Janka Zalesakova
Janka Zalesakova
Eftir Jönku Zalesakovu: "Ég sannfærðist fljótt um að Reykhólar væru fullkominn staður til að byggja upp starfsemi af þessu tagi."

Árið 2004 bað Sigmar B. Hauksson mig að ferðast um Ísland í leit að hentugum stað fyrir lækninga-SPA á Íslandi. Á þessum tíma var ég forseti ESPA (European Spa Association). Einn þeirra staða sem ég heimsótti var Reykhólar sem er lítið þorp við norðanverðan Breiðafjörð. Ég varð forviða á að kynnast þar fólki sem hafði mikinn áhuga á þessu málefni – sveitarstjóranum, framkvæmdastjóra Þörungaverksmiðjunnar og sama gilti reyndar um flesta íbúana.

Ég sannfærðist fljótt um að Reykhólar væru fullkominn staður til að byggja upp starfsemi af þessu tagi. Þetta var vegna þess að staðurinn býr yfir óvenjulega fjölbreyttum auðlindum til náttúrulækninga – örvandi loftslagi, jarðvarma með kísil, aðgangi að sjó og leir – allt viðurkennt sem gott til lækninga í hefðbundnum evrópskum spa-löndum. Hvergi á Vestfjarðakjálkanum er að finna meira láglendi og jafnmikinn jarðhita og Reykhólar eru að auki staðsettir á þeim hluta kjálkans sem liggur næst höfuðborgarsvæðinu. Samgöngur eru með ágætum.

En það er fleira sem gerir Reykhóla að mjög sérstökum stað. Falleg náttúra, mikil kyrrð, ótrúlegt fuglalíf, sérstakar plöntur vaxa í nágrenninu og síðast en ekki síst er starfrækt þörungaverksmiðja á Reykhólum. Þangið og þarann er ekki einungis hægt að nota í iðnaði heldur einnig sem fæðubótarefni og að mínu áliti einnig til baða í lækningaskyni. Hvergi í heiminum nema á Reykhólum er hægt að baðast í jarðhitavatni sem í hefur verið blandað þörungum framleiddum á sama stað. Sérlög gilda um vernd Breiðafjarðar, einn fjarða á Íslandi, og líklega eru Reykhólar sá þéttbýlisstaður á Íslandi þar sem mestar líkur eru á að sjá haförn á flugi.

Ég hef veitt ráðgjöf og sérfræðiþjónustu á þessu sviði bæði á meginlandi Evrópu og fyrir vestan haf. Ég held samt sem áður að Reykhólar sé einn af allra bestu stöðunum fyrir nýtt spa af þeim öllum. Fyrir nokkrum árum kom heimafólk á laggirnar fyrsta vísi að spa-hóteli á Reykhólum undir nafninu „Sjávarsmiðjan“ sem er mjög gott frumkvæði frá heimamönnum. Margt fólk, alls staðar að úr heiminum, sérstaklega Evrópumenn, er sífellt að leita að góðu spa til þess að öðlast betri heilsu. Ég held að spa-aðstaða á Reykhólum gæti orðið mjög vinsæl meðal spa-ferðamanna að utan og einnig hjá Íslendingum. Best væri að gera þetta í samvinnu við heimamenn.

Ég hef heimsótt Ísland margsinnis síðan 2004 og í hvert skipti hef ég heimsótt Reykhóla. Næsta Íslandsferð mín er nú í ágústbyrjun og ég mun örugglega leggja leið mína til Reykhóla – til þess staðar þar sem fólk mun hugsanlega leita sér lækninga á spa-hóteli. Ég er tilbúin til að hitta áhugasama fjárfesta á þessu sviði.

Höfundur er forseti heilsulindasamtaka Slóvakíu og varaforseti ESPA. zaljanka@gmail.com

Höf.: Jönku Zalesakovu