[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þegar sá er þetta ritar hóf menntaskólanám haustið 1965 voru þéringar enn við lýði í Menntaskólanum í Reykjavík. Kennarar þéruðu nemendur og þess var krafist að skólasveinar og -meyjar svöruðu lærifeðrum og -mæðrum í sömu mynt.

Þegar sá er þetta ritar hóf menntaskólanám haustið 1965 voru þéringar enn við lýði í Menntaskólanum í Reykjavík. Kennarar þéruðu nemendur og þess var krafist að skólasveinar og -meyjar svöruðu lærifeðrum og -mæðrum í sömu mynt. Andkannalegt þótti okkur þetta í fyrstu og jafnvel dálítið spaugilegt en fljótlega komst maður þó upp á lagið. Það reyndist lítil fórn að læra vel og vandlega hvernig þéra skal, að minnsta kosti miðað við það sem við skárum upp í staðinn: Að vera þéruð. Það höfðum við aldrei áður verið, ekkert frekar en Fljótsdalshérað þar til Halldór Laxness bætti um betur í kvæði sínu um Hallormsstaðaskóg „– á yður prófar hann sína nýju skó“. Slíka háttvísi áttu fleiri skáld eftir að temja sér. Guðmundur Ingi Kristjánsson þéraði hrútana sína í kvæði sem hefst svo: „Þér hrútar, ég kveð yður kvæði“ og löngu síðar kom fram skáld sem þéraði sloppa heimilis síns.

Og misjöfn tök hafa menn löngum haft á þéringum, hvort sem um dýr eða héruð eða menn er að ræða. Benedikt Gröndal segir frá því í Dægradvöl að Björn Gunnlaugsson kennari á Bessastöðum, sem þéraði alla nema samkennara sína, hafi eitt sinn sagt við hund: „Já, ég held ég fari nú ekki að þéra yður.“ Alþýðufólki voru þéringar ef til vill ekki eins munntamar. Sigurjón Jónsson, læknir Svarfdælinga á öndverðri tuttugustu öld, var eitt sinn á leið í vitjun fram í dal í stórhríð. Fylgdarmaður sem óð fannfergið á undan honum leit um öxl á miðri leið og sagði í viðurkenningarskyni þegar hann sá að læknirinn hélt í við hann: „Það er mikið hvað yður druslist.“

Lengi vel fannst mér að ekkert hefði ég haft gagnlegra en einmitt þéringarnar upp úr námsdvölinni í MR (sem á þeirri tíð hét nú yfirleitt bara Menntó). Að sjálfsögðu undanskil ég þó þýsku endursagnirnar, það hefur reynst mér ómetanlegt í lífsbaráttunni í leik og starfi að eiga nokkrar helstu ljóðperlur Goethes og Heines og fleiri góðskálda fastar í innra minninu og geta dregið þær fram og viðrað við hentug tækifæri, án þess að vera almennilega mælandi á þýska tungu að öðru leyti. Það er áreiðanlega hollt og gott fyrir tungutak og heilastarfsemi að læra ljóð utanbókar, slíkt á ekkert skylt við stagl og verðskuldar ekki að vera líkt við vitsmunastarfsemi og námstækni páfagauka eins og vissar kennslufræðikreddur nýliðinna áratuga vildu meina. Sem betur fer virðast þær kreddur á undanhaldi, að minnsta kosti í bili. Neytum því ótrauð meðan á nefinu stendur.

Það skal þó viðurkennt að núorðið er ekki mikið gagn að því að kunna að þéra. Annað en bara að njóta ánægjunnar af þekkingunni. Sama gildir reyndar um z-reglurnar. Það er ekkert hagnýtt við að kunna þær upp á tíu en vissulega mjög gefandi. Sérstaklega þegar maður horfir á yfirlýsta zetuáhangendur skrifa orð eins og reynsla og skýrsla með zetu.

Þórarinn Eldjárn thorarinn@eldjarn.net

Höf.: Þórarinn Eldjárn thorarinn@eldjarn.net