Hagnaður Landsbréfa hf. á fyrri helmingi 2017 nam 556 milljónum króna eftir skatta samanborið við 291 milljón króna á sama tíma í fyrra og jókst hagnaðurinn því um 265 milljónir á milli ára, eða um 91%, að því er fram kemur í árshlutareikningi...

Hagnaður Landsbréfa hf. á fyrri helmingi 2017 nam 556 milljónum króna eftir skatta samanborið við 291 milljón króna á sama tíma í fyrra og jókst hagnaðurinn því um 265 milljónir á milli ára, eða um 91%, að því er fram kemur í árshlutareikningi félagsins.

Eigið fé Landsbréfa í lok tímabilsins nam rúmum 3,2 milljörðum króna og eiginfjárhlutfall var 111,86%.

Landsbréf, sem eru rekstrarfélag verðbréfasjóða, eru dótturfélag Landsbankans en í lok júní áttu um 13 þúsund einstaklingar og lögaðilar fjármuni í sjóðum í stýringu félagsins. Verðmæti eignanna nam 157 milljörðum króna og hefur lækkað um 15% á sex mánuðum, úr 184 milljörðum í upphafi ársins.

Í árshlutareikningnum sést að talsverðar sveiflur hafa verið í heildarfjárhæð eigna í stýringu en í lok árs 2015 nam fjárhæðin 129 milljörðum króna. Rekstrartekjur Landsbréfa jukust um 37% og námu rúmlega 1,1 milljarði króna en námu 828 milljónum á sama tímabili á síðasta ári.