FH-ingar Arna Stefanía Guðmundsdóttir og Þórdís Eva Steinsdóttir eru í liði FH sem freistar þess að verja bikarmeistaratitilinn í Kaplakrika í dag.
FH-ingar Arna Stefanía Guðmundsdóttir og Þórdís Eva Steinsdóttir eru í liði FH sem freistar þess að verja bikarmeistaratitilinn í Kaplakrika í dag. — Morgunblaðið/Eggert
Frjálsar Víðir Sigurðsson vs@mbl.is FH-ingar freista þess í dag að verja bikarmeistaratitilinn í frjálsíþróttum á heimavelli sínum í Kaplakrika en bikarkeppni FRÍ fer þar fram í dag frá klukkan 13 til 15.

Frjálsar

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is

FH-ingar freista þess í dag að verja bikarmeistaratitilinn í frjálsíþróttum á heimavelli sínum í Kaplakrika en bikarkeppni FRÍ fer þar fram í dag frá klukkan 13 til 15.

FH-ingar unnu stigakeppnina í fyrra eftir harða keppni við ÍR, fengu 149 stig gegn 136 í heildina og sigruðu jafnframt á stigum bæði í karla- og kvennaflokki.

Sex lið keppa um bikarmeistaratitilinn en það eru FH, ÍR, Breiðablik, Ármann, HSK og lið Fjölnis og Aftureldingar, eða Fjölelding eins og það er kallað.

Margt af besta frjálsíþróttafólki landsins tekur þátt í mótinu og Íslandsmethafinn í 100 m hlaupi, Ari Bragi Kárason, keppir fyrir FH og kemur ferskur heim frá Þýskalandi þar sem hann vann mót í vikunni.

Öflugir spjótkastarar

Arna Stefanía Guðmundsdóttir keppir fyrir FH í 100 m grindahlaupi og 400 m hlaupi og búast má við hörkukeppni í spjótkasti karla. Þar takast á þrír 70 metra menn, Sindri Hrafn Guðmundsson úr Breiðabliki, Guðmundur Sverrisson úr ÍR og Örn Davíðsson úr FH. Við þá keppir líka heimsmethafinn úr röðum fatlaðra, Helgi Sveinsson, en hann er keppandi Ármanns í spjótkastinu.

Í liði ÍR eru m.a. Guðni Valur Guðnason kringlukastari, Óðinn Björn Þorsteinsson kúluvarpari, Hulda Þorsteinsdóttir stangarstökkvari og Hrafnhild Eir Hermóðsdóttir spretthlaupari svo einhverjir séu nefndir og hjá FH má nefna hlauparana Kolbein Höð Gunnarsson, Kormák Ara Hafliðason og stökkvarann Kristin Torfason. Þeir Kristinn og Þorsteinn Ingvarsson úr ÍR heyja væntanlega einvígi í þrístökkinu þó þeir hafi oftar tekist á í langstökki.

Karlarnir keppa í spjótkasti, þrístökki, 110 m grindahlaupi, 100 m hlaupi, 400 m hlaupi, hástökki, kringlukasti, 1.500 m hlaupi og 1.000 m boðhlaupi.

Konurnar keppa í stangarstökki, sleggjukasti, 100 m grindahlaupi, 100 m hlaupi, 400 m hlaupi, langstökki, kúluvarpi, 1.500 m hlaupi og 1.000 m boðhlaupi.

Byrjað er á kast- og stökkgreinum klukkan 13, ásamt 110 m grindahlaupi karla, en endað er á 1.000 m boðhlaupunum þar sem karlarnir hlaupa kl. 14.45 og svo konurnar kl. 15.00 en það er lokagrein mótsins.