Bragi L. Hauksson
Bragi L. Hauksson
Eftir Braga L. Hauksson: "Stjórnmálamenn ættu að sýna meira þor og nýta íbúakosningar mun oftar."

Stjórnmálamenn tala gjarna fjálglega um mikilvægi lýðræðis og ást sína á því. Þeir fagna möguleikum sem beint lýðræði býður upp á og vilja hafa fólk með í ráðum, að minnsta kosti ef það er sammála þeim. Almenningur er duglegur að tjá sig á samfélagsmiðlum, í heita pottinum og á kaffistofunni og kvartar sáran undan áhrifaleysi sínu á milli þing- og sveitarstjórnarkosninga. Löggjafinn hefur brugðist við þessu og eru nokkur ár síðan lögfest var að sveitarstjórnir geta haldið íbúakosningar um einstök álitamál og eins geta íbúar krafist íbúakosninga um einstök mál. Það þarf 20-33% kosningabærra íbúa til að krefjast íbúakosninga. Hægt er að fá leyfi ráðherra fyrir því að kosningarnar séu eingöngu rafrænar, en þannig má draga verulega úr kostnaði vegna kosninganna.

Haldnar hafa verið tvennar íbúakosningar eftir að þetta var lögfest. Í Ölfusi, þar sem sveitarstjórn ákvað að bera undir íbúana hvernig þeim litist á viðræður um sameiningu við önnur sveitarfélög, auk þess sem kosið var um nokkur önnur mál. Þessar kosningar heppnuðust vel og var þátttaka yfir 40%.

Í Reykjanesbæ kröfðust ríflega 25% kjósenda að kosið yrði um skipulag vegna framkvæmda í Helguvík. Kosningar fóru síðan fram, en mun færri en höfðu krafist kosninga kusu!

Auk þessa má nefna að kosið hefur verið í Reykjavík um smærri framkvæmdir í hverfum borgarinnar undanfarin ár og nú síðast var það sama gert í Kópavogi. Þetta er gott framtak, en ótengt skilgreindum íbúakosningum í sveitarstjórnarlögum. Fólk hefur getað forgangsraðað smærri verkefnum, svo sem hundagerðum, bekkjum, ruslastömpum, aparólum og hjólabrettaaðstöðu, svo nokkur dæmi séu tekin. Verkefnin hafa yfirleitt ekki verið hápólitísk.

Það má velta því fyrir sér af hverju sveitarstjórnir eru ekki duglegri við að nýta íbúakosningar til þess að gera út um umdeild mál og færa valdið til fólksins? Kannski er ástæðan sú að stjórnmálamenn við völd þora ekki að spyrja ef þeir halda að niðurstaðan verði ekki í samræmi við skoðanir þeirra því þá geti komið upp einhvers konar „pólitískur ómöguleiki“ ef framfylgja þarf vilja kjósenda! Það er vissulega vel þekkt sums staðar í heiminum að stjórnvöld hafa áttað sig á því að það er tómt vesen að leyfa kjósendum að ráða. Winston Churchill orðaði þetta ágætlega þegar hann sagði árið 1947 að „lýðræði væri versta stjórnskipulag sem til væri“, en svo bætti hann reyndar við, „fyrir utan öll hin“.

Stjórnmálamenn ættu að sýna meira þor og nýta íbúakosningar mun oftar.

Það er líka illskiljanlegt að kjósendur sem kvarta undan áhrifaleysi sínu og getuleysi stjórnmálamanna skuli ekki vera duglegri við að nýta þá leið að krefjast íbúakosninga í sveitarfélögum. Það er ekki bara hægt að kenna stjórnmálamönnum um ef illa fer, ef upplögð tækifæri til að hafa áhrif eru ekki nýtt.

Ég skora á almenning og stjórnmálamenn að sýna djörfung og dug og nýta betur tækifærin til að láta lýðræðið blómstra.

Höfundur er verkefnastjóri rafrænnar stjórnsýslu hjá Þjóðskrá Íslands.

Höf.: Braga L. Hauksson