Sigjón Bjarnason fæddist á Brekkubæ í Nesjum 16. júní 1931. Hann lést á Hjúkrunarheimilinu Skjólgarði 18. júlí 2017.

Foreldrar hans voru Bjarni Bjarnason, bóndi og söngstjóri, Brekkubæ, f. 10. maí 1897, d. 12. mars 1982, og kona hans Ragnheiður Sigjónsdóttir frá Fornustekkum, f. 11. apríl 1892, d. 22. desember 1979. Systkini Sigjóns voru tvö; Sigríður Ingibjörg Bjarnadóttir Kolbeins, f. 13. júlí 1927, og Baldur Bjarnason, f. 13. ágúst 1936, d. 19. maí 2010. Sigjón kvæntist 11. júní 1962 Kristínu Einarsdóttur, f. 10. ágúst 1942. Foreldrar hennar voru Einar Jóhannsson og Laufey Karlsdóttir frá Geithellum í Álftafirði. Börn Sigjóns og Kristínar eru: 1) Einar, f. 9. mars 1962. 2) Bjarni, f. 21. ágúst 1963, sambýliskona hans er Ásthildur Gísladóttir og eiga þau eina dóttur saman, Jónu Stínu en Ásthildur átti fyrir soninn Ásmund. Barnabörn þeirra eru fimm. 3) Þórólfur, f. 27. janúar 1965, sambýliskona hans er Guðný Vésteinsdóttir og eru börn þeirra Laufey Ósk, Einar Bessi og Friðrik Dúi. 4) Ragnheiður Laufey, f. 12. maí 1967, hún á einn son Sigjón Atla. 5) Helga Vilborg, f. 4. september 1968. Eiginmaður hennar er Þór Halldórsson og eru börn þeirra þrjú; Þórgunnur, Halldór Karl og Bjarney Anna.

Sigjón verður jarðsettur frá Hafnarkirkju í dag, 29. júlí 2017, klukkan 14.

Í ár eru þrjátíu ár síðan ég kynntist tengdaföður mínum, honum Nonna á Brekkubæ. Reyndar vantaði bara einn mánuð í að við gætum fagnað þeim áfanga saman en svo ég noti orð hans sem heyrðust æ oftar síðustu æviár hans: „Svona er lífið.“

Mér varð það strax ljóst að þarna færi einstakur maður, góðhjartaður og ljúfmenni af Guðs náð. Á fyrstu sambýlisárum okkar Helgu bjuggum við á Vopnafirði og það var gaman hvað Nonni var duglegur að koma í heimsókn og hringja til okkar. Hann vildi fá fréttir af veðri, hvernig gengi í búskapnum og segja okkur hvernig spáin væri fyrir næstu daga. Símtölin voru ekki alltaf löng en vinaleg var kveðjan þegar hann ákvað að nú væri komið nóg af spjalli, bless og bless og bless.

Sveitin var honum hugleikin og á Vopnafirði dásamaði hann landrýmið og heiðarnar. Hann vildi örugglega flytja eitthvað af landi og nágrannakærleik með sér í Nesin en þar er örlítill skortur á hvoru tveggja.

Það eru margar sögur sem koma upp í hugann en ein ferð líður mér seint úr minni en það var þegar við keyrðum saman á Vopnafjörð eftir tónleika í tilefni af sextíu ára afmæli hans. Á tónleikunum flutti hann lögin sín og ætluðum við svo að bruna af stað strax að þeim loknum. Nonni vildi enga veisluþrátt fyrir að Stína væri búin að tala um að bjóða fáeinum heim á Brekkubæ. Eftir tónleikana, eða þegar Nonni var búinn að standa sína plikt eins og hann sagði svo oft, tók gleðin öll völd og auðvitað var öllum boðið heim á Brekkubæ. Þetta lukkaðist vel, Stína hóaði til sín nokkrum konum og stóðu þær sveittar við pönnukökubakstur. Ég safnaði saman öllu því drammi sem ég átti og dugði það til að hægt var að skála fyrir afmælisbarninu. Eftir það settumst við upp í bíl og ókum af stað og þurfti ég ekkert að leggja til málanna næstu fimm klukkutíma. Sögurnar gjörsamlega streymdu frá afmælisbarninu en þess á milli talaði hann um landið sitt sem var honum svo kært, auðnina á öræfunum sem maður skyldi ekki vanmeta, það þyrfti ekki alltaf tré til að það væri fallegt. Auðvitað kom það fyrir að maður hafði heyrt eina og eina sögu áður en það gerði ekkert til því að ef sögumaðurinn smitar frá sér gleðinni eins og Nonni gerði alltaf þá getur maður hlustað aftur og aftur.

Svo þegar börnin fæddust kom enn ein góða hliðin á Nonna í ljós, afi sem var engum líkur. Hann mundi ekki alltaf eftir afmælisdögunum eða færði miklar veraldlegar gjafir en alltaf var hann duglegur að heimsækja þau og segja sögur af álfum, tröllum, sæskrímslum og kynjaverum. Hann sýndi þeim hvar jólasveinarnir áttu heima, talaði um jökulinn og stjörnurnar og þreyttist seint á að spila fyrir þau á píanóið.

Ég vona að minn elskulegi tengdafaðir hafi rétt fyrir sér varðandi framhaldslífið og sitji núna einhvers staðar á hlýjum og notalegum stað við píanóið og spili fyrir fólk í kringum sig, snúi sér svo við og segi söguna af því þegar þýska flugvélin flaug lágflug yfir Nesjunum á stríðsárunum og rétt áður en hann snýr sér við aftur þá skellir hann létt á lær og segir: „Tölum ekki meira um það.“

Þór Halldórsson.

Í dag kveðjum við hinstu kveðju Sigjón Bjarnason, eða Nonna á Brekkubæ eins og hann var almennt kallaður.

Kynni okkar hófust fyrir mörgum árum. Síminn hringdi, Nonni var staddur í Tónskólanum og hafði samið lag sem hann vantaði texta við. Til frekari útskýringar spilaði hann það í gegnum símann!

Þar sem undirritaður er ekki of „sterkur á svellinu“ í tónfræðinni mæltum við okkur mót og útkoman varð „Hafaldan“ sem Karlakórinn Jökull flutti undir stjórn Nonna.

Það er ómetanlegt, ekki síst fyrir lítið samfélag eins og hér, að eiga menn eins og Nonna sem lagði allt af mörkum í sjálfboðavinnu í félagsstarfi hér árum saman.

Nonni var einstakur persónuleiki, ljúfur í framkomu og jákvæður, en fyrst og síðast vinur vina sinna. Tónlistin var honum í blóð borin, og hans aðaláhugamál. Hann ólst upp á tónlistarheimili því faðir hans var kórstjóri og organisti árum saman. Nonni lifði og hrærðist í tónlistinni og samdi fjölda laga, bæði fyrir karlakórinn og fleiri kóra. Hann varð fyrsti stjórnandi Karlakórsins Jökuls árið 1973 og var einn af stofnendum kórsins.

Á kveðjustundu koma í hugann ljúfar minningar um góðan dreng. Minningar um ógleymanlega tónleika, þakklæti til hans og gleði yfir góðum og ánægjulegum kynnum í áratugi.

Við Agnes sendum Kristínu og fjölskyldu innilegar samúðarkveðjur.

Guð blessi minningu Sigjóns Bjarnasonar.

Guðbjartur Össurarson.

Með nokkrum orðum langar mig til að minnast vinar míns Sigjóns Bjarnasonar bónda og tónlistarmanns frá Brekkubæ. Ég var á þrettánda ári þegar ég kom til ykkar Stínu. Þannig vildi til að Guðný frænka mín var að fara í sveit til Stínu frænku sinnar og úr varð að ég fékk að koma líka. Ekki voru húsakynni á Brekkubæ í þá daga of mikil en vel var tekið á móti okkur sumarkrökkunum. Meiningin var að aðstoða með strákana ykkar þrjá og sitthvað fleira. Síðan kom ég aftur hluta úr næsta sumri, en lengri varð dvöl mín ekki, en engu að síður myndaðist traust og gott samband sem varað hefur allar götur síðan. Hér á árum áður komum við Björn með börnin okkar í sveitina til ykkar alltaf jafn velkomin. Einnig hefur það glatt okkur þegar þið Stína og stundum fleiri hafið gist hjá okkur. Gaman var að rifja upp með þér, Nonni minn, sumarið sem ég var hjá ykkur, þú þreyttist aldrei á að tala um okkur krakkana rekandi kýrnar niður í „Rot“ eða leik í „Virkinu“. Þótt heilsu þinni hafi hrakað undanfarin ár stóð aldrei á því að þú settist við píanóið og spilaðir eitthvað af lögunum þínum fyrir mig þegar við komum. Fyrr í sumar hringdi ég í Stínu til að fá fréttir af ykkur og varð það úr að ég talaði líka við þig. Ekki átti ég von á því að þetta yrði okkar síðasta samtal, kæri vinur, en svona er þetta bara. Hafðu þökk fyrir öll góðu samskiptin, elsku Nonni minn. Þín

Steinunn Ólafsdóttir.