Minnisvarði Reynir Sveinsson og Bjarki Týr Gylfason við Jón forseta.
Minnisvarði Reynir Sveinsson og Bjarki Týr Gylfason við Jón forseta. — Ljósmynd/Jón Ben Guðjónsson
Á dögunum var nýtt líkan af togaranum Jóni forseta RE sett á minnisvarðann sem reistur var við Stafnes árið 2009, til minningar um þá 15 skipverja Jóns forseta sem fórust í strandi togarans á þessum slóðum árið 1928.

Á dögunum var nýtt líkan af togaranum Jóni forseta RE sett á minnisvarðann sem reistur var við Stafnes árið 2009, til minningar um þá 15 skipverja Jóns forseta sem fórust í strandi togarans á þessum slóðum árið 1928.

Jón forseti var fyrsti togarinn sem smíðaður var fyrir Íslendinga. Hinn 27. febrúar 1928 strandaði togarinn á Kolaflúð, beint framundan Stafnesvita. Skipverjarnir fórust þegar mikill brotsjór gekk yfir skipið á strandstað en af miklu harðfylgi tókst heimamönnum að bjarga 10 skipverjum í land. Þótti það mikið þrekvirki á þeim árum, þegar engin björgunartæki voru til staðar.

Reynir Sveinsson, fréttaritari Morgunblaðsins í Sandgerði, átti frumkvæði að því að minnisvarðinn yrði reistur um þessa atburði á Stafnesi. Fyrir fimm árum var minnisvarðinn skemmdur og líkani af togaranum var stolið. Studdi Sandgerðisbær endurgerð líkansins af Jóni forseta, sem er smíðað af Geislatækni í Garðabæ.

Reynir fékk aðstoð við að koma nýju líkani fyrir frá Bjarka Tý Gylfasyni og Jóni Ben Guðjónssyni.

„Það er von manna að þessi minnisvarði fái að standa um ókomna tíð,“ segir Reynir.