EM2017
Víðir Sigurðsson
vs@mbl.is
Þegar íþróttafólk nær ekki markmiðum sínum eru fyrstu viðbrögð oftast mikil vonbrigði. Það getur tekið mislangan tíma að jafna sig á þeim. Síðan þarf að fara vel yfir það sem gerðist, finna hvað fór úrskeiðis og leita leiða til að gera betur og nýta sér til þess erfiða en dýrmæta reynslu.
Þetta þurfa landsliðskonurnar okkar í knattspyrnu að gera, nú þegar þær eru farnar heim frá Hollandi, mun fyrr en þær ætluðu sér. Hver og ein þarf að velta fyrir sér hvað hún hefði getað gert betur. Það þarf landsliðsþjálfarinn að gera, hann þarf að horfa í eigin barm, læra af mistökunum og nýta sér áunna reynslu og vonbrigði til að koma sínu liði aftur á réttan kjöl. Og það þarf KSÍ að gera, forráðamenn sambandsins þurfa meðal annars að gera upp við sig hvort núverandi landsliðsþjálfari sé sá sem eigi að halda áfram með verkefnið. Ef svo er, styðja hann í áframhaldandi uppbyggingu.
Endalausar vangaveltur
Það er endalaust hægt að velta sér uppúr því hvernig allt saman fór í Hollandi. Vissulega stóð þetta tæpt og það hefði ekki svo margt þurft að ganga upp til að við værum núna með öndina í hálsinum yfir viðureign við England í átta liða úrslitum keppninnar á morgun. Þá væri umræðan og stemningin á allt, allt annan veg en hún hefur verið alla þessa viku.Íslenska liðið var nokkrum mínútum frá því að ná óvæntu stigi gegn Frakklandi og leikurinn við Sviss var þannig að hann gat farið á hvorn veginn sem var. Líklega gerðu meiri einstaklingsgæði í liði Sviss út um þá viðureign. Leikurinn við Austurríki var auðvitað stórslys en það sást á fyrstu 15 mínútunum að íslensku leikmennirnir voru þegar farnir heim í huganum og það ætti ekki að dvelja of lengi við hann. Nema til að læra af gríðarlega vel skipulögðu liði Austurríkis.
Við getum líka endalaust rifist um hvort Freyr Alexandersson hefði átt að halda sig við leikaðferðina 4-3-3 eins og í undankeppninni í stað þess að breyta yfir í þriggja manna vörn á lokasprettinum fyrir EM.
Samkeppnin hefur harðnað
En það er ekki hægt að horfa framhjá þeirri staðreynd að íslenska liðið er smám saman að fá harðari keppni á alþjóðavettvangi en áður. Fjölmargar þjóðir sem áður áttu enga möguleika gegn betri liðum Evrópu, eins og Austurríki, Belgía og Portúgal, hafa sýnt og sannað á EM í Hollandi að breiddin hefur aukist verulega á undanförnum árum. Kvennafótboltinn er á mikilli uppleið. Eftir að hafa farið á lokakeppni EM 2009 og 2013 sé ég gríðarlegan mun á styrk, getu og færni liða og leikmanna á þessu móti og þeim fyrri. Munurinn á milli 2013 og 2017 er miklu meiri en hann var á milli 2009 og 2013.Ísland hefur átt víst og þægilegt sæti meðal 10-12 bestu liða Evrópu í meira en tuttugu ár en það er í hættu. Við getum engan veginn gefið okkur að leiðin verði greið inn á næsta Evrópumót þrátt fyrir að íslenska kvennalandsliðið hafi núna leikið á þremur slíkum í röð.
Viðvörunarbjöllur klingja
Helstu viðvörunarbjöllurnar klingja þegar horft er á sóknarleik og möguleika íslenska liðsins til að sækja að marki. Liðið fékk nokkur ágæt skallafæri þar sem boltinn fór yfir eða framhjá, en staðreyndin er sú að lið Íslands hitti bara tvívegis á mark andstæðinganna í leikjunum þremur. Í bæði skiptin gegn Sviss, þegar Fanndís Friðriksdóttir skoraði og þegar Sara Björk Gunnarsdóttir var rétt búin að jafna undir lokin með lúmskri hælspyrnu. Nokkrar aukaspyrnur á ágætum stöðum fóru í súginn og enduðu flestar í varnarvegg mótherjanna. Löngu innköstin hjá Sif Atladóttur bjuggu bara til eitt virkilega gott marktækifæri. Annars var því miður of lítið að frétta í sóknarleik íslenska liðsins á mótinu.
Tæknilega færnin
Þorlákur Árnason knattspyrnuþjálfari, sem þekkir mjög vel til kvennafótboltans eftir frábæran árangur sem þjálfari Stjörnunnar og að hafa farið með U17 ára stúlknalið Íslands í undanúrslit EM, kom inná áhugaverð atriði í viðtali hérna í Morgunblaðinu síðasta þriðjudag. Hann sér margt jákvætt, segir að liðið standi nær betri liðunum, sé í góðu líkamlegu standi, ákefðin og grimmdin séu mikil og okkar styrkur. Hinsvegar séu lið eins og Sviss og Austurríki með meiri tæknilega færni og íslenska liðið hafi ekki nálgast betri liðin hvað varðar færni á miklum hraða. Hann spyr hvort við höfum einblínt of mikið á líkamlega þáttinn í stað tækninnar. Þessu ættum við að velta vel fyrir okkur.
Athyglin af hinu góða
Landsliðskonurnar okkar fengu geysilega mikla athygli fyrir mótið í Hollandi og aldrei hefur verið fylgst jafn vel með þeim á stórmóti. Munurinn á 2017 og 2013 er gríðarlegur að þessu leyti og ekkert nema gott um það að segja. Í Svíþjóð fyrir fjórum árum voru nokkrir vinir og vandamenn að styðja liðið. Núna voru þúsundir í Hollandi. Þess vegna eru vonbrigðin kannski enn meiri en ella yfir því að liðið skyldi ekki ná lengra. Hvort sem raunhæft var að gera kröfur til þess eða ekki.Öll þessi athygli er af hinu góða, umræðan og gagnrýnin eru það líka og ég efast ekki um að okkar öflugu knattspyrnukonur muni nýta bæði meðbyrinn og mótvindinn til að taka næstu skref í rétta átt.