lengur hér, að við sjáumst ei meir. Þú varst alltaf svo glaður og með hjartað opið fyrir hverjum sem var. Þú tókst fólki eins og það var og lést okkur ávallt líða vel. Þú gafst mér svo mikinn tíma, ást og þolinmæði, sama hvað amaði að, þú hafðir alltaf opinn faðm, öxl til að gráta á og eyra til að hlusta. Þú varst alltaf til staðar, betri afa var ekki hægt að hugsa sér. Það er sársauki og sorg sem yfirgnæfir mann, einnig ánægja, ást og þakklæti fyrir að hafa fengið að kynnast þér og að hafa fengið að vera partur af þínu lífi. Afi, ég elska þig alltaf og að eilífu.

Það er erfitt fyrir lítinn þriggja ára langafastrák að skilja hvers vegna guð þurfti nýjan engil í himnaríki og hvers vegna hann valdi afa langa. Þú reyndist honum svo vel og verð ég þér ætíð þakklát fyrir alla þolinmæðina, ástina, umhyggjuna og áhugann sem þú sýndir þessum litla langafastrák. Hann elskar þig svo mikið og er erfitt að útskýra ykkar samband, því ég hef aldrei orðið vitni að jafnfallegu sambandi eins og var ykkar í milli. Hann sótti mikið í þig og var alltaf tilbúinn að kíkja í heimsókn til afa langa og ömmu löngu. Þið tókuð alltaf svo vel á móti honum og hljóp hann alltaf beint í fangið á þér og sat þar allan tímann, hvort sem það var heima hjá ykkur eða annars staðar. Þú varst besti vinur hans og hann saknar þín afskaplega mikið. Þú átt stóran part í hjartanu hans og minnist hann þín á hverjum degi. Sofðu rótt afi langi, ég elska þig.

Arney Lind Helgadóttir og Kristian Leví Norðfjörð

Arneyjarson.

Elsku hjartans prinsinn minn. Ó ef þú bara vissir hvað ég sakna þín sárt. Ég er svo endalaust þakklát fyrir að hafa fengið að vera elsku stelpan þín eins og þú kallaðir mig alltaf. Við vorum miklir vinir og dugleg að segja hvort öðru hversu mikið okkur þótti vænt um hvort annað. Að alast upp við það að það var bókstaflega ekkert sem þú gerðir ekki fyrir okkur krakkana er einstakt. Það var alltaf opið hús hjá ykkur ömmu. Það voru nú líka ófá skiptin sem við skellibjöllurnar hringdum í ykkur ömmu um miðja nótt bara til að segja ykkur frá einhverju skemmtilegu það kvöldið og auðvitað til að heyra þig segja okkur að ganga hægt um gleðinnar dyr, það var best og alltaf jafn fyndið.

Þú varst sú allra fallegasta sál sem ég hef þekkt, einstaklega blíður og ljúfur, hrikalega fyndinn og skemmtilegur og einstaklega sannur og góður vinur vina þinna. Ég sakna þess að geta ekki kysst þig og faðmað þegar ég vil, hlegið með þér að einhverri vitleysunni og spjallað við þig um allt og ekkert. Sakna þess að sjá þig ekki hrista hausinn og brosa þegar maður sagði þér frá einhverju misgáfulegu. Það var svo gott að eiga þig og elska.

Ég vona að þér líði vel núna, afi minn, og ég er stolt af þér hvernig þú fórst í gegnum síðustu mánuði. Amma stendur sig auðvitað ótrúlega vel og ég veit að þú ert stoltur af henni. Ég mun umvefja hana af allri þeirri ást sem ég á til, afi minn.

Takk fyrir allt, elskulegur.

...

Fyrir mér varst þú ímynd hins göfuga

og góða

svo fallegur, einlægur og hlýr

en örlög þín ráðin – mig setur hljóða

við hittumst ei aftur á ný.

(Höf. ók.)

Ég elska þig endalaust.

Þín

Kiddý Ingibergsdóttir (Kiddý).

Það er erfitt að þurfa að kveðja þig, elsku afi. Þú varst alltaf svo hress og satt best að segja hélt ég að þú yrðir hundrað ára! Það er ómetanlegt að geta rifjað upp allar góðu stundirnar okkar saman þegar ég reyni að sætta mig við þá hugsun að þú sért farinn. Alltaf var gott að koma við hjá ykkur ömmu á Illugagötunni, bæði þegar ég var lítil stelpa og ekki síst eftir að ég varð fullorðin og komin með fjölskyldu.

Við erum svo heppin að hafa fengið að hafa ykkur ömmu svona nálægt okkur í daglegu lífi, geta alltaf rennt við hjá ykkur og spjallað um allt og ekki neitt. Alltaf tókstu vel á móti okkur og umvafðir okkur hlýju þinni og ást, alltaf varstu boðinn og búinn að aðstoða okkur ef þess þurfti, hvort sem var að sækja á leikskólann, skólann eða aðstoða í alls kyns framkvæmdum á heimili okkar. Elsku afi minn, sumt fólk er þeim kostum búið að einhvern veginn er alltaf gaman í návist þess og allar minningar því tengdar kalla fram góða hluti. Þannig minnist ég þín, elsku afi, svo langt sem ég man.

Þín

Ása.

Elsku afi minn, aldrei hefði mig órað fyrir því þegar ég kvaddi þig síðastliðið sumar áður en ég hélt út til Svíþjóðar að það væri okkar hinsta kveðjustund. Þrátt fyrir að vera staddir hvor í sínu landinu og langt væri á milli okkar áttum við nokkur góð símtöl yfir hafið þar sem við náðum góðu spjalli. Við töluðum mikið um hvað það yrði nú gott þegar ég kæmi heim til Íslands og ég myndi kíkja í heimsókn til Eyja. Núna er ég kominn, en þú því miður farinn. Okkur tókst ekki að hittast í þetta skiptið, það verður bara að bíða betri tíma.

Ég minnist allra þeirra frábæru stunda sem við áttum saman. Þegar ég hugsa til baka eru mér minnisstæðastir allir þeir golfhringir sem við spiluðum og þolinmæðin sem þú bjóst yfir þegar þú varst að reyna að sýna mér sveifluna. Einnig hvað þér var alveg sama þegar ég varð betri en þú.

Þegar þú komst í heimsókn til Reykjavíkur var alltaf mjög mikilvægt fyrir þér að við tækjum að minnsta kosti einn bíltúr þar sem við skoðuðum alla helstu golfvelli höfuðborgarsvæðisins. Man ég hvað þér fannst gaman að skoða Urriðavöllinn og hvað þú vildir að við myndum spila litla æfingavöllinn þar við hliðina sem heitir Ljúflingur. Nú veit ég af hverju þú varst svona hrifinn af þeim síðarnefnda; hann átti svo vel við þig, algjör ljúflingur.

Mér þykir svo vænt um allt sem þú gerðir fyrir mig og ég gæti haldið endalaust áfram og rætt þær minningar sem ég á um þig, en það er efni í metsölubókina „Minningar Hafþórs um afa Einar“.

Elsku afi minn, ég vona að þú sért nú kominn á betri stað.

Hafþór Örn.

Elsku afi langi, við vildum bara segja takk fyrir allar góðu stundirnar sem við áttum saman. Heimsóknirnar á Illugagötu eftir æfingar, þar sem þið tókuð alltaf á móti okkur með nýblandaðan djús og jólaköku, voru ómetanlegar. Þú varst alltaf til þjónustu reiðubúinn, alveg sama hvort það var skutl (hvort sem það var bara heim eða að bera út blöð) eða hreinlega að gera upp herbergi. Þú munt alltaf eiga stóran stað í hjarta okkar.

Umhyggju og ástúð þína

okkur veittir hverja stund.

Ætíð gastu öðrum gefið

yl frá þinni hlýju lund.

Gáfur prýddu fagurt hjarta,

gleðin bjó í hreinni sál.

Í orði og verki að vera sannur

var þitt dýpsta hjartans mál.

(Ingibjörg Sigurðardóttir)

Þín er sárt saknað.

Kristín Rós og Sigurlaug.

Þegar Lilja Garðarsdóttir bróðurdóttir mín hringdi í mig til að tilkynna mér andlát Einars Magnúsar brá mér verulega. Ég vissi auðvitað af veikindum hans, sem stóðu stutt en voru snörp. Ég hafði vonast til að geta hitt hann í vor áður en ég færi af landinu í sumarfrí en örlögin höguðu því þannig að ég átti því miður ekki heimangengt. Magnús var æðrulaus og bjartsýnn þrátt fyrir veikindin og alltaf var jafn gaman að heyra í honum þó að við yrðum að láta símtöl nægja.

Á æskuheimili mínu í Vestmannaeyjum gekk Einar Magnús Erlendsson alltaf undir Magnúsarnafni sínu. Magnús ólst upp í næsta húsi við eldri bræður mína, Guðmund og Garðar, og var mikill vinur þeirra. Sigríður Einarsdóttir móðir Magnúsar var að sama skapi mikil vinkona Sigurbjargar móður minnar og því var mikill samgangur á milli heimilanna. Guðmundur var tveimur árum eldri en Magnús, en Garðar og Magnús voru jafnaldrar. Garðar og Magnús voru auk þess að vera skólabræður líka mikið saman í skátastarfi. Vinskapur bræðranna varð ævilangur og til marks um hann má nefna að Garðar bróðir og Magnús reistu sér hús hlið við hlið á Illugagötunni snemma í sínum búskap og það rifjaðist upp fyrir mér fyrir fáeinum dögum þegar ég hringdi í Ásu að gömlu símanúmerin þeirra voru valin af þeim í sameiningu og voru 1733 og 1734.

Þó að ég væri örverpi foreldra minna og tveimur áratugum yngri en fyrrnefndir bræður mínir varð Magnús ekki minni vinur minn. Á yngri árum leit ég oft á hann sem þriðja bróður minn og til marks um það má sjá að á gömlum uppstilltum ljósmyndum af okkur bræðrum teknum á ljósmyndastofu var Magnús oftast með okkur. Eldri bræðurnir og Magnús í sínu fínasta pússi og ég í matrósafötum.

Síðustu æviár bræðra minna einkenndust af veikindum, fyrst hjá Guðmundi og síðar hjá Garðari. Í veikindum þeirra var Magnús daglegur gestur hjá þeim á Sjúkrahúsi Vestmannaeyja og bar þá alltaf með sér hlýju og léttan andblæ.

Við Guðlaug kona mín höfum alltaf mætt mikilli hlýju og gestrisni á heimili Ásu og Magnúsar þegar við höfum verið á ferðinni í Eyjum og í samtali við Magnús nú í vor tók hann sérstaklega fram að við yrðum að heimsækja þau á nýja heimilið þeirra næst þegar við yrðum á ferðinni. Okkur þótti afskaplega vænt um Magnús og eigum eftir að sakna hans og hlýjunnar og mannkærleikans sem einkenndu hann.

Elsku Ása, megi þér veitast styrkur til að takast á við sorgina og innilegar samúðarkveðjur til barna ykkar og afkomenda þeirra. Við hlökkum til að hitta þig þegar við komum heim í ágúst.

Fjölnir Ásbjörnsson.

Á kveðjustund vil ég þakka Einari kærum vini mínum allar góðu samverustundirnar í gegnum tíðina. Vinátta er þá aðeins sönn þegar tveir vinir una glaðir í návist hvor annars án þess að talast við, þannig var það hjá okkur vinunum.

Við áttum saman margar góðar stundir og sameiginleg áhugamál. Báðir miklir Kiwanismenn í Kiwanisklúbbnum Helgafelli, vorum saman í stjórn og hússtjórn og störfuðum mikið við uppbyggingu hússins og klúbbsins. Báðir vorum við miklir fótboltaáhugamenn og fórum saman á völlinn hin síðari ár, hvöttum okkar menn og höfðum miklar skoðanir á frammistöðu þeirra. Oft þegar illa gekk hjá okkar mönnum sagðir þú að „það ætti að borga þessum snillingum meira“. Á síðustu árum púttuðum við daglega með eldri borgurum og höfðum mikið gaman af, enda miklir keppnismenn báðir tveir.

Vinskapur okkar hjónanna var einstakur og hefur staðið í áratugi, upp úr standa Kanaríferðirnar á hverju ári. Alltaf jafn gaman, mikil tilhlökkun og góður undirbúningur. Í þeim ferðum nutum við lífsins og eignuðumst marga góða sameiginlega vini.

Núna yljum við okkur við að skoða allar myndirnar sem teknar voru í ferðalögunum og lesa dagbækurnar sem skrifaðar voru. Þú varst góður penni og skráðir margt hjá þér og ef við vorum að rökræða fórstu bara upp á loft á Illugagötunni og komst með allt skjalfest, mörg ár aftur í tímann.

Við Dúra sendum Ásu vinkonu okkar og fjölskyldu innilegar samúðarkveðjur.

Megi góður Guð styrkja ykkur öll á þessari sorgarstund.

Hvíl í friði kæri vinur, þín verður sárt saknað.

Jóhann Ólafsson.

Mig langar til að minnast hér í fáum orðum og kveðja kæran vin og samferðamann, Einar Magnús Erlendsson, sem jarðsunginn verður frá Landakirkju í Vestmannaeyjum, í dag, 29. júlí. Fyrstu kynni mín af Einari voru þegar ég flutti til Vestmannaeyja, í októbermánuði árið 1969. Var ég búinn að læra húsasmíði hjá föður mínum í Reykjavík og fór að vinna hjá þeim félögum Bóa og Einari, eða Þorvaldi og Einari, eins og fyrirtækið hét. Ég tæplega 22 ára fékk vinnu hjá þeim félögum eftir að góður vinur, Gauji Manga bróðir tengdaföður míns sáluga, fékk þá til að ráða mig, þar sem við, unga fjölskyldan, vorum að flytja til Eyja. Starfaði ég hjá þeim félögum fram til ársins 1980, með örlitlum hléum. Grunar mig að þeim félögum hafi ekki alltaf líkað fyrirgangurinn í þessum peyja, en viss er ég um að pabba hafi létt við vistaskiptin. En þetta voru fyrstu árin. Ég veit eiginlega ekki hvernig ég á að orða það en með okkur Einari jókst vinskapurinn og væntumþykjan með árunum. Hittumst aldrei öðruvísi en að faðmast, og eins og Einar sagði svo oft: „Gummi, mér finnst ég eiga svolítið í þér.“ Það voru orð að sönnu, þau Ása eiginkona Einars voru mér og fjölskyldunni alla tíð mjög góð. Við búandi í næsta húsi fyrstu árin og því töluverður samgangur krakkana í hverfinu. Við Einar urðum síðan samferða í starfi Kiwanisklúbbsins Helgafells sem hann tók þátt í að stofna árið 1967, klúbburinn nú 50 ára. Varð hann m.a. forseti klúbbsins árið 1981 og gegndi þar mörgum trúnaðarstörfum sem spönnuðu frá árinu 1968 til ársins 1999. Var Einar sæmdur Gullstjörnu klúbbsins sem og gerður að heiðursfélaga. Ég gekk í klúbbinn 1974. Það var oft glatt á hjalla, margt rifjað upp og mikið hlegið.

Þegar Einar hóf að stunda golf gerði hann tilraun til að taka mig með og pota bakteríunni í mig. Hann hætti þeim tilraunum fljótt, sennilega séð fáa slá í vinkil já og reyndar aftur fyrir sig. Einar tók mikinn þátt í félagsstarfi í Vestmannaeyjum, var mikill skáti, í Lúðrasveit Vestmannaeyja o.fl.

Já, það er margs að minnast sem allt var í björtu, annað var ekki á dagskrá. Þær minningar gleðja og verður haldið á lofti.

Það er komið að leiðarlokum. Lífið heldur áfram og hefur sinn gang, en minningarnar um Einar gleðja á sorgarstund sem þessari. Ég vil biðja algóðan Guð að styrkja og blessa fjölskyldu og vini. Far þú í friði, vinur, blessuð sé minning þín, hafðu þakkir fyrir allt og allt.

Guðmundur Þ.B. Ólafsson

og fjölskylda.

Kveðja frá Kiwanisklúbbnum Helgafelli í Vestmannaeyjum

Fallinn er frá Einar Magnús Erlendsson, einn af stofnfélögum Kiwanisklúbbsins Helgafells í Vestmannaeyjum. Klúbburinn var stofnaður árið 1967 af mörgum dugmiklum Eyjamönnum, en klúbburinn er 50 ára á þessu ári og sá þriðji elsti á landinu. Starfið hefur verið mikið í gegnum árin og lét Einar sitt ekki eftir liggja. Þeir voru stórhuga sporgöngumennirnir í klúbbnum, keyptu hús undir starfið, sem varð fyrsta Kiwanishúsið í Evrópu. Í Heimaeyjargosinu 1973 fór húsið undir hraun og eyðilagðist. Menn brettu upp ermar, keyptu hálfbyggt hús og fullgerðu það síðan. Það reyndi mikið á menn í allri þessari starfsemi og naut klúbburinn þess þá vel að Einar var húsgagnasmiður, jafnvígur á alla innréttingasmíði sem og önnur verk. Einar gegndi mörgum trúnaðarstörfum og stjórnarstörfum frá árinu 1968 til 1999 og var forseti klúbbsins árið 1981. Klúbburinn á Einari mikið að þakka og það er ekki síst fyrir félaga eins og hann að klúbburinn er stærstur allra kiwanisklúbba í Evrópu og þótt víðar væri leitað. Einar var sæmdur gullstjörnu sem stofnfélagi þegar klúbburinn varð 40 ára og gerður að heiðursfélaga þegar hann varð áttræður. Á þessum tímamótum kveðjum við góðan vin og félaga, sem við viljum þakka af alhug fyrir sitt góða starf fyrir klúbbinn og samfélagið, sem og ánægjulega samfylgd alla tíð. Hugur okkar er hjá fjölskyldu Einars, sem að stórum hluta hefur einnig komið að starfi klúbbsins.

Elsku Ása og fjölskylda, megi góður guð styrkja ykkur og blessa. Minningin um góðan félaga og vin mun lifa. Blessuð sé minning Einars Magnúsar Erlendssonar.

Fyrir hönd kiwanisfélaga í Vestmannaeyjum,

Tómas Sveinsson.

HINSTA KVEÐJA
Elsku afi langi, ég er voða leiður að þú sért dáinn og sakna þín rosa mikið. Stundum ruglast ég aðeins á því hvert þú ert farinn og held að þú sért í Hvergilandi hjá Pétri Pan í sjóræningjaleik og vildi að við gætum leikið aftur saman, en mamma er búin að segja mér að þú sért núna engill á himnum og passir mig alltaf. Takk fyrir að vera alltaf svona góður við mig.
Þinn
Ingibergur yngri.